Texti greinar sem birtist í Kjarnanum.
—–
Margir hafa sagt: Gott er að sérfræðingar og embættismenn ráði ferðinni í dag, stjórnmálamenn myndu fara að huga að efnahagslegum sjónarmiðum á kostnað mannslífa. Þetta sjónarmið er alrangt og veldur miklum skaða. Í fyrsta lagi vegna þess að ekki glatast fleiri mannslíf við hraðari yfirferð sjúkdómsins en hæga, þau glatast bara yfir styttri tíma – að því tilskyldu sem alls staðar er miðað við að gjörgæsluþjónusta hafi undan. Í öðru lagi er þá ekki tekið tillit til félagslegra áhrifa og efnahagslegra – en fórnarlamb þeirra áhrifa er ekki hvað síst almenningur. Því lengur sem faraldurinn gengur yfir því meiri áhrif hefur hann og kreppan verður dýpri. Íslenskir auðmenn hafa lært að hagnast bæði á kreppum og góðæri og eftir mun standa fákeppni í ferðaiðnaði þegar einyrkjar og sprotafyrirtæki hafa orðið að selja á brunaútsölu – því dýpri kreppa því meiri samþjöppun eignarhalds. Það er því full ástæða til að taka tillit til „neikvæðra“ áhrifa takmarkana eins og þau eru kölluð í alþjóðlegri umræðu. Í þriðja lagi eru sérfræðingar alls ekki ábyrgir gagnvart þjóðinni og hafa ekki lýðræðislegt umboð til að velja henni örlög.
Markmið og leiðir með viðbrögðum við COVID-19 faraldrinum hafa að sumu leyti verið ólík milli landa. Hér verður farið yfir nokkur sjónarmið og rætt um íslensku leiðina sérstaklega.
Mikilvægast er að setja markmið varðandi þrennt: a) Hver á staðan að verða við lok faraldursins, b) hver á yfirferðarhraði faraldursins að vera og c) forðun eða nálgun almennings við sjúkdóminn. Svörin við þessum spurningum ráða því hvað kreppan verður djúp og hvað áhrif hennar verða mikil – og enda þótt svörin við þessum spurningum séu að skýrast hjá þríeykinu, hafa svör þess við a) og b) lið verið í véfréttarstíl fram til síðustu viku, en megináhersla lögð á forðun samkvæmt c) lið.
Í öðru lagi er mikilvægt að skilja hvaða aðilar eiga að taka ákvarðanir um viðbrögð og á hvaða forsendum. Þar takast á almenn sjónarmið sem stjórnmálamenn miða við í ákvörðunum sínum – en stjórnmálamenn leiða ákvarðanatöku í öllum ríkjum nema hér – og sértæk sjónarmið sem sérfræðingar og embættismenn miða við. Þeir eru bara bundnir við að hugsa um faraldurinn sem farsótt en huga ekki að „neikvæðum“ áhrifum aðgerða – sem komið hafa til umræðu síðustu daga – og geta líka kostað mörg mannslíf og hjá öðrum hópum en faraldurinn.
Markmið og leiðir
Staðan við lok faraldursins getur orðið (i) að hjarðónæmi verði náð og faraldurinn verði því liðinn hjá og komi ekki aftur um langt árabil. Með því móti geta þjóðir fljótt og vel um frjálst höfuð strokið, ferðast og tekið við ferðamönnum án ótta – og jafnvel faðmast og kysst, ef það verður tekið upp aftur. Þetta virðist vera markmið sænsku leiðarinnar. Með afléttingu takmarkana gætu Noregur og Danmörk verið að stefna að þessu. Hins vegar er hægt (ii) að halda sjúkdómnum niðri um lengri eða skemmri tíma – eða útrýma honum alveg, sem asísk ríki reyna. Þá þarf að búa við takmarkanir á frelsi til lengri tíma, t.d. ferðabann og nálgunarbann. Meiningin með slíkri nálgun væri að bíða eftir bóluefni og mynda hjarðónæmi með því í fyllingu tímans. Þessi leið veldur langvarandi samfélagslegu tjóni. Hún virðist hafa verið tilgangur Danmerkur og Noregs í upphafi, en spurning hvort það hefur breyst. Menntamálaráðherra Íslands hefur boðað þessa leið og þríeykið virðist vilja fara hana, en tveir aðrir ráðherrar sagt að ákvarðanir um ferðabann liggi ekki fyrir.
Yfirferðarhraði faraldursins ræður því hvað félagslegi og efnahagslegi skaðinn verður mikill og er neikvætt samband þarna á milli sem þýðir: Því meiri hraði því minna tjón og öfugt. Hér er einkum átt við félagslegan skaða, sem er t.d. einangrun viðkvæmra, sem er þeim mjög þungbær, að viðkvæmir unglingar flosni upp úr íþróttum og skóla og „glötuð“ kynslóð verði niðurstaðan (með sjálfsvígum og eiturlyfjaneyslu) og að heimilisofbeldi og heimilisdrykkja verð viðvarandi auk hjónaskilnaða með öllu því tjóni sem þetta tvennt veldur börnum og fullorðnum – en margháttaður annar félagslegur kostnaður getur komið til og mun sýna sig.
Efnahagslegi kostnaðurinn er afar hár fyrir ferðamannaþjónustu, þjónustu einyrkja og frumkvöðla, m.a. listamanna og takmarkanir hálf-lama starfsemi allra stærri fyrirtækja sem hafa starfsmannafjölda umfram takmörk í samkomubanni. Þá greiðir öll verslun og þjónusta sinn toll vegna takmarkananna. Almennt græðir best setta auðvaldið á kreppum, því dýpri því meiri gróði, en þá fá fjársterkir aðilar rekstur einyrkja og frumkvöðla í fangið við lágmarkstilkostnaði. Þannig má búast við að fákeppnisaðstaða myndist í ferðageiranum eftir faraldurinn. Þeir sem hafa tekjur eða eiga eignir í erlendum gjaldeyri geta nú flutt þær heim á lágu gengi krónunnar og keypt íslenskt atvinnulíf á brunaútsölu. Almenningur mun ekki síður búa við langvarandi atvinnuleysi og hætt er við að margir missi heimili sín, sem þýðir að húsnæðisfélög eignast íbúðirnar og falli í fátæktargildru.
Yfirferðahraði faraldursins ræðst m.a. af afkastagetu gjörgæslu og öndunarvélaþjónustu. Í Svíþjóð er afkastageta heilbrigðiskerfisins mjög mikil og er t.d. nýtt og enn ónotað sjúkrahús til reiðu í Stokkhólmi ef á þarf að halda, en til þess hefur ekki komið. Á Karólínska sjúkrahúsinu eru nú 120 í öndunarvélum sem gæti gróflega jafngilt 20 manns á Landspítalanum miðað við mannfjölda. Á Landspítalanum var 41 öndunarvél til áður en 17 öndunarvéla gjöfin barst og eru þær nú 58. Mest hafa rúmlega 10 manns verið í öndunarvélum í einu, þannig að takmarkanirnar hér á landi hafa gengið nokkuð langt miðað við það sem hefði þurft.
Sá sem þetta skrifar hefur lagt til að einkareknar læknastofur og -sjúkrahús verði þjóðnýtt í faraldrinum, hjúkrunarfólk sem vinnur við annað, ekki síst atvinnulausir flugþjónar, verði kallaðir til starfa og að starfsfólk gjörgæslu Landspítalans verði verkstjórar í stóraukinni afkastagetu gjörgæslu með þessu móti. Með þeim aðgerðum má auka yfirferðarhraða faraldursins. Þá er ljóst að fyrir liggur húsnæði s.s. Orkuhúsið, sem taka má undir gjörgæsluþjónustu ef þarf. Í stað þess að grípa til slíks úrræðis hafa mjög harðar takmarkanir verið settar fram til 4. maí og þá taka við takmarkanir sem eftir er að kynna. Ljóst er að þríeykið hefur ekki íhugað að stórauka afkastagetu heilbrigðiskerfisins með því móti sem hér er nefnt – enda þarf til þess lagasetningarvald og það væru stjórnmálin sem gætu brugðist þannig við en ekki tiltölulega lágt settir embættismenn í stjórnkerfinu. Alltaf er hætt við að sjónarhóll þeirra sé þröngur.
Forðun almennings gagnvart sjúkdómnum hefur verið meginmarkmið takmarkananna og er þar í aðalatriðum eitt látið yfir alla ganga. Það orkar allt tvímælis, því börn fá sjúkdóminn vægt eða ekki og afar fátítt er að fólk undir fimmtugu deyi úr honum. Yngra fólk eru þeir hópar sem þurfa að mynda hjarðónæmið ef sjúkdómurinn verður látinn ganga til enda – en ef beðið verður eftir bólusetningu munu viðkvæmir hópar njóta forgangs að bólusetningu og munu þeir þá verða uppistaðan í hjarðónæminu. Einangrun viðkvæmra hópa er grundvallaratriði í forðun áður en bóluefni finnst.
Um nálgun við veiruna má segja: Íslendingar eru eyjaskeggjar og Ísland er ferðamannaland, sem hvort tveggja segir að ferðalög og erlend samskipti eru grundvallaratriði fyrir þjóðina. Því má reikna með að fólk á ferð og flugi, starfsfólk flugfélaga og í ferðaþjónustu svo dæmi séu tekin, vilji komast í kynni við veiruna til að geta um frjálst höfuð strokið. Aðstaða þessara hópa þýðir að hindranir á ferðalögum og gagnvart komu ferðamanna – er þeim afar fráhrindandi og dýr kostur. Ferðabann gæti raunar reynst allri þjóðinni mjög kostnaðarsamt og er það dæmi enn óreiknað.
Vaxandi áhugi er á Norðurlöndum fyrir sænsku leiðinni, sem þýðir mikið hraðari yfirferð faraldursins en hér, minni takmarkanir og mikið minna samfélagslegt tjón. En hvaða leið er réttust á eftir að koma í ljós –ƒ sá hlær best sem síðast hlær í því efni.
Hverjum klukkan glymur
Íslenskur félagsfræðingur búsettur í Berlín sagði við mig í síðustu viku að óhugsandi væri að einn lögregluþjónn og tveir læknar stjórnuðu evrópsku ríki vikum saman – nema á Íslandi. Í öðrum ríkjum taka stjórnmálamenn á málunum (nema á stuttum neyðarstundum) og jafnvel er óhugsandi að veirufræðingur segi þjóðinni fyrir verkum í þýsku sjónvarpi.
Það er stjórnmálamanna að móta stefnu varðandi markmið og leiðir í samfélaginu og taka ákvarðanir á grundvelli opinnar upplýstrar umræðu og kynna þær fyrir almenningi og standa ábyrgir gagnvart honum. Þetta er grundvallaratriði í lýðræðislegu þjóðfélagi. Mjög miklar líkur eru á því að stjórnmálamenn skoði vel ólík sjónarmið við töku ákvarðana og „neikvæð“ áhrif; t.d. félagsleg og efnahagsleg sjónarmið verði vegin gagnvart sóttvarnarlegum. Það geta embættismenn og sérfræðingur ekki og hafa ekki skyldur til að gera.
Margir hafa sagt: Gott er að sóttvarnarsérfræðingar ráði ferðinni, stjórnmálamenn myndu fara að huga að efnahagslegum sjónarmiðum á kostnað mannslífa. Þetta sjónarmið er alrangt og veldur miklum skaða. Í fyrsta lagi vegna þess að ekki glatast fleiri mannslíf við hraðari yfirferð sjúkdómsins en hæga, þau glatast bara yfir styttri tíma – að því tilskyldu, sem allar siðmenntaðar þjóðir miða við og hér er að sjálfsögðu miðað við – að gjörgæsluþjónusta hafi undan. Í öðru lagi er þá ekki tekið tillit til félagslegra sjónarmiða og efnahagslegra eins og áður er nefnt, en í þeim báti situr ekki hvað síst almenningur – og þjáningar, dauði og fátækt mun ekki hvað síst ná til hans. Munum að fjórðungur andláta á Íslandi vegna faraldursins er vegna heimilisofbeldis þegar þetta er skrifað – samt eiga flestöll félagsleg og efnahagsleg áhrif eftir að koma fram. Þá er ekki farið að tala um efnahagslegu áhrifin á atvinnulífið þar sem fjársterkir aðilar munu „hreinsa“ til og kaupa upp eignir smærri aðila svipað og eftir síðustu kreppu. Það er því full ástæða til að taka tillit til „neikvæðra“ áhrifa takmarkana.
Stjórnskipunarlega er ómöguleiki að embættismenn og sérfræðingar stjórni landinu um lengri tíma, til þess hafa þeir ekki lýðræðislegt umboð – lagalega er það líka óhugsandi, lög um almannavarnir og sóttvarnalög veita ekki slíkt valdaframsal til framkvæmdarvaldsins og fræðileg sjónarmið sem réttlæta lýðræði og þingræði styðja að ákvarðanir séu teknar af stjórnmálamönnum en ekki embættismönnum og sérfræðingum. Um þetta efni liggja fyrir óhrekjandi reynslurök. Hér er um að ræða eina meginástæðu vinsælda lýðræðisins – og enda þótt embættismenn og sérfræðingar fari nú með himinskautum í áhrifum sínum á grundvelli þekkingarþjóðfélagsins er mikilvægt að lærðir, t.d. starfsmann háskóla, og leikir átti sig á því að bestu ákvarðanirnar eru teknar ef sérfræðingar eru ráðgjafar en að stjórnmálamenn taka þær. Þetta varðar sértæka nálgun að úrlausnarefnum eða almenna, en sú síðarnefnda ræður betur við að mæta almannahagsmunum.
Þá er ósagt að opinber upplýst umræða er grundvöllur góðrar samfélagslegrar stefnumörkunar og ákvarðanatöku. Hér á landi hefur hana vantað – en megináhersla verið lögð á þöggun og upphafningu þríeykisins og þess að stjórnmálamenn komi hvergi að málum. Þetta einkenni sýnir vel að ekki er fyrir hendi skilningur á því hvernig best er að stjórna samfélaginu – og er algerlega í andstöðu við sænsku leiðina, þar sem fyrrverandi ráðherrar og stjórnmálamenn, sérfræðingar á ólíkum fræðasviðum og allur almenningur tekur þátt í umræðu um markmið og leiðir. Svo langt hefur þetta gengið að tveir fyrrverandi þingmenn, Ólína Þorvarðardóttir og Frosti Sigurjónsson, hafa ekki fengið aðgang að helstu fjölmiðlum – og lætur RÚV ekki sitt eftir liggja í þöggun – og ég sem einnig hef tjáð mig hef setið undir heiftarlegum persónulegum árásum á netinu, jafnvel frá þjóðfrægum ágætismönnum. Þessu verður að breyta, umræða er gjöf sem ber að þakka fyrir og gagnrýni er gjöf – og þeir sem kynna ólík sjónarmið mega ekki líta á hvorn annan sem óvin, heldur að þakka hverjir öðrum fyrir að víkka sjóndeildarhringinn.
Hér skal það nefnt að erfitt getur verið fyrir stjórnmálamenn, ef þeir hafa veika stöðu í samfélaginu, að krefjast réttmætrar aðkomu að ákvörðunum. Ef svo er á forseti lýðveldisins að verja rétta stjórnskipan.
Hversu skæður er faraldurinn?
Það er erfitt að segja til hversu skæður faraldurinn er. Þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur muna vel eftir því þegar inflúensur gengu yfir án þess að nokkur bólusetning væri gerð. Þá einangraði elda fólk og viðkvæmt sig um tíma.
Alveg ný rannsókn á vegum Aftenposten í Noregi, gerð af átta vísindamönnum við háskóla í Noregi, sýnir að dagleg dánartíðni vegna COVID-19 hefur á síðustu tveimur mánuðum verið 1,9 í Noregi, 4,4 í Danmörku og 8,3 í Svíþjóð – en dagleg dánartíðni vegna fjögurra síðustu inflúensufaraldra hefur verið 21 í Noregi, 23 í Danmörku og 53 í Svíþjóð. Ólíkar tölur um daglega dánartíðni vegna COVID-19 skýrast líklega bæði af mismunandi íbúafjölda og mismunandi hörðum aðgerðum gegn faraldrinum, meðan tölurnar vegna infúensufaraldra eru í takt við íbúafjölda, sem er 5,3 millj. í Noregi, 5,8 millj. í Danmörku og 10 millj. í Svíþjóð.