Sóttvarnarlæknishjónin voru fyrst í salinn. Þau höfðu dokað við á svölunum fyrir framan Eldborg, beðið eftir miðaeftirlitsmanninum, en gengu nú hægt og yfirvegað í sæti sín á miðjum þrettánda bekk á gólfinu. Þau voru klædd á hefðbundinn hátt; hann í samstæð föt á ljósblárri skyrtu, bindislaus eins og nú tíðkast og verulega stutt klipptur eins og þunnhærðir menn eru líka um þessar mundir, en hún í sportlegri grænleitri blússu, tvílitri með blágrænni, ljósari mósaík og á bláu pilsi, og síðan ljósbrúnum sokkum með saum að aftan, hann var vandlega miðjaður. Hún hafði gaman af því að vera gamaldags. Hún var á hælalágum bláleitum leðurskóm, stutthærð og óaðfinnanlega máluð. Hún var fríð kona án þess að vera smákaleg og ítarleg á réttum stöðum. Hún vissi algerlega hvaða áhrif hún hafði á karlmenn og naut þeirra þegar vel lá á henni. Náttúran ætlar kvenlegri fegurð bara eitt hlutverk.
Nú var hún hins vegar pirruð yfir hvað þau mættu snemma, hún hafði aldrei verið mikið fyrir að bíða. En hann var svo stundvís að hann fór að stikla minnst hálftíma áður en átti að mæta og beið svo tímunum saman. Hún lét undan honum til að forðast átök. Og nú geislaði hann af rósemi hugans og tilhlökkun. Hingað voru þau komin og allir sem kæmu á eftir þeim í salinn myndu góna á þau og hugsa sitt um þau; bæði sóttvarnarlækninn, sem hafði verið meira milli tannanna á fólki en nokkur annar og svo valdamikill að jafnvel ringustu menn hvöttu óaflátanlega samferðamenn sína til að hlýða honum og höfðu nákvæmt eftirlit með að það væri gert. Menn myndu líka horfa á hana, hún var þannig kona, og eiginkona valdamesta manns ríkisins var auðvitað alltaf til umræðu um leið og hann. Hún var pirruð.
Mozart, fertugasta sinfónían, stóra G-moll symfónían; sóttvanarlæknirinn vildi ekki láta hana fram hjá sér fara, stjórnandinn var heimsfrægur, en hafði þann ágalla að tala við salinn bæði á undan og eftir flutningnum og segja honum ævisögu sína. Það var meira en hún gat umborið. Annað hvort eru menn fagmenn og skila sínu verki og láta það tala, eða menn eru eitthvað annað, kannski kjaftaskar. Svo hlaut Mozart að hafa verið óþolandi montinn stráklingur, hans tónlist var alla vega of létt fyrir hana, fertugasta sinfónían var góð fyrir gagnfræðaskólanemendur, eina verkið eftir hann sem hún þoldi var sálumessan, sem var ekki langt frá því að vera tónverk fyrir fullorðna. Hún var meira fyrir þýska tónlist, en helst fyrir norræna, finnska og þunga rússneska. Rússneska með svolitlu af skerandi örvæntingu til að minna á harðræði eiginlega allra stjórnenda þess mikla ríkis og að listamennirnir voru ávallt í biðsal Gúlagsins.
Til að sitja ekki þegjandi, eða af öðrum gildum ástæðum, sagði hún við sóttvarnarlækninn:
–Af hverju sagðir þú „endrum og sinnum“ í Kringlunni núna seinnipartinn?
–Ha, sagði hann.
–Þú veist fullvel að við segjum „endrum og eins“. Við erum búin að tala um þetta, eigum við að fjarlægjast uppruna okkar eða halda í það mál sem fyrir okkur var haft?
–Ég hef mismælt mig.
Sóttvarnarlæknirinn vissi hvenær undanhald kom sér best.
–Öll menningin að norðan er á fallanda fæti. Hér áður fyrr fékk enginn að koma í ríkisútvarpið sem ekki talaði fallegt mál, norðlensku.
–Nei, nei, auðvitað ekki, sagði sóttvarnarlæknirinn.
–Ég heyrði líka í manni í sjónvarpinu sem sagði að tillaga hefði tiltekna vankanta.
–Já, ég notaði það orð.
–En þú veist samt að vankantur er úr smíðamáli og þýðir að einhver kantur, er ekki eins og hann ætti að vera. Brotið upp úr honum, hann vanformaður eða eitthvað álíka.
–Hvað áttu við?
–Spýta sem hefur vankanta hefur galla en er ekki ónothæf. Þú sagðir um tillögu félagsmálaráðherrans að hún hefði vankanta, meðan hún er eins og flest það sem sá maður leggur til. Um tillögur hans segir maður að þær séu fráleitar, nú, eða endileysa. Fleiri orð sem gætu skartað fyrirsagnir vefjanna koma til greina.
–Í opinberu lífi notar maður úrdrætti þegar maður ræðir um tillögur stjórnmálamanna. Maður kemur ekki fram í sjónvarpi til að eignast valdamikla óvini. Þótt ég hafi nú kannski gert það í þessu tilviki. Það vissu allir hvað ég átti við.
Sóttvarnarlækninum var frekar létt að hafa komið vörnum við.
Ekki leyndi sér að konan hafði sótt í sig veðrið með aldrinum. Fengið aukið sjálfstraust og fundið meira fyrir sér. Á síðasta ári gaf hún út ljóðabók, öll ljóðin voru samkvæmt fornyrðislagi, ekki að sá bragarháttur sé sérstaklega norðlenskur, heldur hitt, að hún er svo mikill íslenskukennari að hún er farin að sækja allt eins langt aftur og mögulegt er; ekkert sem sagt hefur verið eða gert síðustu öldina eða svo stenst mál.
Hún var samt óaflátanlega kona sóttvarnarlæknisins og hann vissi það. Þegar kom að háskólanámi hafði hún unnið fyrir þeim meðan hann var í læknisnáminu, hafði kennt í menntaskóla og gerði enn, og látið hann undirrita skjal þar sem stóð að ef hann óskaði eftir skilnaði eftirléti hann henni jafnframt allar eigur sínar og helming eftirlaunaréttinda. Í þá daga átti hann ekki neitt og gekk fús að þessu. Hún hafði þinglýst skjalinu hjá Notarius Publicus, og þar liggur það í þingmálabók og bíður þess að hann misstígi sig. Sem hann gerir ekki, hann er ekki svoleiðis. Sóttvarnarlækninum hafði aldrei dottið skilnaður í hug, þau höfðu gengið frá ævilöngu samkomulagi.
En konan hafði ekki alveg afgreitt umræðuefnið.
–Við hæfi hefði verið og verulega eyfirskt að segja að félagsmálaráðherrann væri sullufótur.
Svo brosti hún að eigin fyndni.
Sullufótur! Sóttvarnarlæknirinn hafði ekki heyrt hugtakið í áratugi og fannst tillagan ekki umræðutæk. Hann ræddi ekki um menn persónulega. Og nú varð nokkur þögn. Tíminn leið rólega.
Hann horfði á rautt þilið yfir gafli salarins og á hliðum hans og lét augun renna eftir skrautlistunum. Hann var ekki viss um að salurinn væri fallegur. Hins vegar væri hann stílhreinn. En mikið óskaplega hlyti þessi rauði litur að verða leiðigjarn!. Þarna uppi, fyrir endanum, stóð kórinn oftast, þegar sungið var. Sóttvarnarlæknirinn hafði gaman af söng. Hann var Kaldalóns-maður og spilaði hann mikið. Og Kristján Jóhannsson – hann var þó að norðan. Ekki að þeir félagar væru vel séðir á hans heimili.
Þá settust eldri hjón fyrir framan þau, dálítið stærri en þeim var hollt. Hann sá strax að karlinn var með of háan blóðþrýsting og konan með slaka nýrnastarfsemi. Nýru karlsins myndu fljótlega fara sömu leið, vegna blóðþrýstingsins og spurning hvort það kæmi á undan hjartasjúkdómi. Þau ættu kannski að breyta um lífsstíl annars yrðu þau bara að mæta kyrrlát örlögum sínum og deyja úr velmegun fyrir framan hinn endalausa dr. House á Netflix, rétt eins og flestir aðrir. Kannski eru þau einmitt á þeirri leið.
Sóttvarnarlæknirinn stundi. Hann þekkti fleiri sem horfðu á einhverfa lækninn, dr. House. Þvílík vitleysa.
En nú þurfti konan að koma meiri pirringi frá sér. Kannski tóku hávöxnu hjónin steininn úr. Hún sá lítið fram fyrir sig nema hún hallaði sér til hliðar og sóttvarnarlæknirinn ekki mikið meira, enda ekki hávaxinn.
–Það liggur við að maður beri virðingu fyrir því að þú gast lokað þjóðfélaginu í tvö ár, nema sú tilfinning sé borin ofurliði af fyrirlitningu, sagði hún.
Þetta var hennar uppáhalds umræðuefni. Hann ákvað strax að sækja í undanhaldið. Það væri ekki hægt að beita sér rétt áður en tónleikar byrjuðu, það var hvorki staður né stund til andmæla.
Hún hélt áfram.
–Sóttvarnarlæknir sem lætur fólk deyja úr farsótt fær á sig vont orð og er að lokum rekinn. Ef hann er nógu eigingjarn þá lokar hann öllu og sér til þess meðan farsóttin gengur að færri deyi en í meðalári. Þá hefur hann staðið sig vel.
Hann vissi að þetta voru bara stutt inngangsorð.
–Já, já, sagði hann.
Nú voru hjóðfæraleikararnir flestir komnir á sviðið og farnir að stilla hljóðfærin sín. Honum fannst það ánægjuleg stund, einhvers konar forspil að því sem kæmi. Ósamkvæmir hljómar, allt sundurlaust, en á réttu augnabliki, í fyllingu þess, rynnu hljómarnir saman og hljóðfærin yrðu öll sem eitt. Nú myndi konan hins vegar fara að tala um meðaltöl og umframdauðsföll.
Þannig var, og ekki að ófyrirsynju, að konan nefndi við hann á hverjum degi að allir sem hann hafði bjargað með lokunum hryndu nú niður úr kvefi. Af því að þeir höfðu verið innilokaðir og ekki fengið að þróa ónæmiskerfi sín – nú, eða hrökkva upp af í faraldrinum. Þeirra líftími var kannski einfaldlega liðinn á kóvíðtímanum, það eiga þrjú- til fjögurþúsund manns að deyja á ári – og náttúran hafði ætlað þeim að hverfa af vettvangi. En þau vantaði bakteríu eða vírus.
Sóttvarnarlæknirinn settist betur upp í sætinu, mjakaði sér alveg aftur að bakinu og reyndi að sitja eins hátt og hann gat til að hann sæi betur.
Hann vissi á hverju hann átti von og beið eftir konunni, en kannski ekki alveg rólegur. Það er ekki traustvekjandi að sóttvarnarlæknishjón ræði opinberlega um dauðsföll á almannafæri, eins og dauðsföll séu eðlilegt umræðuefni. Enda þótt dauðinn sé hluti af lífinu. En hræðslan við dauðann hindrar eðlilega umræðu – nú, og svo má nota hræðsluna í stjórnmálum. Til dæmis til að slá sér upp. Hver vissi það betur en hann – nema kannski ríkisstjórnin.
Það er eins með dauðann og kynlífið – hvort tveggja er sennilega það helsta sem við eigum sameiginlegt – að hann má ekki ræða. Ekki ræða dauða og kynlíf. Því þótt dauði og kynlíf séu óhjákvæmileg og grundvallarhugtök í framþróun lífsins er óþægilegt að vita af þeim. Og viðurkenna vanmátt sinn gagnvart þeim. Síst af öllu má setja verðmiða á þessi mannlegu örlög. Því þá erum við svo siðlítil að við höfum dæmt okkur frá samfélaginu.
Á þessu var sóttvarnarlæknirinn klár, enda hafði hann verið farsæll. Enginn orð, bara lokanir – og sárafáir höfðu dáið þessi tvö ár og aðeins úr ólæknandi krabbameini.
En konan hikaði. Hún horfði þegjandi á hann.
Eftir viku færi hún til Noregs, til einhvers einangraðs staðar sem sóttvarnarlæknirinn mundi ekki nafnið á, til að taka við verðlaunum. Fyrir ljóðabókina, sem Norðmennirnir sögðu vera orta í gömlum norskum stíl. Í fyrstu, þegar henni var tilkynnt um vegtylluna, vildi hún ekki heyra neitt af henni, ljóðin hennar voru auðvitað íslensk, eins íslensk og verða má, ekki norsk. En svo var á það að líta að hún hafði aldrei fengið verðlaun – ekki eins og maðurinn hennar sem var aðlaður af forseta Íslands í fyrra. Hún fengi kannski aldrei önnur verðlaun eða aðra viðurkenningu. Alla vega ekki gullúr þegar hún hætti kennslu í menntaskólanum. Kannski fengi hún vont kaffi með köku úr Bónus. Nei, að öllu samanlögðu væri rétt að brjóta odd af oflæti sínu – og konan færi til Noregs til að taka á móti verðlaununum.
Hún bað um að fá að flytja inngangserindi um forna kvæðagerð, sem var góðfúslega heimilað. Ekki að það yrði Norðmönnunum til mikillar gleði. Hún myndi sanna að forn norræn ljóðlist var íslensk og að í Noregi hefðu bara verið samdar fjórar hraklegar vísur á tíundu öld. Hún myndi flytja þær til að sanna mál sitt.
Það varð þögn í salnum. Hljóðfæraleikararnir höfðu stillt hljóðfæri sín nægilega mikið, sátu og biðu eftir stjórnandanum. Reyndar eftir fyrstu fiðlu til að byrja með, en svo kæmi stjórnandinn, stigi upp á pallinn, sneri sér að salnum og hallaði sér fram á handriðið sem hann hélt í báðum höndum – og þegar heyra mátti saumnál detta hæfi hann mál sitt. Segði til að byrja með frá barnæsku sinni. Í suður-Frakklandi.
En nú var eiginkona sóttvarnarlæknisins tilbúin og lét vaða.
–Hér fyrir sunnan segjast menn pissa í sig. Það er af því að lógísk hugsun á ekki heima hér. Við fyrir norðan segjumst pissa á okkur.
Sóttvarnarlækninum brá illa. Mikið óskaplega laut hún lágt, að fara að taka þetta upp. Auðvitað hafði hann sagt, fyrir áratugum, þegar yngri dóttir þeirra var blaut, að hún hefði pissað í sig. Og það hafði aldrei verið fyrirgefið. Og nú var honum núið þessu um nasir nánast daglega. Af því að konan hélt því fram að hann væri komin með þvagleka. Sem var fráleitt, hún sagði þetta bara til að láta honum líða illa. En auðvitað sá hún um þvottana á heimilinu.
Hann svaraði þessu ekki. Hávaxna fólkið fyrir framan þau myndu heyra allt sem þau sögðu. Í tónleikasal er varla hægt að hvísla svo lágt að fólkið næst fyrir framan, með sín afturstæðu eyru, heyrði ekki orðaskil. Hann sá feita karlinn fyrir sér segja á bridge-kvöldi: „Sóttvarnarlæknirinn mígur á sig.“ Svo ræddu spilafélagarnir þetta milli sagnanna, enda eru bridge-spilarar þekktir fyrir léleg umræðuefni.
Nei, þessu hjá konunni myndi hann ekki svara.
Nú gekk fyrsta fiðla inn á sviðið. Frá vinstri. Hún hafði lagt af og sóttvarnarlæknirinn sá hvaða aðferð hún hafði notað. Klappið brast á. Hún settist, en salurinn hélt áfram að klappa af hrifningu. Fyrsta fiðla var nokkurs konar þjóðargersemi, þótt hún væri frá Sandgerði. Smám saman varð hljóð og eftirvænting eftir inngöngu hljómsveitarstjórans fyllti loftið, en sóttvarnarlæknirinn óttaðist að konan léti hné fylgja kviði varðandi síðasta umræðuefni sitt.
Honum var ekki lengur rótt. Hann hefði kannski ekki átt að neita því að koma með henni til Noregs. En hann vissi hvernig allt færi fram þar og hver myndi slá í gegn – eða eignast óvini, það var tvennt til í því efni. Hann yrði til hliðar við hana og hún myndi lítillækka hann.
–Þessi maður hefur aldrei samið vísu og kann ekki nokkurt kvæði. Hann hefur þó gott minni, en læknisfræði snýst bara um minni.
Í gær hafði hún staðið hann að því að tala um borðtusku. Og til að þjóna lund sinni hafði hún farið af stað.
–Hvað varð um bekkjarrýju, sagði hún.
Þessu fylgdu langar umræður um hluti tilheyrandi eldhúsi, rekkjuvoðir og fleira. Auðvitað bar málfar hans þess vitni að hann hafði búið fyrir sunnan í á fjórða áratug. Hann var farinn að eiga í mestu erfiðleikum með norðlenskuna, nema viðmælandi hans talaði líka norðlensku. Þannig varð honum sjaldan á heima, enda konan nánast eins harðmælt og Dalvíkingur. Það glamraði í leirtaui þegar hún talaði. Hún hafði vissulega flutt suður með honum eftir stúdentspróf, en samt flutti hún aðeins í holdinu.
Sóttvarnarlæknirinn sá að konan ætlaði að segja eitthvað meira og fann allt í einu hvernig skelfingin greip hann allan. Upp á síðkastið var hann farinn að fá hræðsluköst þegar hún ásakaði hann. Varð alveg miður sín. En sem betur fer sagði konan ekkert, enda birtist hljómsveitarstjórinn í vinstri dyrunum á sviðinu og salurinn brast umsvifalaust í hávært klapp.
En kvíðinn var að herða tökin og sóttvarnarlæknirinn fann að hann myndi varla lifa af inngangsræðu franska hljómsveitarstjórans. Hún yrði líka löng í þetta skiptið. Hvað er ekki æskan glöð í suður-Frakklandi? En ánægjan af að fara á tónleika og hlýða á fertugustu synfóníuna var horfin. Hann fann að konan hafði rétt fyrir sér eins og venjulega. Synfónían var fyrir gagnfræðaskólanemendur.
Hann leit á hana meðan klappið dunaði og hljómsveitarstjórinn, þéttvaxinn en tæplega feitur, steig upp á pallinn.
Sóttvarnarlæknirinn leið kvalir, hann hafði enn einu sinni borið skarðan hlut frá borði. Út undan sér sá hann að konan var farin að iða af ánægju.