Menntun

Ég lauk doktorsnámi í stjórnsýslufræðum frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands 2008 og sótti námið einnig við Copenhagen Business School (CBS). Aðalleiðbeinandi var dr. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor. Doktorsverkefnið var heildstæð ritgerð um tölvumál ríkisins: Rafræn stjórnsýsla, forsendur og áhrif. Það byggir á tveimur viða­miklum rannsóknum, annars vegar meðal almennings og hins vegar meðal starfsmanna 39 ríkisstofnana og 5 stórfyrirtækja á markaði (m.a. banka), sem voru viðmiðunarhópar. Voru svör almennings og starfsfólks stjórnsýslunnar borin saman þegar við átti.

Ég lauk meistaranámi í opinberri stefnumótun og stjórnsýslu, MPA (Master of Public Administration) við félagsvísinda­deild Háskóla Íslands í júní 2002. Lokaverkefnið var heimilda­ritgerð um rafrænt lýðræði.

Ég stundaði almennt kennaranám við Kennaraháskóla Íslands á árunum 1974-77 og lauk því með B.Ed gráðu. Valfög voru íslenska og saga. Lokaverkefni var um aðbúnað í æðri skólum við upphaf verkmenntunar og fjallaði um kvennaskólana og bændaskólana.

Þá hef ég sótt fjölmörg námskeið, ráðstefnur og fræðslufundi á sviði stjórnunar, upp­lýsinga­tækni og stjórnsýslu hér heima og erlendis frá 1981 til dagsins í dag. Af þeim voru e-gov ráðstefnur bandarískra stjórnvalda lærdómsríkastar, oftast haldnar í Washington D.C. Þær samþætta stjórnsýsluverkefni, upplýsingatækni og leiðandi fram­tíðar­sýn fyrir stjórnsýsluna.