Pólitísk greining á jafndægrum á hausti

Hægrið er í ákveðinni upplausn – og er niðurlæging Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum sennilega laukur sem skrælir sig sjálfur. Reikna má með því að þátttaka flokksins í ríkisstjórninni valdi þessu og þá undanlátssemi í ýmsum gælumálum Vg, svo sem banni á hvalveiðum, varðandi útlendingamál og orkumál.

Það sem fer með hann – að dómi þess sem hér skrifar – er þó öðru fremur að ríkisstjórnin er þjóðstjórn, inniheldur stjórnmálaskoðanir yfir allt litróf stjórnmálanna.

Og þar sem allir hafa neitunarvald gagnvart frumvörpum í stjórnarflokkunum og hver ráðherra gerir það sem honum sýnist, gerir ríkisstjórninn ekki neitt í þeim málum sem brenna á þjóðinni – hér fyrir sunnan – en Framsókn sér um landsbyggðina, einkum með hlutdeildarlánum sem fara bara þangað sem íbúðaverð er lágt. En hér fyrir sunnan er það húsnæðisleysið, sem er meiri orsakavaldur verðbólgu en allt annað, umferðamál, en ómögulegt er að komast leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu og út- og inn á svæðið um helgar og verðbólga. Þjóðstjórn má aldrei sitja nema í stuttan tíma.

Þá er ónefndur fíllinn í stofunni sem eru vextirnir, en telja má að Seðlabankinn hafi mörg önnur úrræði til að takmarka útlán bankanna en háa vexti – og virðast þeir vera gerðir í þeim tilgangi að fá íbúðarkaupendur til að fara í verðtryggð lán (en fjármálafyrirtæki eignast þá húsnæðið með uppítöku og uppboðum þegar lánin fara umfram virði húsnæðisins) og koma þeim á vonarvöl sem keyptu með lítilli útborgun. Þá geta vextirnir verið til þess gerðir að sannfæra þjóðina um að íslenska krónan þjóni okkur ekki lengur. Alla vegana verður ekki séð að vextirnir séu jákvæð aðgerð, hvorki pólitískt, efnahagslega og síst af öllu félagslega. Sá sem beitir sér við eldhúsborðið gæti sagt að vextirnir séu fágætt skemmdarverk.

Miðflokurinn

Miðflokkurinn virðist fá fylgið – sem einhverra hluta vegna er talið hægra fylgi – og hann er að ósekju talinn hægri flokkur. Miklu frekar er hann afturhaldssamur þjóðrembuflokkur, svipað og nokkur hluti Framsóknarmanna hefur verið. Til dæmis snýst hann gegn alþjóðlegri samvinnu – og þá alþjóðaviðskiptum, en hann styður verndartolla. Flokkurinn er varðhundur landbúnaðarins og landsbyggðarinnar, eins og Framsókn, og í rauninni bara þjóðernislegri útgáfa af gamla flokksfélagi Framsóknar í Reykjavík. Slagorð hans er „Íslandi allt“ sem er auðvitað nasistakveðja. Flokkurinn vill að Landsvirkjun sé í ríkiseigu. Frjáls viðskipti, samkeppnisreglur og önnur klassísk baráttumál hægrisins eiga ekki upp á pallborðið hjá Miðflokknum. Flokkurinn er tækifærissinnaður með afbrigðum.

Að vísu hefur Miðflokkurinn tekið upp nokkur mál frá alþjóðlega hægrinu, s.s. að vera á móti hælisleitendum (enginn getur verið á móti Pólverjum og Úkraínumönnum, sem bæði falla vel að okkar menningu og bjarga atvinnulífinu), að vera á móti grænum sköttum og orkupökkum ESB (hefur í því efni stuðning af rússneska hernaðinum á netinu gegn ESB). Þá gælir flokkurinn við ákveðin hægri mál s.s. einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu og aukna löggæslu.

Samfylkingin

Samfylkingin sameinar stjórnarandstöðuna (meðan Viðreisn og Píratar sitja á hliðarlínunni), enda þótt hún muni ekki breyta stefnunni varðandi útlendingamál og orkumál. En hún er á klassískri stefnu evrópskra sósíaldemókrataflokka, styður alþjóðaviðskipti, alþjóðasamvinnu og gæti tekið – ef hún lendir í ríkisstjórn sem er ekki þjóðstjórn – til hendinni í húsnæðismálum höfuðborgarsvæðisins (þótt Samfylkingin í Reykjavík vilji ekki brjóta nýtt land undir stórfellda íbúðabyggð), varðandi umferðarmál, verðbólgu og vexti. Það er þó fugl í skógi, en ekki í hendi. En eigum við nokkra aðra von?

Aðrir

Viðreisn og Píratar eru miklu klassískari hægri flokkar en Miðflokkurinn og ná einhverra hluta vegna ekki vopnum sínum. Ef Viðreisn léti af evrópuáherslum hirti það kannski hægra fylgið sem allt skriplar nú á skötu, en Píratarnir, þetta vandræðabarn sem fæddist illu heilli í búsáhaldabylgingunni og kom í stað vinstri bylgju, er með uppdráttarsýki og á sér sennilega enga framtíð. Enda herfilegur tækifærissinni.

Aðrir flokkar eru utan áhrifa sem stendur.

Er einhver lausn til?

Jú, auðvitað. Það þarf að rjúfa togstreituna milli hægrisins og vinstrisins. Ef þjóðin vill einkarekstur á ríkisþjónustu, svo sem í heilbrigðismálum, félagsmálum, menntamálum, vegamálum o.s.frv. er ekki um annað að ræða en að fara að þeim vilja. Við þurfum nefnilega að komast úr kyrrstöðu þjóðstjórnarinnar þar sem allt er í pattstöðu. Við verðum að fá framfarir, amk húsnæði, heilbrigðisþjónustu og samgöngur.

Hins vegar gæti Samfylkingin leitt okkur meira til félagslegra úrræða. En það er erfitt, 200 þús. skattgreiðendur halda ekki uppi sambærilegri þjónustu og milljónaþjóðirnar í nágrannaríkjunum, þannig að margt strandar á ríkisfjármálum. Lausnin við því er að auka hlut ríkistekna af þjóðartekjum umfram það sem gerist í nágrannaríkjunum – enda þótt hægrið muni berjast með kjafti og klóm gegn því – og það verður ekki gert nema með því að sækja fé til auðlindanna. Um það gæti slagurinn milli hægrisins og vinstrisins staðið öðru fremur (og gerir það nú þegar). En sá sem heldur að Samfylkingin sé alfarið á móti einkavæðingu verður fyrir vonbrigðum.

Til þess að farmfarir geti orðið þurfum við blokkamyndun til hægri og vinstri þannig að önnur hvor blokkin fái komið framfaramálum áfram á sínum forsendum. Það skiptir okkur meira máli en hvor blokkin og hvorar forsendurnar verða ofaná.