Af fyrirlestri um stjórnarskrána

Facebook-færsla.

Í fyrirlestri sínum á málþingi ReykjavíkurAkademíunnar í gær í Þjóðminjasafninu varð Róbert Spanó tíðrætt um valddreifingu og mannréttindi. Þessi tvö hugtök einkenna einkum evrópskt lýðræði. Ef ég skil hann rétt telur hann að þetta tvennt eigi undir högg að sækja í heiminum og ekki síður í Evrópu en annars staðar.

Hann telur hins vegar að valddreifingin standi föstum fótum með dreifðum stofnunum vestrænna þjóðfélaga og stofnanastrúktúr þeirra. Þannig ályktaði hann að Trump-stjórnin í Bandaríkjunum muni ekki geta stjórnað með beinum fyrirskipunum – valddreifingin sé vel tryggð með stofnununum. Þetta er mikilvægt atriði, en minnir okkur á að helsta markmið Trump-stjórnarinnar er að veikja sameiginlega valdið – ríkið – með gríðarlegum niðurskurði. Hins vegar er munurinn væntanlega sá á stofnunum í lýðræðisríki og alræðisríkjum að stofnanir lýðræðisríkja hafa sjálfstæð völd hver á sínu sviði og það þarf lagabreytingar til að veikja þær eða taka það af.

Okkur ætti þó öllum að vera ljóst að ríkisstjórnir með alræðistilburði – eins og sumar hægri stjórnirnar í Evrópu – geta veikt sjálfstæði og sjálfstætt vald lýðræðisstofnana og er skemmst að minnast árása pólsku ríkisstjórnar Laga og réttlætis á dómskerfið á síðasta kjörtímabili, stjórnar sem féll með látum í kosningum 2023.

Þá geta slíkar ríkisstjórnir – líta má vestur um haf – rekið öfluga yfirmenn stofnana og sett leppa sína í staðinn. Það er önnur og mikilvirk aðferð til að veikja lýðræðið.

Mannréttindi tengjast valddreifingu. Þau eru varin og framkvæmd af ólíkum stofnunum, sem huga að ólíkum kimum þjóðfélagsins. Ein af þessum stofnunum eru fjölmiðlar. Þegar fjölmiðlar eru á fallanda fæti eins og nú er og fréttamönnum fækkar stöðugt – væntanlega vegna áhrifa frá félagsmiðlum – þá er réttmætt að spyrja hvernig fer fyrir tjáningarfrelsinu. Áður en við ræðum um tjáningarfrelsið skulum við muna að sama á við um annað frelsi, s.s. frelsið til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómstólum, félagsmiðlar hafa á ákveðinn hátt tekið sér vald dómstóla á síðustu árum – þar sem réttindi sakborninga eru yfirleitt engin.

Annað lýðræðislegt vald, sem kalla má stofnun eða stofnanir, er þekking og upplýsing. Hana er einkum að finna í háskólaumhverfi, rannsóknarstofnanaumhverfi, hjá eftirlitsstofnunum og stjórnvöldum beint – hjá hinu opinbera – sem er skylt að ráða ávallt þann hæfasta (til að fara sem best með almannafé) og þannig berst ný þekking til stofnanakerfisins. Fjöldi doktora í opinberum stöðum fer fjölgandi, þó þeir hafi einkum verið í rannsóknar- og háskólastofnunum hér á landi hingað til. Í þróuðum evrópuríkjum er nú meirihluti útskrifaðra doktora komin í sérfræðings- og stjórnunarstöður hjá opinberu valdi og atvinnulífinu, vegna þess að menntuðum fjölgar stöðugt.

Enda þótt félagsmiðlar séu rödd almennings – þá fullyrðingu má samt véfengja þar sem margar og ólíkar aðferðir eru notaðar til að hafa áhrif á almenningsálitið – þá bera félagsmiðlar með sér harðræði meirihlutavaldsins. Það harðræði einkennir líka beint lýðræði – sem er tvíburi hinnar beinu og milliliðalausu raddar almennings – en beint lýðræði er ógn við þróaðar ákvarðanatökuleiðir – einkum vegna yfirgangs við minnihlutann og mannréttindi hans.

Þá ber að nefna að á félagsmiðlum er skoðun – sem oft er ógrunduð – jafn rétthá og áratuga rannsóknarvinna á ákveðnu sviði. Þetta þekki ég vel sem hef nú rannsakað, kynnst vel og unnið við stjórnsýslu og stjórnmál frá 1989 og er doktor frá stjórnmálafræðideild HÍ – ég mæti því viðmóti að ég sé hrokafullur og óviðmælandi ef ég svara frumstæðum og oft röngum fullyrðingum almennings. Vegna þess að viðmælandi minn segir að hans sjónarmið séu jafnrétthá og mín – við höfum bara eitt atkvæði hvor. Þau orð hans má til sanns vegar færa.

Þá má spyrja sig – er bein og minniliðalaus rödd almennings og beint lýðræði hættulegt sjálfu lýðræðinu og mannréttindunum? Geta mannréttindi, einkum tjáningarfrelsið, gengið að stofnunum þjóðfélagsgerðarinnar dauðum og þar með valddreifingunni? Ef stofnanirnar veikjast, er tjáningarfrelsið þá búið að grafa undan sjálfu sér?

Bein og óritstýrð tjáning almennings og beint lýðræði hafa verið draumar tölvumanna allt frá níunda áratug síðustu aldar. Þeir draumar raungerðust um 2010 með félagsmiðlunum – tímamót oft kennd við arabíska vorið. Núna hafa þeir leitt til þess að bandarískir auðmenn stýra félagsmiðlum fyrir allan hinn frjálsa heim (þeir ná jafnvel víðar). Ég myndi segja – með tilvísun til skilgreiningar Róberts Spanó um einkenni vestræns lýðræðis (stofnana, stofnanastrúktúrs og mannréttinda) – að auðmennirnir séu líklegir til að veikja stofnanirnar eins og brennuvargarnir hjá Biedermann ætluðu sér alltaf að brenna. Og freistingin að leiða umræðuna á eigin miðlum sér í hag, er og verður væntanlega ómótstæðileg.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation