Alzheimer (2024)

Í aðdraganda kvöldmatarins, þegar konan steikti hörpudiskinn upp úr smjöri, spurði hún hvort ég væri með Alzheimer. Ástæða spurningarinnar var sú að ég hafði keypt allmargar pakkningar af smjöri – og þegar fyrrverandi tengdamamma hennar fékk sjúkdóminn þá hófst hann einmitt með miklum smjörinnkaupum. Ég tók þessu með hægð, fannst ég ekki geta sagt henni að í hvert skipti sem ég færi út í búð hugsaði ég um hvort ég ætti allt sem þarf í vöfflur – sem eru mitt sérverkefni – en mundi það sjaldnast og keypti því til öryggis hveiti, egg, mjólk, nú, eða smjör.

Þessi spurning sat síðan kyrr í andrýminu og skein úr augnaráði konunnar.

Þegar við settumst að kvöldverðarborðinu vildi ég draga athyglina að öðru, eða því, hvað ég þekkti takmarkanir mínar vel. Ég hóf söguna á því að segja að móðir mín hafði endilega viljað að ég lærði á hljóðfæri. Helst á harmonikku, eins og Fikki frændi okkar, en til vara á orgel, eins og Ásta móðursystir.

Dag nokkurn þegar ég var þrettán ára, og mamma hafði dregið notað píanó í búið, settist hún niður með mér, fletti upp á auðveldasta laginu í Nýju söngvasafni og hóf að kenna mér nótur. Einu sinni í viku.

Það dró ekki til tíðinda fyrr en haustið eftir. Við höfðum um hríð æft “Það er leikur að læra” og ég komst ekkert áfram; var alltaf seinn og hikandi og fór sífellt útaf. Þá rann það upp fyrir mér að lífið væri að hæðast að mér, úr því ég gæti ekki lært lag sem heitir „Það er leikur að læra“. Svo ég hafnaði frekara píanónámi og mamma varð vonsvikin.

En einmitt þetta haust kom þýskur tónlistarmaður í plássið og ákveðið var að stofna lúðrahljómsveit. Þarna sá móðir mín nýtt tækifæri og ég hóf nám á tenórhorn. Tenórhorn er sjaldnast einleikshljóðfæri, heldur spilar það hærri millirödd, stundum kemur það bara inn með tón og tón, en á öðrum stundum leikur það stórt hlutverk og eltir aðalröddina. Hið hlédræga eðli hljóðfærisins hjálpaði mér þannig að spil mitt var ekki áberandi og um hríð hélt ég að ég yrði tenórhornleikari. En allt er í heiminum hverfult.

Um vorið fórum við á lúðrasveitarmót til Keflavíkur og spiluðum í Slökkviliðsstöðinni. Þar var hátt til lofts og Sousa-marsarnir hljómuðu konunglega. Ég hafði gaman af lúðrasveitartónlist.

Segir ekkert af ferðum mínum fyrr en um kvöldið í Stapa – sem er skrifaður með b af heimamönnum – þar fór stúlka úr lúðrasveitinni Svaninum með mig út fyrir vegg. Við vorum á fyrsta þrepi ástarreynslunnar, héldumst í hendur, en ég er ekki viss um að við höfum talað saman, ég talaði ekki mikið við stúlkur á þessum árum. Þetta þótti mér hins vegar svo ánægjulegt að ég hefði viljað venjast því betur – og velti fyrir mér hvort ég ætti að flytja suður hennar vegna. En það gerði ég ekki og þessa stúlku hef ég ekki séð síðan.

Það var svo þegar ég kom norður, í klingjandi endurómi af lúðrasveitarmótinu, að ég ákvað að hætta. Það gerði útslagið að Lárus Sveinsson kom til að efla andann hjá okkur. Hann kom í litlu kirkjuna þar sem við æfðum og lék lag eftir lag á trompetinn í einleik. Ég varð hugfanginn. Og mér varð aftur ljóst að hefði ég einhverja hæfileika þá lægju þeir ekki á tónlistarsviðinu.

Það urðu mömmu auðvitað mikil vonbrigði að ég skyldi hætta sem tenórhornleikari. Þá var komið að þriðja og síðasta leik hennar, það var að koma mér í 24-MA-félaga. Þar var ég í einn vetur, en setti svo tappann endanlega í tónlistarflöskuna. Það er síðan af móður minni að segja að yngri bróðir minn átti eftir að verða flinkur hljóðfæraleikari, en ég er ekki viss um að það hafi valdið henni þeirri gleði sem að var stefnt.

Þegar ég hafði lokið við þessar hugleiðingar yfir borðum og með þeim sýnt afburða dómgreind um eigin hæfni, sem er lykillinn að því að meta sjálfur minni sitt – og við konan vorum langt komin í máltíðinni – tók við löng þögn. Ég vonaðist eftir að hugleiðingar um Alzheimer hefðu vikið úr huga hennar. Auðvitað er ég ekki með alzheimer þótt ég sé utan við mig í verslunum.

Svo sagði hún eins og upp úr eins manns hljóði:

-Sítrónusafinn í sósunni gerir gæfumuninn.

Mér var létt, þetta var afstaðið, um andrýmið sveif ekki lengur grunsemd um dvínandi minni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *