Facebook-færsla.
Ég er nú ekki búinn að sjá til botns í máli Víðis Reynissonar varðandi ríkisborgararétt Oscar Bocanegra. Það er eitthvað það fáránlegasta mál sem stjórnmálamenn hafa tekið sér fyrir hendur. En ég hef punkta:
1.
Ákvörðun um ríkisborgararétt er að mínu mati stjórnsýslumál, þótt Alþingi taki hana. Þetta er grundvallaratriði sem varla verður deilt um og Víðir virðist ekki hafa áttað sig á. Allur málatilbúningur Víðis um að hann hafi farið eftir pólitískri sannfæringu sinni og þannig að um málið sé tekin pólitísk ákvörðun er því í besta mála kjánaskapur, en mögulega alvarleg afvegaleiðing umræðunnar.
Við ákvarðanatöku um ríkisborgararétt er Alþingi bundið af almennum reglum stjórnsýsluréttarins, en ekki af stjórnsýslulögunum út af fyrir sig, þau eiga bara við um framkvæmdarvald. Meðal þessara almennu reglna eru þó allar helstu reglurnar, s.s. jafnræðisregla, meðalhófsregla, réttmætisregla, lögmætisregla o.s.frv. – og svo mitt uppáhald, sem er „misnotkun valds við val á leiðum“ – sem er íhugunarverð í okkar dæmi.
Þá er ónefnd reglan um að stjórnvald megi ekki láta í ljós afstöðu sína til máls fyrirfram því það sé líklegt til að halda sig við hana þegar til ákvörðunar kemur (e. prejudice rule). Þannig er hæfi Víðis til að fjalla um og taka endanlega ákvörðun í máli Oscars ekki lengur fyrir hendi.
(Nú er það svo að Alþingi hefur ekki tekið ákvörðun um ríkisborgararétt Oscars og það getur ekki tekið ákvörðun yfirleitt nema með atkvæðagreiðslu á þingfundi sem meira en helmingur þingmanna situr og tekur þátt í.)
2.
Stjórnvöld (framkvæmdarvald) eru sjálfstæð í störfum sínum og lúta ekki fyrirmælum frá stjórnmálamönnum. Slík fyrirmæli eru sérstaklega ámælisverð – og allur þrýstingur stjórnmálamanna eða kúgunaraðferðir gagnvart stjórnvöldum. Oftast væri það ráðherra sem þrýsti á forstöðumenn stofnana eða úrskurðarnefnda, en ráðherrar höfðu áður fyrr víðtæk völd til ákvörðunartöku sem þeir hafa ekki núna, þótt þeir hafi ennþá úrskurðarvald í margháttuðum málum. Kæruleiðir eru í mörgum tilvikum til úrskurðarnefnda – og svo að lokum til dómstóla.
Alþingismenn setja reglur, ákvarða fjárlög, sinna alþjóðasamstarfi, eftirliti með framkvæmdarvaldinu og fleira – en taka almennt ekki stjórnvaldsákvarðanir (nema við veitingu ríkisborgararéttar eins og fyrr segir) og þeir hafa ekki dómsvald nema um hvort kosning þeirra sjálfra sé gild. Varðandi seinna atriðið hefur MDE úrskurðað að koma þurfi því dómsvaldi til hlutlauss aðila (væntanlega dómstóla) – og nú eru umræður um að Alþingi veiti ekki lengur ríkisborgararétt, eðlilegra væri að það sé hjá framkvæmdarvaldinu.
Komið hefur fram að inngrip Víðis feli í sér eftirlit með framkvæmt laga hjá framkvæmdarvaldinu. Það er rangt og villandi. Að stjórnmálamenn hafi áhrif á ákvarðanir framkvæmdarvaldsins og reyni að knýja fram ákveðnar niðurstöður er misbeiting valds, líka kallað valdníðsla, en ekki eftirlit.
3.
Nú er inngrip nefndarformanns á Alþingi í störf Útlendingastofnunar ekki aðeins brot á sjálfstæði stjórnvalda, heldur einnig brot á þrískiptingu ríkisvaldsins, sem er stjórnskipulegur grundvöllur íslenska ríkisins. Slíkt brot kemur sárasjaldan fyrir – nánast aldrei – en fyrir hefur komið að Alþingi setji ný lög sem felli úrskurð framkvæmdarvaldsins eða dóm dómstóla. Slík lög eru þó ekki afturvirk. Mál Oscars væri af þessu tagi, þ.e. að Alþingi veitti ríkisborgararétt sem ógilti í raun ákvarðanir Útlendingastofnunar.
En nú hefur þetta ekki gerst – ákvörðun Alþingis hefur ekki verið tekin, sem setur frumkvæði nefndarformannsins í afarljótt ljós. Hann er beinlínis – eins og áður segir – að misbeita valdi sínu sem alþingismanns og nefndarformanns til að fá forstjóra Útlendingastofnunar til að ná fram tiltekna niðurstöðu í mál sem liggur fyrir hjá stofnuninni. Það er ekki Alþingi sem brýtur á þrískiptingu valdsins heldur formaður allsherjar- og menntamálanefndar. Hann er fyrrverandi lögreglustjóri og lætur fyrirmæli sín fara í gegnum ríkislögreglustjóra, væntanlega til að gefa þeim meiri vigt (auka líkur á að hann komi vilja sínum fram).
(Svo virðist sem meirihlutinn á Alþingi, undir forystu atvinnuvegaráðherra og formanns atvinnumálanefndar, ætli sér að keyra yfir Hafrannsóknarstofnun með hliðstæðu móti og Víðir keyrði yfir Útlendingastofnun, þ.e. að hindra að stofnunin stöðvi veiðar þegar samþykktu aflamagni er náð. Það ætla þeir þó að gera með setningu laga um strandveiðar – en ekki með tölvupósti frá ríkislögreglustjóra.)
4.
Ljóst er að auk þess að gera sig vanhæfan til að vinna við mál Oscars frekar á vegum Alþingis – að Víðir hefur brotið jafnræðisreglu. Átján aðrir höfðu sambærilega stöðu gagnvart stjórnvöldum þegar hann misbeitti valdi sínu gagnvart forstjóra Útlendingastofnunar (öllum virðist sama um að brotið sé á þeim hópi). Lögfræðingar verða að skoða ávirðingar hans nánar. En minnt skal á að Umboðsmaður Alþingis skoðar ekki störf Alþingis, heldur framkvæmdarvaldsins, og Ríkisendurskoðun rannsakar ekki lögbrot – þannig að þá eru eftir til að taka á málinu lögregla og saksóknari, auk dómstóla. Ekkert slíkt getur gerst því alþingismenn eru friðhelgir nema þeir brjóti hegningarlög.
5.
Forstjóri Útlendingaeftirlitsins tekur mjög umdeilanlega ákvörðun, en virðist varpa niðurstöðunni á nefndarformanninn Víði, með því að krefja hann svara um að nefndin hafi aðrar fyrirætlanir varðandi umsóknir hinna 18 um ríkisborgararétt, þannig að hún geti beitt undanþáguákvæði gagnvart Oscari einum, en ekki öðrum umsækjendum. Þannig geti hún brotið jafnræðisreglu gagnvart hinum 18.
Hafa verður þó í huga að stjórnvald má ekki beita sjónarmiðum við ákvarðanatöku sína sem eru á málefnasviði annars stjórnvalds. Því geta sjónarmið allsherjar- og menntamálanefndar ekki legið til grundvallar ákvörðunar Útlendingastofnunar.
—–
6.
Enn annað alvarlegt við þetta mál er að með því hefur myndast fordæmi fyrir vinnslu tvöfaldra stjórnvalda við umsóknir útlendinga um búsetu á Íslandi. Annars vegar er Útlendingastofnun og síðan kærunefnd útlendingamála sem vinna eftir lögum um útlendinga – lögum sem Alþingi sjálft setti til að leysa þau mál – og hins vegar Alþingi sem veitir ríkisborgararétt og er við þá iðju ekki bundið af lögum um útlendinga, heldur getur notað hvaða sjónarmið sem það kýs. Þó þurfa þau sjónarmið að vera málefnaleg, en eins og allir þekkja eru margskonar rök málefnaleg.
Svona tvöfalt kerfi kemur ekki til mála að sé við lýði.
7.
Annað alvarlegt mál er að ákvörðun um réttindi og skyldur umsækjenda um búsetu á Íslandi er – og byggir á því að framkvæmd laga um slík mál er ekki pólitísk – að almenningur úti í þjóðfélaginu getur ekki tekið slíka ákvörðun. Það að ákveðnir aðilar geti tekið tiltekna útlendinga upp á sína arma og haldið baráttu þeirra gangandi á forsíðum fjölmiðla vikum saman – og fengið með sér vanstilltasta hluta þjóðarinnar – gengur ekki sem grundvöllur stjórnvaldsákvarðana. Hvorki í þessu máli né öðru.
Þegar svona ber við geta stjórnmálamenn freistast til að kaupa sér vinsældir hjá órólegu deildinni í þjóðfélaginu – sem oft hefur mikil áhrif á almenningsálitið – og framið lögbrot. Þær freistingar þurfa þeir að standast. Stjórnvöld geta þurft að taka óvinsælar ákvarðanir og fyrir það mun vandaðasta fólk þjóðfélagsins virða þau.
Við skulum muna að við viljum að allir standi jafnfætis gagnvart lögunum, allir verða að lúta lögunum jafnt. Við viljum ekki hafa það öðruvísi. Hugur okkar hlýtur að vera hjá hinum 18 sem Víðir ákvað að brjóta á. Ekki vildi ég vera í þeim hópi og eiga framtíð mína undir vinsældasókn stjórnmálamanna komna. Við eigum skilið að búa í betra þjóðfélagi.
(Talað hefur verið um að mannúð vanti í útlendingalög. Það er ekki rétt. Hún felst í sanngjörnum reglum og réttlætinu sem felst í því að allir sitja við sama borð. Hið sama gegnir um lögreglumál, skattinn og dómsvaldið – mannúðin felst í reglunum. Þannig hefur Alþingi komið því fyrir. Mannúð felst ekki í því að lögregla, skattur eða önnur yfirvöld sniðgangi lög gagnvart þeim sem gráta hæst.)