Að kunna að tala

Facebook-færsla.

Ég var nýbyrjaður hjá Reiknistofnun Háskólans árið 1981 og var að aðstoða prófessor í sálfræði við gagnavinnslu þegar ég nefndi við hann að mig langaði að læra meira í háskóla.

„Nei, blessaður vertu ekki að því“ sagði hann. „Það er nóg að læra að tala eins og maður – eða réttara sagt – að rífast eins og maður. Það er það lang merkilegasta sem skólarnir kenna og þegar frá líður – það eina sem skiptir máli“.

Ég var svo kurteis að brosa, hann var greinilega gamansamur. En ákvað að herða upp hugann og sagði. „Hvað áttu við?“

„Að kunna að rífast – þar skilur á milli. Í lögfræðinni er talað um málefnaleg rök – en tölum bara íslensku – þetta snýst um að halda sig við umræðuefnið sem rætt er. Ekki að skipta um umræðuefni nema með leyfi viðmælandans og að hafa þá að því formála. Því það er allt önnur umræða“.

Svo horfði hann á mig eins og hann væri ekki viss um að ég myndi meðtaka næsta gullmola: „Veistu, þú vinnur ekki samræður með því að keyra yfir viðmælanda þinn, heldur með því að láta honum líða vel“.

Þetta sat svolítið í mér. Sennilega var prófessorinn ekki allur þar sem hann var séður.

Svo rifjaðist það upp fyrir mér að í sveitinni minni – þar sem flokkadrættir voru ekki óþekktir – snerust orðaskilmingar stundum um að skipta hratt um umræðuefni og taka nýja vígstöðu. Ef góður samvinnumaður var að fara halloka fyrir óverðugum, sem var orðheppinn og fljótur að hugsa, þá skipti sá fyrrnefndi um umræðuefni. Kom að máli sem hann þekkti og þar sem hann stóð málefnalega vel að vígi. Yfirleitt varð þá ljóst að einhver var hálfviti.

Þetta mátti gera aftur og aftur og smám saman – en svona samræður í sveit geta dregist á langinn – mátti koma mörgu að og freista þess að ná undirtökunum í samræðunni.

Ég var kannski níu ára þegar ég, staddur á mannamóti, heyrði vin föður míns, líka afargóðan samvinnumann, fara halloka aftur og aftur fyrir viðmælanda sínum. Hann var orðinn mjög reiður og þegar hann hafði nánast verið rekinn á kaf greip hann til neyðarraka og sagði: „Amma þín var lauslát“. Mér brá, þetta var mælskulistarbragð sem ég hafði ekki heyrt áður. Það fóru allir að skellihlægja. Ég fann að samvinnumaðurinn hafði sigrað glæsilega með rothöggi á síðustu stundu.

Mér dettur þetta stundum í hug þótt nokkuð sé frá liðið. Jafnvel eftir umræður á félagsmiðlum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation