Á ríkið að bæta Borginni gíslatöku byggingarlands?

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

Eftir að hafa litið í gamla kennslubók í stjórnsýslufræði er mér ljóst að Reykjavíkurborg á bótarétt gagnvart ríkinu þar sem hún getur ekki nýtt flugvallarsvæðið undir íbúðabyggð. Slíkur réttur byggist á því að raunverulegt tjón hljótist af þeirri nýtingarhindrun. Tjónið felst í því að Borgin verður annað hvort að þétta byggð á illum og dýrum lóðum, s.s. við hraðbrautir og á bílastæðum og jafnvel taka græna reiti undir og/eða leggja til annað byggingarland sem er fjarri miðborginni. Byrjum á því.

Byggingaland fjarri miðborginni

Notkun slíks byggingarlands, t.d. á Geldinganesi, myndi kosta mikla uppbyggingu samgöngumannvirkja – og allra annarra innviða – mörgum stærðargráðum meira en íbúðabyggð á flugvallarsvæðinu. Það myndi auka mengun meira, það myndi stórspilla tíma íbúa, það yki kostnað við almenningssamgöngur o.s.frv. Þá gætu íbúar slíks úthverfis ekki notið sömu lífsgæða og íbúar á flugvallarsvæðinu – og er þá átt við göngufjarlægð frá miðbænum og frá stóru vinnustöðunum í nágrenni flugvallarins. Þar er um að ræða báða háskólana, heilbrigðisstofnanirnar og hátækniklasana í Vatnamýrinni – alls eru það vinnustaðir fyrir tugi þúsunda íbúa. Þeir þyrftu að keyra sig til vinnu ef þeir byggju á Geldingarnesi.

Krafan á ríkið

Krafan byggist á því að ríkið heldur byggingarlandi í gíslingu undir samgöngumannvirki (flugvöll) sem takmarkar nýtingarmöguleika sveitarfélagsins og tekur frá besta þróunarsvæðið innan marka þess sem leiðir til kostnaðarsamra og óhagkvæmra valkosta. Ríkið ber annars vegar (i) svokallaða óbeina eignartjónsbótaábyrgð þar sem Borgin getur ekki nýtt sér stjórnsýsluheimildir sínar til að móta nýtt skipulag og hins vegar (ii) beina bótaábyrgð – þar sem Borgin á drjúgan hluta flugvallarsvæðisins (um 40 hektara) sem hún getur á engan hátt nýtt. Varla eru deilur um síðara atriðið, þ.e. að eigandi lands sem ekki getur nýtt það vegna samgangna á vegum ríkisins á rétt á bótum.

Hagsmunir landsbyggðarinnar

Enda þótt krafan vísi einkum til hagsmuna Reykjavíkurborgar og beinna og óbeinna hagsmuna borgarbúa – þá varðar hún einnig íbúa alls landsins. Ríkið þarf að greiða fyrir stofnbrautir ef höfuðborgin þenst út. Þá flytja íbúar landsbyggðarinnar gjarnan suður þegar þeir eldast, þeir yngri koma suður til að njóta menntunar og fólk á starfsaldri kemur suður til að vinna og freista gæfunnar. Þá er Reykjavík aðal móttökustaður nýbúa og skapar þeim flest atvinnutækifæri. Ég þekki af eigin raun hvernig höfuðborgin tók á móti landsbyggðarfólki áður en Breiðholt var byggð – og nú er aftur komin upp hliðstæð aðstaða í höfuðborginni varðandi móttöku landsbyggðarfólks. Því er nánast gert ógerlegt að flytja suður og eignast hér afdrep, húsnæðisverð er orðið svo hátt – og eignalaust fólk verður að búa í hörmulegar leiguaðstæður í atvinnuhúsnæði.

Í ljósi þess að langflestar opinberar stofnanir, sjúkrahús og skólar – líka í einkageiranum – sem almenningur þarf að sækja heim, eru í Reykjavík þá ber henni – líka sem höfuðborg – að hafa nægt og hagstætt byggingarland fyrir alla landsmenn. Ef þessir hagsmunir landsbyggðarinnar eru vegnir gagnvart því að flugvöllurinn flytjist út fyrir borgina – eru þeir líklegir til að vega verulega þyngra. Það að halda húsnæðisverði í Reykjavík tiltölulega lágu er hagsmunamál allra íbúa landsins – en borgaryfirvöld hafa á síðustu árum spennt húsnæðisverð upp með húsnæðisstefnu sinni, sem einkennist af „innri vexti“, eins og það er kallað – sem þýðir í raun myndun skortstöðu á ódýru landi.

Þjóðhagsleg hagkvæmni

Væntanlega má reikna út þjóðhagslegan ábata af íbúðarbyggð á flugvallarsvæðinu, ábata sem fellur öllum Íslendingum í skaut og mun auka kaupmátt. Ríkisstjórn ber að velja hagkvæmasta kostinn fyrir þjóðina í hverju máli. Efnahagsleg rök – ef þau eru ekki trompuð af öðrum og brýnni sjónarmiðum – eru grundvöllur flestra ákvarðana ríkisins. Ríkisstjórninni og Reykjavíkurborg ber að vinna að lausn málsins.

Weimer & Vining tala í bók sinni „Policy Analysis: Consepts and practice“ – sem er biblía stjórnsýslufræðinga – að Kaldor-Hicks hagkvæmni eigi við þar sem þeim sem ekki geta nýtt eign sína er bættur skaðinn. Þeir mæla með að ávinningur og tjón sé nákvæmlega kortlagt, m.a. í þeim tilgangi að skapa ekki stjórnmálalega og stjórnsýslulega byrði sem hlýst af löngum deilum (sem er kannski orðið nokkuð seint hjá okkur, en því brýnna að ljúki).

Samgöngulausnir í stað Reykjavíkurflugvallar

Erfiðleikarnir við að flytja flugvöllinn eru efnahagslega léttvægir gagnvart því að byggja á svæðinu. Það tók Bláa lónið nokkra daga að ryðja veg og bílastæði eftir að hraun rann að því – að nokkru leyti á nýju hrauni. Það tæki jarðýtur fáa daga að leggja flugbrautir í Hvassahrauni – og ef hraun rennur þar má leggja nýja flugbraut á nýju hrauni. Hvassahraunið er ekki á sprungusvæði, þannig að hættan á svæðinu er væntanlega aðeins hraunrennslishætta. Ekki þyrfti að gera þar varanlegar byggingar, frekar en er á Reykjavíkurflugvelli. Sennilega tæki það 16 daga að leggja brautina og 16 mánuði að gera flugvöllinn kláran. Hvað varðar tengingu við Landspítalann má koma upp þyrlupalli á eða við hann. Þá eru fleiri valkostir fyrir hendi, s.s. lest til Keflavíkurflugvallar.

Er bótaréttur vegna ónýtanlegs skipulagsvalds?

Enda þótt Hæstaréttardómar hafi fyrir áratugum síðan hafnað því að skipulagsvald feli í sér einhvers konar eignarréttarlega stöðu, nema við sérstök skilyrði – þá má hafa í huga að staða sveitarfélaga gagnvart ríkinu hefur styrkst mikið í Evrópu og Hæstiréttur gæti breytt afstöðu sinni. Þá er ljóst að eignarréttur – líka óbeinn – heyrir undir mannréttindi og svona skaðabótamál myndi alltaf enda hjá Mannréttindadómstóli Evrópu – sem er enn líklegri en Hæstiréttur til að verja rétt sveitarfélagsins. Í ljósi ákvæða Evrópusáttmálans um sjálfsstjórn sveitarfélaga frá 1985, sem staðfestur var á Alþingi 1990, auk seinni viðauka við sáttmálann, er líklegt að „skipulagsleg hagsmunastaða“ Borgarinnar njóti verndar, ef hún leiðir til mikils fjártjóns á tiltölulega veikum forsendum.

Er bótaréttur vegna ónýtanlegrar eignar á landi?

Borgin á drjúgan hluta þess lands sem flugvöllurinn útheimtir og eru línurnar varðandi það hreinar. Bætur skulu koma fyrir land ef ákvarðanir stjórnvalda hindra hagkvæma og eðlilega nýtingu þess.

Lokaorð Hér verður ekki rætt um vanrækslu Reykjavíkurborgar og ríkisins um áratugaskeið við að verja hagsmuni íbúa sinna hvað varðar þetta mál, en gera það að pólitísku bitbeini, sem eitt og sér er óþverra- og óheilindasaga. Sé Borgin eini aðilinn sem getur farið í mál við ríkið vegna aðildarsjónarmiða – þá geta allir íbúar Reykjavíkur farið í mál við Borgina fyrir vanrækslu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation