Ákvarðanir þurfa að breytast með breyttum forsendum (06.01.2022)

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Sóttvarnaaðgerðir eiga að mótast af metnaðarfullri framtíðarsýn, réttmætum og lögmætum markmiðum og meðalhófi, m.a. við val á leiðum.

Fullyrt hefur verið að veiran stjórni sóttvarnaraðgerðum. Sú staðreynd blasir hins vegar við að sóttvarnaraðgerðir eru stjórnvaldsákvarðanir teknar af fólki sem hefur til þess völd og þeim völdum setur stjórnskipunin málefnalegar og lýðræðislegar skorður með ýmsum lögum. Þótt eldfjalla-, jarðskjálfta- og sóttvarnafræði geti legið til grundvallar ákvörðunum á hættustund, víkja þau fræði ekki regluverki samfélagsins til hliðar til lengdar og þegar hættan rénar.

Stjórnsýsluákvarðanir

Þegar stjórnsýsluákvarðanir eru teknar, m.a. sóttvarnaákvarðanir, þurfa þær að standast kröfur meðalhófs, sem þýðir að þær eiga að vera eins lítið íþyngjandi fyrir almenning og hægt er til að ná tilgreindu markmiði með ákvörðuninni; vera réttmætar, sem þýðir m.a. að markmið og leiðir séu valin með málefnalegum sjónarmiðum; vera lögmætar, sem þýðir að þær hafi nauðsynlegan lagagrundvöll og málið þarf að vera rannsakað, sem þýðir meðal annars að stjórnvöld eiga að kynna sér öll sjónarmið og fylgjast með tilkomu nýrra forsendna – og fleiri reglur má tína til.

Meðalhóf

Meðalhófsregla hefur verið nokkuð til umræðu og er þá jafnan rætt um hvort lokanirnar séu framkvæmdar með meðalhófi. En ekki er minnst á það sem enn mikilvægara er, að val á markmiðum og leiðum þarf einnig að byggja á meðalhófi, ekki má setja sér hvaða markmið sem er og því síður að velja ákveðna leið vélrænt og blindandi.

Þegar tvö ár eru liðin af faraldri og allar helstu forsendur hans kunnar ætti heilbrigðisráðuneytið að hafa myndað framtíðarsýn í málinu. Á grundvelli hennar setur ráðuneytið baráttunni gegn veirunni markmið, jafnvel tímasett markmið og vörður ef þarf. Forsendur þess að takast á við veiruna breytast sífellt og vörnin gegn henni verður öflugri og því eiga markmiðin að breytast við breyttar forsendur, svo sem við bólusetningu, tilkomu lyfja við sjúkdómi, útbreiðslu hættuminni afbrigða o.s.frv. Að lokum eru leiðir valdar til þess að ná þeim markmiðum og vörðum sem að er stefnt.

Meðalhófsregla felur í sér, auk hófs í framkvæmd einstakra leiða, að farnar séu fleiri en ein leið, ekki síst nú þegar margar eru færar og raunar farnar í nágrannaríkjunum. Opinbert vald getur ekki sett öll fjöregg þjóðar sinnar í eina körfu árum saman, mæta þarf aðsteðjandi áhættu með eins fjölbreyttu móti og hægt er og lágmarka þannig líkurnar á tjóni. Að fara bara eina leið, að bíða eftir bóluefnum, hefur í för með sér að landið er lokaðra en nokkru sinni fyrr – meðan þær þjóðir sem lagt hafa áherslu á margar leiðir, m.a. að ná náttúrulegu ónæmi, eru frjálsar. Segir sig sjálft á hvaða skala þessi mistök eru hjá þjóð sem lifir af ferðamennsku.

Réttmæti

Réttmæt og metnaðarfull framtíðarsýn gæti falið í sér að allir geti lifað með reisn þrátt fyrir að faraldurinn gangi á komandi árum og að frelsi, mannréttindi og lýðræði verði aftur eins og best hefur orðið. Markmiðin og vörðurnar myndu síðan snúast um hvernig við komumst til þeirrar framtíðar. Sjónarmið sem snúa að betri framtíð vega gríðarlega þungt nú þegar lögregluaðgerðir á grunni bráðabirgðaákvarðana hafa staðið yfir í tvö ár. Minnt skal á að náttúrulegt ónæmi myndar sterkari vörn en bólusetningar, þótt bólusetning og náttúrulegt ónæmi saman verji best. Þessi staðreynd ein og sér skiptir miklu máli við ákvarðanatökuna, auk almennra sjónarmiða, t.d. að ónæmi þjóðarinnar gagnvart öðrum sýkingum þarf að þróast þegar til lengri tíma er litið.

Skammtímalokanir til 20-40 daga uppfylla ekki skilyrði fyrir réttmætum ákvörðunum nema í upphafi faraldurs. Ekki gengur að segja fullbólusettri þjóð að loka þurfi mestallri starfsemi af því að við séum á byrjunarreit í baráttunni. Við erum sem betur fer ekki á byrjunarreit. Ekkert óvænt hefur gerst, afbrigði koma og fara og bóluefni gegn þeim kemur einhverjum mánuðum eða misserum síðar. Þetta er hins vegar spurning um það hvernig við lifum með veirunni.

Þannig má ekki síst gagnrýna ákvarðanirnar í desember sl. fyrir að þær stefna ekki að afnámi lokana heldur bera með sér að þær verði viðvarandi svar við nýjum afbrigðum veirunnar – en hér verðum við að geta okkur til um markmið því almenningur fær lítið annað en boðin og bönnin.

Þá er líka ljóst að lokanirnar er ekki hægt að réttlæta með áhættunni sem skapaðist með Ómíkron-afbrigðinu. Reikna má með að þúsunda eða tugþúsunda manna sóttkvíar og einangranir eyðileggi meira í samfélaginu en að láta veikindi sem eru oft einkennalaus og tiltölulega áhættulítil ganga yfir (með tilliti til bólusetninga, nýrra lyfja og vægara afbrigðis) – að ekki sé minnst á framtíðarsjónarmiðin. Við slíkar aðstæður eru vélrænar ákvarðanir misbeiting valds við val á leiðum.

Við skulum muna að almenningur hlýtur að hafa réttmætar væntingar um að lokununum linni og tímabili „undantekningarinnar“ ljúki, en óttast má að þeir aðilar sem fengið hafa völd yfir daglegu lífi heillar þjóðar á síðustu tveimur árum, alla athygli fjölmiðla og þegið endalausar áminningar um að allir skuli lúta einum vilja, þeirra vilja, láti þau ekki af hendi baráttulaust. Á þetta við um marga aðila, bæði lyfjaiðnaðinn, læknis- og líftæknifræðina og skoða má hverjir hafa tyllt sér í fyrstu frétt hjá RÚV á sl. tveimur árum.

Einnig er ekki óeðlilegt að nefna að eins mikilvægt og inngrip lögreglu og sóttvarnayfirvalda er á hættustund, þá er jafnvel enn mikilvægara að yfirvöld hverfi hratt og vel af vettvangi þegar um hægist.

Lögmæti

Þótt við teljum að í upphafi faraldursins hafi lokanirnar jafnvel verið lögmætar og í lagi að víkja til hliðar mannréttinda- og frelsisákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegra sáttmála til að verja líf – þá er jafn ljóst nú þegar verulega hefur dregið úr áhættunni, en við farin að sjá kostnaðinn af lokununum á flestum sviðum mannlífsins, að þessar forsendur standast ekki lengur.

Afkastageta heilbrigðisstofnana hefur líka verið nefnd sem lögmæt ástæða til að víkja mannréttinda- og frelsisákvæðum til hliðar – en það er klárlega rangt. Eitt auðugasta ríki heims getur ekki sagt að ónóg opinber þjónusta megi valda mannréttindaskerðingum. Umfang opinberrar þjónustu er ekki fasti sem öll virkni í landinu á að virða og snúast um, heldur á hún augljóslega að mæta þörfum þjóðarinnar á hverjum tíma og við hverjar aðstæður – og stjórnvöld eru skyldug til að reka afkastamikla sóttvarnadeild á tímum faraldurs. Hvort sem er utan eða innan Landspítalans, en sennilega er ákjósanlegt að reka hana utan spítalans til að verja starfsemi hans sýkingum og til að sniðganga það einkennilega ástand sem þar ríkir.

Ef heilbrigðisþjónustan mætir ekki þörfum þjóðarinnar erum við mögulega að tala um brot stjórnvalda á ýmsum öðrum skyldum en hér hafa verið nefndar. Alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi skyldar ríkið ekki aðeins á sviði atvinnu, menningar og menntunar, skyldur sem að nokkru hafa verið sniðgengnar í tvö ár – heldur líka til að veita læknishjálp og að tryggja öllum „sjúkrahúsþjónustu og sjúkrameðferð“ (12. gr.). Þar sem ekki tókst að kveða veiruna niður og við þurfum að búa við hana til framtíðar þá veikjast að sama skapi skyldur til að hindra landfarsótt, sem þá er óraunhæft, gagnvart skyldunni til læknishjálpar. Aðgerðaleysi við uppbyggingu afkastamikillar sóttvarnadeildar og aðgerðaleysi almennt, getur verið jafn skaðlegt og ólöglegt og aðrar rangar ákvarðanir.

Lokaorð

Nú er svo komið að lokunarsinnar meðal almennings eru farnir að taka lögin í sínar hendur (skólayfirvöld á fleiri skólastigum eru að reyna að takmarka skólastarf) – með dyggri aðstoð RÚV – og þurfa stjórnvöld að hugsa sinn gang alvarlega þegar svo er komið meðal almennings og fjölmiðla, og rifja upp hvaða þjóðfélagsgerðum slíkar aðstæður tilheyra. Er ekki orðið tímabært að draga úr hræðsluáróðri?

Lítill vafi er á því að lokanirnar sem gripið var til í desember sem andsvar við Ómíkron-afbrigði veirunnar eru ekki í takt við vandaða stjórnsýsluhætti og þær eru ógildanlegar með dómi ef stjórnsýslulög hafa verið brotin. Kemur á óvart að enginn aðili, t.d. mannréttindasamtök eða -stofnanir virðist hafa kært aðgerðirnar í heild sinni til dómstóla.