Um höfundinn

Ég starfa við ReykjavíkurAkademíuna og sinni rannsóknum á sviði félagsvísinda. Ég hef m.a. unnið fyrir nokkrar af æðstu stofnunum landsins og tekið þátt í evrópusambandsverkefnum. Ég hef jöfnum höndum ritað um fræðileg efni og almenn og kynnt niðurstöður mínar opinberlega.

Ég hef gaman af að hugsa til framtíðar og vinna að stefnumörkunum sem vinna þarf á yfirstandandi breytingatímum.

Ég er búsettur í Reykjavík og hef verið frá 1974. Ég vann við tölvur frá 1981 til 2005, sneri mér þá að fræðimennsku, varði doktorsritgerð 2008, og hef unnið sjálfstætt síðan. Ég hef útivist og hreyfingu að áhugamáli, klassíska tónlist og bókmenntir.

Ég er Þingeyingur langt aftur í ættir. Ég fæddist á Húsavík 30. nóvember 1953 og ólst upp þar og í Köldukinn til 1966. Ég lauk barnaskólanámi í Kinninni og samsama mig við hana og finnst ég vera þaðan. Frá 1966-1968 bjó fjölskyldan á Seyðisfirði og stundaði ég nám við Miðskóla Seyðisfjarðar.

Veturinn 1968-1969 var ég í Laugaskóla í Reykjadal, S.-Þing. og við MA frá 1969-1973 en þá var fjölskyldan flutt til Akureyrar. Ég stundaði almennt kennaranám við KHÍ (Kennaraháskóla Íslands) 1974-1977 og lauk þaðan B.Ed. prófi í uppeldisfræði. Með skóla vann ég byggingavinnu, innheimtustörf, stundaði sjómennsku og fiskvinnslu, akstur og ökukennslu.