Starfsferill

Frá doktorsvörn 2008 hef ég unnið sem óháður ráðgjafi á sviði stjórnsýslu, við rannsóknir og tölfræðilega vinnslu, sem styrkþegi hjá Rannís, stundakennari við HÍ, gert útvarpsþætti og unnið við ESB-verkefni. Þá hef ég samið fræðigreinar, almennar greinar og bóka­dóma fyrir tímarit, blöð og vefmiðla, verið frummælandi á fundum og ráðstefnum og komið fram í fjölmiðlum. Og nú síðast, en ekki síst, ritað tvær bækur um Alþingi.

Ég starfa á vegum ReykjavíkurAkademíunnar.

Meðan á náminu stóð frá 2004 til 2008 var ég þátttakandi í ESB verkefnum, styrkþegi NORFA og sótti flestar ráðstefnur norrænna vísindamanna á sviði e-Government. Ég var um tíma styrkþegi Rannís og stundaði rannsóknir á vegum Háskóla Íslands. Þá kenndi ég stundakennslu við HÍ, ritaði fræðigreinar, bókadóma og greinar fyrir blöð og vefmiðla.

Ég vann hjá skrifstofu Alþingis frá 1989 til 2005 sem forstöðumaður upplýsinga- og tæknisviðs og heyrði sú staða beint undir skrifstofustjóra. Á sviðinu störfuðu þrjár deildir: tölvudeild, upplýsingadeild og almanna­tengsla­deild. Á fyrri hluta þessa tímabils þróuðust tölvu- og upplýsingamál skrifstofunnar mikið, bæði innri kerfi þingsins og þjónusta við starfsmenn, þingmenn og almenning. Ég hafði yfirumsjón með framkvæmd verkefna svo sem uppbyggingu gagnagrunna Alþingis, stjórn­kerfa fyrir þingsal, atkvæðagreiðslukerfis og vefkerfis um starfsemi þingsins. Þessi kerfi vöktu nokkra athygli í þjóðfélaginu, sérstaklega vefur Alþingis, enda opnaði hann fyrstur vefja evrópskra þjóðþinga í júlí 1994.

Á árunum 1981 til 1989 starfaði ég hjá Reiknistofnun Háskólans. Starfssvið mitt var í fyrstu almenn störf við kerfisumsjón: kerfisstjóri og netstjóri (hafði m.a. umsjón með íslenska hluta EARN/BITNET). Síðar starfaði ég að sjálfstæðum verkefnum. Á þessum tíma þróuðust hugmyndir háskólamanna um hlutverk upplýsingatækni hratt og nýjar hugmyndir komu gjarnan fyrst til Reiknistofnunar Háskólans og starfsmenn hennar tóku þátt í fjölda ráðstefna og námskeiða innan­lands og utan.