Áhrif minnihlutans á þingi

Facebook-færsla.

Í danska þinginu hefur minnihlutinn aðra aðstöðu en hér, en sína möguleika á að tefja mál, láta rannsaka þau vel (t.d. áhrif þeirra) og jafnvel að stöðva þau. Það er með því (i) að þriðjungur þingmanna getur sent frumvarp í þjóðaratkvæði (sjá hér neðar um það), (ii) minnihlutinn getur óskað eftir fjórtán daga aukafresti fyrir þriðju umræðu til að rannsaka frumvarp betur (væri töluvert beitt vopn að vori þegar þingið er komið í tímahrak, en er bara hægt að nota einu sinni á hvert frumvarp) og (iii) málsmeðferðarfrestir eru lengri en á Alþingi, t.d. verða að líða 30 dagar frá framlagningu frumvarps til lokasamþykktar þess. Í danska þinginu er málþóf lítið stundað.

Þetta framkvæmist þannig að fjórtán daga fresturinn er sjaldan notaður. En fyrir kemur að meirihlutinn á þingi óski afbrigða frá málsmeðferðarreglum til að frumvarp fái styttri meðferð en 30 daga. Það er þó aðeins við þinglok.

Hvað varðar regluna um að þriðjungur þingmanna geti sent frumvarp í þjóðaratkvæði, sett í dönsku stjórnarskrána 1953, þá er það kjarnorkuákvæði Dananna. Það hefur einu sinni verið notað, árið 1963, varðandi stjórnarskrárbreytingu sem heimilaði ríkisstjórninni að takmarka hvað mikið hver og einn gæti átt af landi, kallað jarðamálið. Það var samþykkt af yfir 63% kjósenda, en reglurnar voru að 45% atkvæðisbærra manna þurfti að taka þátt í atkvæðagreiðslunni og einfaldur meirihluti dugði til samþykktar.

Það segir sig sjálft að stjórnarandstaðan á Alþingi hefði ekki kosið að senda auðlindagjaldsfrumvarpið í þjóðaratkvæði – enda þjóðin meðmælt því. Það er reyndar einkennilegt að stjórnarandstaðan á Alþingi skuli berjast gegn máli sem meirihluti kjósenda augljóslega styður því það eykur ekki vinsældir hennar. Meginreglan er að minnihlutinn á þingi leitar eftir óánægju í þjóðfélaginu um stjórnarfrumvörp og reynir að efla hana. Slíkt styður hreyfanleika í pólitíkinni – gjarnan er miðað við að stjórnarandstaða sigri í kosningum innan tíðar og komist þá í ríkisstjórn, enda geta ríkisstjórnir sem verða að taka erfiðar ákvarðanir stundum orðið óvinsælar, orðið verklitlar og kjósendum farið að leiðast þær. (Þó geta þær slegið sér upp í stríði, bæði hernaði og gegn veirum og sjúkdómum).

Ef þriðjungur þingmanna (21) gæti sent frumvarp í þjóðaratkvæði þá yrði meirihlutinn (ríkisstjórnin) að hafa 43 manna stuðning fyrir mjög óvinsælum frumvörpum. Það væri grundvallarbreyting á íslenskri pólitík. Almennt þarf ríkisstjórnin aðeins 32 manna meirihluta, bæði til að koma málum í gegn og til að verjast vantrausti. En óttinn við þjóðaratkvæðagreiðslu um erfið mál myndi kalla á að tveir þriðju hafi áhrif á stjórnarfrumvörp. Talið er að sá möguleiki auki ábyrgð stjórnarandstöðunnar í Danmörku, en þessir tveir þriðju væru ekki alltaf sömu einstaklingarnir eða flokkarnir. Þannig kæmust margir eða flestir stjórarandstöðuþingmenn í þá aðstöðu að hafa áhrif á einhver mál.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation