Karlmennska

– Viltu líta til hans Þorbjarnar, hann er aftur í bakborðsganginum, sagði Haraldur skipstjóri og sneri sér að mér. – Reyndu að koma honum í koju, hann á morgunvakt.

Haraldur stóð eins og venjulega til hliðar við skipstjórastólinn, upp við glærlakkaða krossviðarklæðninguna undir gluggaröðinni, og hélt annarri hendinni um tóman hitabrúsann; á tréklossum, gallabuxum og í brúnu ullarpeysunni sem konan virtist hafa þvegið; málsvari frjálsa framtaksins um borð á síðutogaranum Svalbak; maður sem skemmti sér best við að deila um stjórnmál við róttæka háseta. Hann bætti við.

– Hann er enn að jafna sig eftir túrinn á Kaldbak.

Haraldur hafði augu í hnakkanum, ef ekki víðar, vissi alltaf hvar hver skipverji var og hvað hverjum leið. Hann vissi líka allt um alla, sögurnar frá landi enduðu í brúnni, voru sagðar við rakettið og hann var umhyggjusamur og upplýstur einvaldur.

– Farðu vel að honum, sagði loftskeytamaðurinn sem stóð í gættinni að tækjaklefanum. Þótt það liti þannig út þá vorum við þrír ekki einu alsgáðu skipverjarnir. Flestir fóru hins vegar í koju fljótlega eftir að skipið hélt frá landi, bæði réttlátir og ranglátir, og því virtist skipið að öðru leyti mannlaust. Nema hvað Þorbjörn hafði dagað uppi í bakborðsganginum.

Við vorum komnir norður af Haganesi. Út af Gjögri á Flateyjarskaga hafði stefnan verið tekin nokkrar gráður norður af Rauðanúpi sem var í fyrstu eina kennileitið sem sást norður á Melrakkasléttu. Það var rennisléttur sjór, logn og blíða og dagshitinn yfir tuttugu gráður inni í Eyjafirði. Nú voru kannski tólf gráður hér út af túndrunni.

– Þorbjörn hefur átt töluvert eftir í þessum séneverbrúsa, bætti loftskeytamaðurinn við.

Brúin í Svalbak var engin stássstofa, samt var allt hreint, teppið alltaf ryksugað á heimstíminu eftir að yfirmennirnir höfðu rakað sig og farið í pressaðar buxur. Þeir áttu svo fínar eiginkonur. Skipið var smíðað í Skotlandi fyrir 22 árum og ekki lögð áhersla á íburð, klæðningin að innan stíflakkaðar krossviðarplötur með listum yfir samskeytunum. Þær höfðu dökknað með tímanum. Að utan var skipið ryðrautt, sennilega hafði ryðrautt verið í tísku þá, nýrri togarar voru með hvíta yfirbyggingu. Liturinn var ekki til marks um ryð heldur var skipið lakkað í þessum lit, rétt eins og skrokkurinn var svartur. Svalbakur var í áskrift að skverun hjá Slippstöðinni.

– Vertu hjá honum þangað til brúsinn er tómur, leiddu hann þá frammí, sagði Haraldur og horfði hugsandi á mig. – Hann ræðst ekki á þig.

Ég var ekki viss um að þetta síðasta væri rétt og velti því líka fyrir mér hvaða afstöðu til mín orðin sýndu. Ég var lágvaxinn og grannur, sextán ára og ekki þrekmaður miðað við það sem gerðist á þessu skipi. Eiginlega skammaðist ég mín fyrir að vera á fullum hlut því lítið gagn var að mér. Nema hvað ég gat rætt stjórnmál við Harald. Fáir aðrir töluðu við mig og ég átti ekki heima þarna. Það hafði verið misskilningur að ráða sig á togara, það gerðu ekki menntaskólastrákar, afdráttarlaus stéttskiptingin á Akureyri gilti á sjó og landi. Þótt komið væri fram í ágúst var ég enn sniðgenginn af leiðtogunum á dekki, en það tók því ekki að finna sér nýja vinnu. Sem auðvitað gæfi minna af sér. Ég sá um nálakörfuna, rakti í, og frekar en að vera í messanum sat ég á keisnum á toginu, í hlýjunni upp við reykháfinn, og naut þess að vera úti í náttúrunni. Ég þekkti smám saman landsýnina fyrir norðan, austan og vestan, skoðaði kortin í kortaklefanum og bar þau saman við hana. Auðvitað leiddist mér að vera ekki í Atlavík núna um verslunarmannahelgina, en ég þurfti peninga fyrir veturinn.

Ef vantaði fullundnar nálar varð allt brjálað – og það gerðist ekki á minni vakt. Þegar minniháttar rifrildi var skipti Haraldur ekki um troll þótt vara­trollið væri ávallt uppbundið og tilbúið á bakborða. Heldur kom hann út á brúarvænginn og öskraði á mannskapinn á dekki uns viðgerð var lokið. Þætti honum illa ganga stökk hann niður í ganginn, á klossunum og stakklaus hvernig sem viðraði, reif nálina af einhverjum hægfara og saumaði sjálfur. Í saumaskap afkastaði hann á við marga. Við aðrar aðstæður var hann rólegur, eins og núna.

– Heimsóttirðu Kristján bóksala í landlegunni, sagði Haraldur kíminn og bætti svo við. – Ég sá ekki betur en að í glugganum hjá honum væri ný bók: Vinstri róttækni. Þú þarft að segja okkur frá henni.

Títtnefndur Kristján bóksali var kommúnisti og seldi bækur frá Máli og menningu, stillti bókunum tveimur eftir Karl Marx fremst í sýningargluggann og næstar komu þýddu bækurnar eftir Lenín. Ég átti þær allar. En frægð hans í þessu skipi var ekki fyrir bóksölu, heldur fyrir dönsku og sænsku blöðin sem hann geymdi undir afgreiðsluborðinu og drýgði tekjurnar með. Grundvallarumskipti höfðu nýlega orðið á blöðunum. Áður mátti sjá fullorðnar konur lyfta pilsfaldinum og sýna í sokkaböndin, en nú höfðu flennistórar nærmyndir leyst þær af hólmi. Eftir hverja landlegu spurðu menn hvern annan hvort þeir hefðu keypt bókmenntir hjá Kristjáni. Kom ekki að sök að þær væru á skandinavísku málunum, sumir um borð voru handgengnir fagmáli blaðanna. Svo gengu þau milli káeta.

– Viltu skjótast niður og laga handa okkur te? sagði Haraldur við loftskeytamanninn og rétti honum hitabrúsann. Svo gekk hann aftur fyrir skipstjórastólinn og tók við stýrinu af mér. Það varð enn að halla nálinni í norður, svo lítið eitt frá Rifi austur fyrir Hraunhafnartanga, en þá mátti leggja á í suður og svo enn meira í suður þegar komið væri út af Fonti.

Haraldur lék við hvern sinn fingur. Hann hafði verið í Vaglaskógi og vígt nýja fellihýsið sem konan hafði keypt. Hann ók hægt og varlega, ég sá hann fyrir mér vera hálftíma yfir Vaðlaheiðina á Scout-inum, hægja á sér fyrir hverja holu, að ég nú ekki tali um beygjurnar. Konan hans var stórveldi heima fyrir, frá Siglufirði, og hann lét hana ráða því sem hún vildi; hans ríki var um borð. Hann hafði verið aflahæstur togaraskipstjóranna á landinu í mörg ár og hafði aldrei farið neðar en í annað sæti. Áður var hann á hafnarfjarðartogurunum en flutti norður eftir að hann gifti sig.

*

Þorbjörn var heljarmenni, stór og feitur og eftir því stórskorinn, og staðsetti sig þar sem afls var þörf. Enda þótt allt dytti jafnan í dúnalogn þegar hann mætti á ágreiningsstað dró hann ekki af sér við að hefna fyrir vini sína ef þess þurfti. Hann var lestarmaður, sem var virðingarstaða um borð, og ekki bara afkastamaður við að raða í lestarstíur og brjóta ís, heldur flinkur með nálina og fljótvirkur við sauma. Hann sýndi það manndómsmerki að brjálast alveg við rifið troll. Milli okkar hafði ekki farið eitt einasta orð og ég reiknaði með að honum væri illa við menntaskólastráka. Kannski vorum við tveir gagnstæðir pólar í karlmennsku um borð.

– Lífið fer ekki eftir beinni línu, sagði Þorbjörn þegar ég settist gegnt honum á varabobbing sem var bundinn upp við keisinn. Svo sagði hann ekki fleira í bili. Hann virti mig fyrir sér þegar ég settist en við þögðum. Séneverbrúsinn var að verða tómur og langt síðan blandið var búið. Þorbjörn var ekki vanur að nota glas við drykkju. Hann var rauðþrútinn í framan og eftir að hann fékk sér lítinn sopa, eins og til málamynda, hélt ég að hann myndi taka aftur til máls. En hafi hann ætlað sér það hætti hann við og þagði áfram, svona hræðilega feitur og sá í bera ýstruna þar sem upphaflega hvít skyrtan var upp úr. Eiginlega voru fötin hans númerum of lítil og hann hafði týnt vestinu og bindinu.

Tifið í gufuvélinni var róandi, rétt eins og í öflugri stofuklukku, en hávaðinn í ljósavélinni yfirgnæfði það næstum því.

Töluvert seinna en athugasemdin um beinu línuna féll hvessti hann á mig augun góða stund. Ég sagði ekkert. Vissi eiginlega ekki hvað virkaði róandi á hann og hvað espaði hann. Hann hlaut að vita til hvers ég var kominn og raunar líka hver hafði sent mig. En ég sá að honum varð alltaf meira og meira niðri fyrir.

– Ég skal segja þér sögu sem þú lærir ekki í skóla, hóf hann máls.

Það var eins og bráði af honum, hann leit nokkuð skýru augnaráði fram skipið og svo aftur það, kannski var hann að athuga hvort einhver heyrði til okkar. Mér var í sjálfu sér létt, ég hafði kviðið því hvernig hann tæki mér. En ég fengi sögu lestarmannsins, sem brýndi raustina þegar hann vildi yfirspila viðmælenda sinn. Sennilega mætti ég einhverri lífsspeki.

– Ég var á Kaldbak þegar Aðalbjörn tók út. Ég synti á eftir honum.

Svo gaf hann sér langa málhvíld. Ég vissi um slysið á Kaldbak fyrr um sumarið en ekki að Þorbjörn hefði komið nálægt því. Um fátt var meira talað en þetta slys og ávallt minnt á að drykkjuskapur og glannalæti eigi ekki við um borð. Þau tilheyra landi.

– Ég sá hann fara niður.

En þannig var að þegar Aðalbjörn hafði fallið aftur fyrir sig í sjóinn, þar sem hann sat á stjórnborðslunningunni frammi við fremri gálgann – þetta var á útstíminu í góðu veðri út af Horni – þá tók langan tíma að snúa skipinu til að koma aftur að honum. Síðutogararnir höfðu stóran beygjuradíus og voru ekki búnir hliðarskrúfum.

– Það var erfitt að bíða frá því hann féll fyrir borð þangað til við komum að honum aftur. Hann var þá farinn að súpa sjó, en flaut enn þá. Þorbjörn virtist hugsi og beið svolítið með framhaldið.

Ég sá þetta fyrir mér, skipið nálgaðist Aðalbjörn þar sem hann hafði troðið marvaðann í tíu til fimmtán mínútur, hann var enginn veifiskati og fáir hefðu enst svo lengi í íshafssjónum, það hægði á sér og svo var skrúfublöðnum snúið til að stöðva það.

– Ég stakk mér þegar við komum að honum. Það var rjómablíða.

Ég vissi að Þorbjörn hafði verið góður sundmaður í fyrra lífi sínu, keppt á mótum og enginn var hans jafnoki að skaphita, og þarna hafði hann sem sagt ætlað að bjarga mannslífi.

– Ég var kominn alveg að honum þegar hann hvarf fyrir augunum á mér, fyrir framan mig, í tært hafið, sagði hann svo og röddin titraði aðeins. – Ég sá á eftir honum lengi, lengi, hann fór hægt niður.

Nú gerði hann hlé á máli sínu, hræðilegir kippir fóru um axlir hans og að lokum hágrét hann með miklum ekkasogum.

– Það var meinið, hálfhljóðaði hann. – Aðalbjörn var með blýþungt friðarmerki í hálsbandi og stóra beltissylgju, þetta tvennt tók hann niður. Bæði frá Karnabæ. Tískan, maður.

Svo kom ný gráts- og ekkaroka. Ég gekk yfir ganginn, keitulyktin barst að vitum, það hafði verið stillt veður og hlýtt í nokkra daga og þá skolaði ekki af ganginum. Ég varð að standa við hlið hans til að ná utan um axlir hans, svo hávaxinn var hann, en hann sat á bakborðstrollinu.

– Ég hefði átt að bjarga honum, hrópaði Þorbjörn.

Ég fann sársaukann læsast um allt skipið, örvæntingin umlukti okkur og tilfinningin um að hafa svikið það sem manni er kærast.

Þá rifjaðist það upp fyrir mér að í landlegunni höfðu þrír skipverjar af Svalbak séð mig á Ráðhústorgi og krafið mig um að koma með sér í heimsókn til Dídíar frænku. Þorbjörn var í hópnum. Það var Markús mogadon sem fór fyrir þeim þrýstingi. Hann þekkti svo vel til ólíkra meðalategunda að lyfjafræðingur Apóteks KEA var sagður leita til hans í erfiðum málum. Ég komst ekki undan því að súpa á flöskunni. Ég vissi aldrei frænka hvers hún Dídí var. Þeir voru í svörtum leigubíl, Chervolet Impala árgerð 1968, flottasta stöðvarbílnum, og höfðu tekið hann í heilan sólarhring. Gegn staðgreiðslu.

Við fórum inn í dimma íbúð í Innbænum þar sem mætti okkur kannski fertug kona í hversdagsfötum, svolítið þreytuleg og föl, hafði ekki sólað sig þetta sumarið, hún gladdist innilega við komu góðra gesta. Fjórtán ára grannri dóttur hennar – með sítt ljóst hár og fallegt opið andlit sem ljómaði af eftirvæntingu – fundust gestirnir líka skemmtilegir en mamma hennar hafði ekki síður áhuga á gjöfum þeirra, vodkakassanum og kókkössunum tveimur. Ekki það að mínir menn væru óskemmtilegir, það var öðru nær, á þessari stundu voru þeir gleðin ein og reittu af sér brandara, sem þeir kunnu marga og góða. Þá voru þeir fyrirmannlegir eins og kaupfélagsstjórar, í þrískiptu jakkafötunum sem þeir keyptu hjá JMJ um leið og þeir komu í land, því sparifötin frá síðustu landlegu höfðu kannski þvælst. Nýju fötin voru ennþá hrein og pressunin hélt, bindishnútarnir þó farnir að opnast.

Það var fátæklegt í stofunni, langt var síðan veggirnir höfðu verið málaðir fölbláir og hvítt lakkið í gluggakistunum var brotið og upphleypt, og ekki síður á opnanlegu fögunum. Það voru ekki myndir á veggjunum en á kommóðu var mynd af eldri konu, svolítið stífri á svip, sem eins og fylgdist með örlögum heimilisins. Sennilega var hún móðir Dídíar. Þetta myndi vera leiguíbúð, svipað og heima hjá mér.

Nú var athygli skipsfélaga minna farin af mér, jafnvel Markús hafði ekki lengur áhuga á mér. Ég komst óséður út úr íbúðinni og var því fegnastur að þurfa ekki að vita hvað þar fór fram.

– Ég horfði á hann sökkva, ég horfði á hann sökkva. Það voru bara fáeinir metrar í hann. Ég var of seinn.

Þorbjörn sleppti sér alveg, þessi stóri maður, og nú brutust út hræðileg öskur svo skipið titraði á lognsléttum sjónum. Ég hafði ekki áður horfst í augu við svo skelfilega óhamingju og sjálfsásakanir. Hafði maðurinn kannski fleira á samviskunni, sem ekki gat orðið að umræðuefni? En milli ekkasoganna hallaði hann höfðinu að mér eins og barn. Ég hafði ekki reiknað með því að þurfa að hugga Þorbjörn, hafði aldrei huggað fullorðið fólk áður. Sú spurning kom upp í hugann hvort hann hefði alist upp við hlýju, alla vega þurfti hann á þessu augnabliki á henni að halda. Gat ég sýnt þessum manni hlýju?

Ég vissi svo sem meira, mundi að hann átti þrjá syni og eiginkonu, sem komst af vegna þess að Vilmundur hjá Útgerðarfélaginu hélt nokkru af hlut hans eftir handa henni. Hún bjó í kjallaraholu á Eyrinni og strákarnir voru þekktir fyrir óknytti. Þorbjörn var sagður koma sjaldan heim í landlegum og vera þá mislyndur, jafnvel þannig að kalla þurfti á lögregluna.

Nú herti ég loksins upp hugann og sagði.

– Þetta var slys. Þú gerðir þitt besta. Það er ekki þér að kenna að svona fór.

Þorbjörn sefaðist aðeins og hallaði sér betur að mér. Mér fannst komið tækifæri til að fylgja þessu eftir.

– Þú veist að þú ert fyrirmynd allra hér um borð. Betri sjómaður en aðrir og betri sundmaður. Fyrir þér eru alls staðar opin skipsrúm.

Aftur dró niður í honum. Þrátt fyrir allt, þrátt fyrir að hann hefði ekki getað bjargað Aðalbirni, var hann hetja til sjós. Og kannski líka í landi, það fór eftir sjónarhorni.

Hann grét lengi og kláraði úr séneverbrúsanum. Aftur og aftur þurfti ég að fullvissa hann um að drukknun Aðalbjarnar væri ekki honum að kenna. Enginn í áhöfninni hefði sömu sundhæfni og þoldi íshafssjóinn eins vel og hann.

– Nú skulum við koma frammí, sagði ég þegar hann var farinn að sefast.

Ég reyndi að lyfta honum, en án árangurs.

– Morgunvaktin bíður, bætti ég við.

Þegar við Þorbjörn stauluðumst fram ganginn var Fontur að baki og sólin var sigin í Íshafið. Það dimmir á kvöldin í ágúst. Þegar við gengum fram skipið lagðist hann á öxlina á mér og ég átti í erfiðleikum með að standa uppréttur undir farginu. Ég skilaði honum óhultum niður lóðréttan stigann. Svo fór ég til baka í brúna og tók aftur við stýrinu. Þar voru karlarnir löngu búnir að tæma tekrúsirnar og fyrsti stýrimaður kominn upp eftir að hafa fengið sér kríu.

– Við látum fara eftir þrjá til fjóra tíma, sagði Haraldur. – Ég ætla að fleygja mér.

Hann var alvarlegur þegar hann leit á mig með viðurkenningarsvip. Um öskrin í logninu yrði aldrei talað.

*

– Viltu koma með mér að laga stjórnborðstrollið, sagði bátsmaðurinn, sem var minn vaktformaður. Þetta var snemma á næturvakt og hálfdimmt.

Mér brá, ég hafði verið í eigin heimi og hugurinn víðs fjarri. Við vorum á toginu, höfðum verið að veiðum í tvo daga austur á milli hornanna, ekki djúpt, landhelgin var tólf mílur. Enn var hægviðri og blíða.

Það hafði rifnað í síðasta togi, enda erfiður hraunbotn á annars gjöfulum miðum. Í framhaldinu var bakborðstrollið tekið til kostanna. Vaktin mín var að byrja viðgerðina á stjórnborðstrollinu og kastararnir höfðu aftur fengið hlutverk. Allt var gert í rólegheitum þegar varatrollið var farið út.

– Það þarf að bensla hérna, það hefur raknað upp, sagði bátsmaðurinn þegar við stóðum yfir opnum vinstri væng trollsins.

– Við byrjum á því að bensla. Ég sýni þér handtökin einu sinni og þú nærð þeim, annars ertu ekki sjómaður.

Ég myndi ná þeim, ég hafði séð handtökin og benslunin var ekki erfið. Það var saumaskapurinn sem var flóknari, einkum þó að átta sig á því hvert bótin ætti að stefna. Hún mátti ekki heldur vera of stór eða of lítil, hún varð að passa þannig að átakið kæmi jafnt á allan vænginn og alla möskvana, annars rifnaði.

– Nú saumar þú í þetta gat, sagði bátsmaðurinn þegar bensluninni var lokið. – Sjáðu til hvernig þú byrjar, festir endann, og svo sýndi hann mér. – Svo bregðurðu nálinni undir og í gegn fyrir hvern möskva. Þú endar eins og þú byrjar. Við höfum ekki mát fyrir möskvastærðina eins og byrjendur, við höfum hana einfaldlega rétta.

Ég fór að sauma, sólin færi að koma upp í norð-austrinu og við vorum nær Eystrahorni en því vestara. Þegar mig rak í vörðurnar við saumaskapinn sögðu karlarnir mér til. Andrúmsloftið var annað en áður.

Svo tók ég eftir því að Jóhannes, nýr strákur frá Grenivík, sat á keisnum og rakti í nálar. Hann hafði verið fluttur til okkar, af morgun- og kvöldvaktinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation