Ábyrgð eða flótti (16.09.2021)

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Hver er ábyrgð ríkisstjórnarinnar gagnvart framtíð þjóðarinnar?

Árið 1941 kom út í Bandaríkjunum bókin „Flóttinn undan frelsinu“ eftir þýska sálgreinandann Eric Fromm. Hann var gyðingur sem hafði flust vestur um haf vegna frelsis- og mannréttindabrota nasista. Í bókinni greinir hann hvernig hægt er að setja fólk í viðjar ófrelsis þannig að það telur sig ekki finna fyrir þeim og vill umfram allt ekki frelsi. Hver er sálfræðilegur grundvöllur þjóðfélagsófrelsis?

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar í málefnum faraldursins hafa hingað til verið í takt við þessar fræðikenningar, enda eru þær alþekktar. Hún veðjar á að vinna komandi kosningar með áframhaldandi frelsis- og mannréttindatakmörkunum, sóttkvíum, de facto útgöngubanni á ungt fólk á nóttunni og lögreglueftirliti og valdboðum, bæði innanlands og á landamærunum. Þannig metur hún hag sínum best borgið.

Þetta er öndvert því sem Danir, Svíar og Finnar gera og er greinilega ætlað til heimabrúks, en væntanlega aðeins um stund. Af því að ábyrgðin á framtíð þjóðarinnar bíður þess að ríkisstjórn, kannski ný ríkisstjórn, axli hana.

Óhjákvæmilegt er annað en að búa með Covid-19-veirunni. Það þarf hjarðónæmi hjá þjóðinni, bæði með bólusetningum og náttúrulegu ónæmi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út að bóluefni dagsins í dag verji ágætlega gegn þekktum afbrigðum veirunnar og ný bóluefni munu koma fram sem andsvar við nýjum afbrigðum. Lyfjafyrirtækin eru að reyna að sjá fyrir stökkbreytingar veirunnar og miða næstu bóluefni við það.

Faraldurinn þarf óhjákvæmilega að ganga yfir hér innanlands, annars erum við ekki þátttakendur í opnum frjálsum heimi. Slík yfirferð er kaupverð farsællar framtíðar og stjórnvöld þurfa að útskýra þetta vel fyrir okkur – vegna þess að henni gæti fylgt eitthvert álag sem við þurfum að bera um tíma. Faraldurinn þarf að ganga yfir hjá félagslynda fólkinu; ungu fólki á vinnumarkaði og sem sækir samkvæmislífið, skólafólki á öllum aldri og hann mun ef til vill í þeirri yfirferð ná til fleiri hópa. Svo mótsagnakennt sem það er, meðal annars í ljósi lokana skemmtistaða á nóttunni, þá hefur það alltaf legið fyrir að besta vörn viðkvæmra og aldraðra er að félagslynda fólkið myndi hjarðónæmið.

Þetta er það sem verið er að gera í okkar nágrannaríkjum og sum þeirra eru nánast komin með hjarðónæmi, til dæmis Svíþjóð og jafnvel Bretland. Önnur nágrannaríki eiga yfirferð faraldursins eftir að mismiklu leyti.

Framtíðarsýn flóttans

Ekki verður annað séð en ríkisstjórnin sjái framtíðina þannig fyrir sér að veirunni verði haldið niðri um alla framtíð hér á landi, ekki síst meðal félagslyndu hópanna. Þetta þýðir að frelsis- og mannréttindatakmarkanir verða varanlegar og þjóðin í spennitreyju – og missir af væntum ábata af auknum ferðamannastraumi til landsins því að ferðatakmarkanir í Leifstöð verða óhjákvæmilega að fylgja. Sennilegt er talið að umferðin um Norður-Atlantshafið fari síður um Leifsstöð þegar hindranir þar eru meiri en á öðrum landamærum.

Þetta er auðvitað ófær leið.

Ríkisstjórnin hefur á síðustu vikum staðið frammi fyrir tveimur valkostum.

Annars vegar að taka ábyrgð á yfirferð faraldursins sem kostar eitthvað á ólíkum mælikvörðum, hversu mikið er að einhverju leyti óvíst; að minnsta kosti öflugri sóttvarnadeild en nú er rekin, væntanlega utan Landspítalans því hann vill ekki eða getur ekki þjónað í faraldrinum – en afleiðingarnar gagnvart fólki verða þó vægar eins og sýnir sig í nágrannaríkjunum.

Hins vegar að hörfa frá verkefninu og flýja frelsið. Kostnaðurinn við ábyrgðina virðist skelfa ríkisstjórnina, ekki síst vegna þess að hún, þríeykið og RUV hafa hrætt þjóðina að því marki að hluti hennar kallar á áframhaldandi ófrelsi svipað og Fromm lýsti. Það gefst ekki endilega tími til að vinda ofan af því fyrir kosningar.

Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar 14. september 2021 tóku væntanlega mið af því hvað gæti reynst henni best í kosningunum sem verða eftir níu daga. En hvort hún sjálf og áðurnefndir aðilar hafa grafið gröf hennar eða ekki á eftir að koma í ljós.