Facebook-færsla.
Í miðri gleðinni yfir að fjármálaráðherra hefur snuðað þjóðina til að greiða ríkissjóði 90 milljarða í eingreiðslu fyrir banka sem hún þó átti fyrir – er rétt að minna á að aldrei hefur tekist til lengdar að láta “almenning” eiga hlutafélög. Þau enda alltaf í höndum þeirra sem eiga auðmagn og kaupa þegar almenningur selur – sem hann gerir þegar harðnar á dalnum hjá honum (sem er reglulega, af viðráðanlegum eða óviðráðanlegum ástæðum) og þau kaup fara fram á lágu verði og því lægra sem fleiri á götunni þurfa að selja á sama tíma. Tap almennings af sölu hlutabréfanna er nánast óhjákvæmilegt. Fyrir þessu er margendurtekin og sannreynd reynsla um allan heim.
Þá er það ósagt að Íslandsbanki er ein af mjólkurkúm ríkissjóðs og nær 90 milljarða hagnaði á fjórum árum. Hér er fjármálaráðherra því að farga annarri af bestu kúm sínum vegna pólitískrar trúar en ekki af fagmennsku. Og Viðskiptaráð kom strax í gær fram og bað um að Landsbankinn yrði líka seldur. Í hvaða eignarhaldi verða þá bankarnir þegar frá líður?
Eina leiðin til að almenningur eigi atvinnulíf, viðskiptalíf og fjármálastofnanir – eða hvaða eftirsóknarverð verðmæti fyrir auðvald sem um er að ræða – er að ríkið eigi eignarhlutinn fyrir hönd hans. Og ríkissjóður getur þurft að berjast fyrir honum.