Opið bréf til Sigurðar Inga Jóhannssonar og Einars Þorsteinssonar (11.08.2022)

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Reykjavík er ekki einangrað hérað sem má vanrækja, hún er miðja alls samfélagsins. Ef hún er drepin í dróma með pólitískum gambít blæðir samfélaginu öllu.

Ágætu framsóknarmenn!

Þaðan sem ég ólst upp fyrir norðan flutti ungt fólk suður, til að læra, vinna og freista gæfunnar. Á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar var húsnæðisskortur í Reykjavík og norðanfólkið bjó við mansalsaðstæður í lekum risum og í kjöllurum, jafnvel í miðstöðvarherbergjum og greiddi stórfé fyrir. Sögurnar bárust í eldhúsin í sveitinni fyrir norðan.

Uppbygging húsnæðis í Breiðholti kom sér ekki síst vel fyrir landsbyggðarfólkið. Við af landsbyggðinni gátum allt í einu farið suður, það hafði myndast rúm fyrir okkur. Margfeldisáhrifin mátti sjá víða.

Til viðbótar við hingaðkomu skólafólks og vinnandi fólks hafa nú bæst eldri borgarar og allir sem leita sér læknisþjónustu og svo er eðlileg fjölgun fyrir sunnan. Þá kemur erlent fólk hingað í þúsunda-, jafnvel tugþúsundatali og skapar þjóðarauð, koma þess hefur sömu áhrif og að barnsfæðingum fjölgi, nema hvað það er strax tilbúið til starfa og þarf ekki flesta innviðina okkar. Nema húsnæði.

Nú, þegar ódýrustu íbúðirnar í Reykjavík kosta allt að sextíu milljónum, virðist höfuðborgin taka á móti þessum stóru hópum eins og þegar ég var á barnsaldri, dyrunum hefur verið lokað fyrir fátæku aðkomufólki, nema kannski óíbúðarhæfum skemmum.

Staðan í borginni

Á síðustu kjörtímabilum hafa nýbyggingar í Reykjavík ekki mætt þörfum þjóðarinnar og nýsamþykkt byggingaráform nýrrar borgarstjórnar eru smáskammtalækningar. Því hefur almenningur orðið að flytja til Hveragerðis, á Selfoss, til Akraness eða á Suðurnesin – og til svefnbæjanna við Reykjavík. Ekki vegna þess að hann eigi erindi við þessa staði, heldur sækir hann oftast vinnu, skóla, heilbrigðisþjónustu eða aðra þjónustu til Reykjavíkur (nema helst frá Suðurnesjum).

Þannig keyrir fólkið okkar hvern morgun til höfuðborgarinnar á lélegum vegum Suðvesturlandsins og bíður á þeim í umferðarteppum á leiðinni til bílastæða í Reykjavík sem ekki eru til.

Fyrir landsbyggðarfólk og raunar alla íbúa landsins er heppilegast að þjónusta og stofnanir séu á einum stað, í Reykjavík, til að ekki þurfi að sækja hana víðsvegar. Þessu þarf borgin að mæta.

Ríkisvaldið

Fleiri bera ábyrgð en borgarstjórnin. Ríkisvaldið hefur sýnt uppbyggingu höfuðborgarinnar fálæti, jafnvel andúð, og legið á þeim byggingarlöndum sem það á innan borgarinnar. Verst er þó að það hefur lokað á uppbyggingu húsnæðis í landi Reykjavíkurflugvallar.

Sú viðbára að koma þurfi upp stórum millilandaflugvelli áður en Reykjavíkurflugvöllur verður lagður af er fyrirsláttur, það nægir sáralítill flugvöllur fyrir umfangslítið innanlandsflugið eða hvernig eru vellirnir sem flogið er til úti á landi? Mótbárur um sviptivinda á mögulegum flugvallarstæðum við borgina eru pólitískir tafaleikir; hvernig er málum háttað á flugvöllum fyrir vestan og norðan, að ekki sé minnst á Keflavíkurflugvöll sem Boeing notar til að reyna nýjar flugvélar í einum versta hliðarvindi sem þekkist? Nú, svo má koma upp lest til Keflavíkur.

Þjóðarhagur liggur við að flugvallarsvæðið allt verði byggt, en einskis hagsmunir velta á lendingarstað flugvéla. Nema stjórnmálamanna sem hafa málað sig út í horn í þessu efni og stillt upp gambít gagnvart Reykjavík – og þjóðinni allri. Mál er að litið verði upp úr dilkunum.

Húsnæðisstefna ríkistjórnarinnar

Verkin sýna merkin. Hlutdeildarlánin renna ekki til fátæks ungs fólks sem vill búa í höfuðborginni og nýleg viljayfirlýsing um byggingu 35 þúsund íbúða var ekki gerð við Reykjavíkurborg. Ætlið þið virkilega að sjá til þess að landsbyggðarfólkið okkar, fátækari hluti íbúanna og nýbúarnir fái ekki rúm í borginni? Ekkert blasir við annað en tómlæti í því efni. Airbnb-útleiga er ekki einu sinni bönnuð eða eldra fólki auðveldað að minnka við sig húsnæði eða gripið til annarra bráðnauðsynlegra aðgerða.

Þessu fylgir mikil sóun og ekki síður mengun því fátækari hluti þjóðarinnar flyst til áðurnefndra sveitarfélaga þar sem húsnæðisverðið er lægra; sá hluti þjóðarinnar sem á ódýrustu bílana sem menga mest. Þannig magnar innviðaráðherrann upp bílaumferð um allt Suðvesturland og gefur grænni stefnu langt nef.

Alveg rétt – við erum að tala um sömu umferð og sama fátækara fólkið sem við ætlum að taka gjald af með flatri skattlagningu þegar það notar innviðina sem þessi þróun kallar á, innviði sem raunar er furðuleg bið eftir. Þannig aukum við aðstöðumun fólks eftir búsetu.

Hverjum klukkan glymur

Borgarstjórnin í Reykjavík hefur skyldur við alla þjóðina og innviðaráðherrann hefur skyldur við borgina og ekki síst við þjóðarhagsæld, nóg er til af ráðamönnum í heiminum sem fórna almannahag á altari pólitískrar þráhyggju, sem sennilega er mesta böl mannkynsins í bili – og almannahagur versnar stundum hratt eða batnar hægar en þarf, ef stjórnmálin geta ekki greint stór mál frá litlum.

Í flestum stærri málum leikur höfuðborgin aðalhlutverkið. Hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgarbúa fara nánast alltaf saman, þótt pólitíkin villi um í því efni. Ekkert kemur sér verr fyrir landsbyggðina en að flytja þjónustu og mikilvægar stofnanir frá Reykjavík eins og þegar er nefnt.

Uppbygging húsnæðis í Reykjavík á hagstæðasta byggingarsvæði landsins er aðkallandi, svæði sem kallar á minnsta bílaumferð, nýtir fyrirliggjandi innviði vel og er í námunda við marga stóra vinnustaði og skóla.

Fátt eða ekkert styrkir þjóðarhag betur en rétt valdir innviðir eða mætir betur mikilvægustu markmiðum samtímans. Margfeldisáhrif og nýtt velmegunartímabil með auknum kaupmætti bíða.

Lokaorð

Nú hafið þið tveir komið ykkur í lykilstöður varðandi uppbyggingu innviða höfuðborgarinnar og landsins alls. Hvað ætlið þið að gera í því efni sem ég tek hér til umræðu? Á að ná sér niðri á höfuðborginni og þar með auka erfiðleika fólksins – eða stendur til að axla ábyrgð á framtíð þjóðarinnar?