2008-aðstaða myndaðist gagnvart Play og fyrirennurum þess og ríkir almennt og hefur ríkt gagnvart millilandaflugi. Enginn opinber aðili ber minnstu ábyrgð á málaflokknum og blaðafulltrúi Samgöngustofu sagði í gær opinberlega að stofnunin hefði hreina samvisku, hún ætti aðeins að sjá um öryggisvottanir og að flugmenn hafi réttindi. Allar aðrar stofnanir þegja og taka undir: „kemur ekki mál við mig varð manninum að orði.“
En kemur hinu opinbera millilandaflugið við? Það taldi sig ekki ábyrgt í aðdraganda fjármálahrunsins 2008, er það eins nú? Enda þótt ekki séu fyrir hendi sérlög um millilandaflug og málefnið varði mörg stjórnvöld er hið opinbera svo sannarlega ábyrgt fyrir málinu. Það er hins vegar eins og þverfaglegt rannsóknarefni sem gengur þvert á deildarmúra er í háskólum – nema hvað í þessu tilfelli eru deildarmúrarnir ráðuneytin og stofnanir þeirra. Ef málið snertir mörg stjórnvöld láta öll eins og þau séu óábyrg.
Þjóðaröryggisráði ber að taka á málinu – svo við byrjum á mikilvægasta sjónarmiðinu. Því ber að fjalla um millilandaflug, millilandasiglingar og netsambönd til og frá landinu og sjá til þess að öryggi þeirra sé tryggt. Af því að Ísland er eyja og þessir þjónustuþættir eru lífæðar þjóðarinnar. Nú er utanríkisráðuneytið að taka á öryggi netsambanda – og er það vel, en vonum seinna – en netsambönd og millilandasiglingar eru ekki frekara umræðuefni hér. Heldur millilandaflugið.
Að minni hyggju ber Samkeppnisstofnun og Neytendastofu að takast á við landvarandi undirboð í millilandaflugi, undirboð sem grafa undan þjónustunni og ógna því að aðilar sem stunda slíkt flug verði allir gjaldþrota. Þá ber fjármálaeftirlitinu að hafa eftirlit með lífeyrissjóðunum – sem í þessu tilfelli hafa um langt árabil fjármagnað þessi undirboð á kostnað skjólstæðinga sinna: eftirlaunþeganna (er með ólíkindum að stjórnendur þeirra sjóða hafi ekki verið reknir) og samgöngustofa hefur raunar töluvert meiri skyldur en að athuga öryggi þótt hún kannist ekki við þær. Þá er ónefnt innanríkisráðuneytið, sem er yfirstofnun varðandi samgöngur og forsætisráðuneytið sem ber yfirábyrgð á þjóðaröryggi. Þá kæmi til mála að félagsmálaráðuneytið og jafnvel verkalýðshreyfingin blandaði sér í hvernig farið er með eftirlaunasjóði.
Allir þessir aðilar, eða einhver hluti þeirra, hefðu átt fyrir mörgum árum að taka sameiginlega á þeim ófagnaðarmálum sem einkennt hafa millilandaflugið. Fyrir slíku samstarfi stofnana eru fordæmi og núna nýjast að Umboðsmaður Alþingis og Ríkisendurskoðun rannsökuðu saman sölu á hlutabréfum í Íslandsbanka – en málið varðaði bæði embættin.
Þau ófagnaðarmál sem hér um ræðir er (i) að sérhver bjálfi sem getur tekið flugvél með öryggisvottun og löglega áhöfn á leigu getur hafið millilandaflug. Og það er freistandi, því sala flugmiða fyrir fram gefur handbært fé, þannig að rekstraraðilarnir fá strax peninga upp í hendurna. Án þess að hafa endilega þá baksjóði sem þörf er á ef þjóna á millilandaflugi til og frá eyju af ábyrgð. Síðan hafa amk. sumir þessara rekstraraðila tekið fé út úr félögunum.
Undirboðin, sem væntanlega eiga aðeins að standa yfir í fyrstu, eru síðan (ii) fjármögnuð að öðru leyti af lífeyrissjóðum. Undir taka (iii) pólitískir aðilar sem aðhyllast frelsi án ábyrgðar og (iv) ferðaþjónustan sem vill fleiri og fleiri ferðamenn hvaðan eða hvernig sem þeirra er aflað.
Þau ófagnaðarflugfélög sem svona hafa verið mynduð og rekin hafa sagst vera lággjaldaflugfélög. Svo er þó ekki pr. definition, af því að lággjaldaflugfélög starfa þvert á gömlu (eða fyrrverandi) ríkisflugfélögin, en þau hafa fyrst og fremst það markmið að tryggja samgöngur til og frá einstöku ríkjum – ekki þvert á þjónustulínur sínar, það er markaður lággjaldaflugfélaganna. Frá Íslandi verður ekki rekið lággjaldaflugfélag vegna þess að Ísland er langt frá þverlægum þjónustuleiðum. Hér á landi kemur ekkert annað flugmódel til greina en að herma eftir fyrrverandi ríkisflugfélaginu hér – sem einmitt tryggir landi og þjóð samgöngur – eða Icelandair. Því eru undirboð lífeyrissjóðanna bein árás á Icelandair og grefur undan rekstri þess, sem er þó nógu erfiður fyrir vegna alþjóðlegrar samkeppni (um 20 flugfélög munu nú fljúga til Íslands).
Óhjákvæmilegt er fyrir ríkið annað en að stoppa í þau göt sem hér hafa verið nefnd. Til þess þarf samhent átak fleiri stofnana og jafnvel atbeina þjóðaröryggisráðs. Annars er stutt í að næsti fjárvana óreiðumaður setji upp ábyrgðarlaust flugfélag undir lófataki þeirra sem ekki skilja hugtakið frelsi með ábyrgð.