Má ríkisendurskoðandi undirrita ársreikninga félaga í eigu ríkisins?

Nú er spurt, má ríkisendurskoðandi – sem er stjórnmálafræðingur, ekki endurskoðandi og hefur ekki löggildingu sem endurskoðandi – undirrita ársreikninga félaga í eigu ríkisins (takið eftir þessu hugtaki, félag, hér er ekki átt við stofnanir), t.d. opinberra hlutafélaga. Stutta svarið er: já, hann má það samkvæmt lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga nr. 46/2016. En samkvæmt lögum um endurskoðendur og endurskoðun nr. 94/2019 þarf löggiltur endurskoðandi að gera það. Spurningin er hvort Alþingi ætlaðist til að reikningarnir yrðu tvíundirritaðir – og því má svara strax: Það kemur ekki til greina, aðeins einn aðili getur borið ábyrgð á endurskoðun.

Þannig skýrist það að lögin um ríkisendurskoðanda og lögin um endurskoðendur togast á um þetta hlutverk. Þegar þannig stendur á ganga sérlög jafnan framar almennum lögum þannig að ég tel að lögin um ríkisendurskoðanda eigi við þegar félög í eigu ríkisins eru endurskoðuð, en ekki lögin um endurskoðendur.

Lengra svar felur í sér eftirfarandi sjónarmið frá hálfu ríkisendurskoðanda og í framhaldinu ræðum við um sjónarmið Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) og Endurskoðendaráðs – sem samkvæmt fréttum kærðu til lögreglu undirritun ríkisendurskoðanda á ársreikningum Íslandspósts og Isavia. (Þeirri kæru hefur nú verið vísað frá.)

Samkvæmt lögunum um ríkisendurskoðanda á hann að endurskoða félög sem ríkið á meira en helming í – auk allra opinberra stofnana. Undir þessa skilgreiningu falla Íslandspóstur og Isavia. Þetta felur í sér fulla ábyrgð hans á endurskoðuninni eins og löggiltur endurskoðandi hafi framkvæmt hana. Hann er hins vegar ekki löggiltur endurskoðandi – en ríkisendurskoðandi gegnir hliðstæðu hlutverki gagnvart þeim stofnunum og félögum sem hann á að annast og hinir fyrrnefndu gera gagnvart félögum úti í þjóðfélaginu. Ríkið gerir sem sagt minni kröfur til sín en annarra.

Ef spurt er af hverju ríkisendurskoðanda sé falið þetta vald án þess að hann uppfylli skilyrði gagnvart almennum félögum er svarið eftirfarandi: í frumvarpinu um ríkisendurskoðanda á árinu 2016 – frumvarpinu sem varð að lögum – stóð að ríkisendurskoðandi þyrfti að hafa löggildingu sem endurskoðandi. Það var hins vegar tekið út í meðförum þingsins og menntunar- og hæfniskröfurnar til hans urðu að hann hefði þekkingu á reikningsskilum og ríkisrekstri auk stjórnunarreynslu og hann má ekki vera alþingismaður.

Röksemdin fyrir þessu er m.a. sú að ríkisendurskoðandi hefur fleiri hlutverk en að endurskoða fjármál stofnana og félaga. Hann annast t.d. stjórnsýsluendurskoðun – og til þess þarf stjórnsýslufræðing. Vegna margra hlutverka sem nú var komið á ríkisendurskoðanda var fallið frá kröfunni um löggildingu – og ráðning Guðmundar Björgvins Helgasonar, sem er vel menntaður stjórnmálafræðingur, var í alla staði eðlileg – samkvæmt lögunum.

Ef við lítum hins vegar á sjónarmið FLE og Endurskoðunarráðs, þá starfa þeir samkvæmt lögunum um endurskoðendur. Þar er skýrt tekið fram að lögin taki til allra félaga og samkvæmt hlutafélagalögunum eru opinber hlutafélög félög í þessu tilliti. Einnig öll önnur félög sem ríkið á hlut í, hvort sem það er í meirihlutaeign eða ekki.

Lögin um endurskoðun gera skýlausa kröfu um að áritunarendurskoðandi sé endurskoðandi með löggildingu, menntun á sviðinu (meistaragráðu í endurskoðun og reikningsskilum og hafi unnið í þrjú ár undir handleiðslu endurskoðanda), sé á endurskoðendaskrá og fullnægi öðrum skilyrðum laganna, sem er m.a. að hafa starfsábyrgðartryggingu. Þetta eru strangar kröfur.

Síðan má minna á að kröfur þjóðfélagsins um góða fagmennsku verða sífellt meiri. Þannig er ekki óeðlilegt að sambærilegar kröfur séu gerðar til endurskoðenda hjá hinu opinbera og á almennum markaði.

Ef ég væri spurður hvort hægt væri að komast hjá þessari klemmu myndi ég svara að til þess þyrfti Alþingi að breyta öðrum hvorum lögunum eða báðum. Ég held ekki að ríkisendurskoðandi gæti fengið löggiltan endurskoðanda við embætti sitt til að undirrita ársreikninga með sér. Enda þótt að slíkt líti út fyrir að uppfylla skilyrði beggja laganna stæði eftir að ekki er hægt að starfa í takt við tvenn ólík lög með ósamrýmanlegum kröfum. Hvor þeirra væri de jure undirritari?

Þar sem lögin um ríkisendurskoðanda og lögin um endurskoðendur stangast á má spyrja hvor séu rétthærri. Svarið við því er væntanlega að sérlög ganga fyrir almennum lögum sem þýðir að hið opinbera getur gert minni kröfur til endurskoðunar en almennt er gert.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation