Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.
—–
Dómur Hæstaréttar setur eldri borgara á byrjunarreit og 2-3 ár hafa farið í vafasama baráttu. Forystumenn þeirra þurfa að gaumgæfa næstu skref vel.
Grái herinn vildi, á grundvelli stjórnarskrárákvæða, hnekkja ákvörðunum Alþingis um skerðingar ellilífeyris frá ríkinu. Krafa hersins gekk efnislega út á að allar skerðingar vegna tekna frá lífeyrissjóðum féllu niður þannig að allir fengju hámarksgreiðslur. Vísað var til réttmætra væntinga frá árinu 1969, um að greiðslur úr lífeyriskerfinu sem þá var stofnað til skertu ekki ellilífeyri. Þá var ellilífeyrir um 140 þús./mán. framreiknað og í aðalatriðum fengu allir jafnt og hefði krafan átt að snúast um þá upphæð. Hámarksgreiðslur nú eru 359 eða 286 þús. eftir sambúðarformi þannig að krafan um hámarksgreiðslur er órökrétt, hún er alltof há. Þess var krafist að greiðslur yrðu aftur í tímann frá 1. mars 2017 þegar núgildandi skerðingar tóku gildi og að jafnaðar væri gætt varðandi frítekjumark.
Jákvæð mismunun
Það sem hefur gerst frá 1969, og gerðist raunar strax árið 1974, var að ríkið tók upp jákvæða mismunum hvað varðar ellilífeyri sem þýðir að fjárveitingu Alþingis var skipt ójafnt og fengu þeir sem höfðu litlar tekjur meira frá ríkinu en áður en þeir sem höfðu meiri tekjur, t.d. úr lífeyrissjóðum, fengu minna. Leið jákvæðrar mismununar var nánast gengin til enda með nýjum lögum um almannatryggingar 2016, sem í dag tryggja þeim sem búa einir tæplega lágmarkslaun á vinnumarkaði, ellilífeyririnn lækkar með hækkandi tekjum og fellur niður við 660 þús. kr. tekjur.
Krafa Gráa hersins snýst „de facto“ um að hverfa frá jákvæðri mismunun til jafnra greiðslna til allra, þ.e. að horfið verði til kerfisins frá 1969.
Fjárveitingavaldið
Áður en lengra er haldið skal minnt á að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi. Nú er um 80 milljörðum varið í ellilífeyri og þótt flestir telji það of lága upphæð, þá er henni ekki óréttlátlega skipt. Ef Hæstiréttur dæmir að lög frá Alþingi brjóti í bága við stjórnarskrá þarf það að breyta þeim og þá yrði Alþingi væntanlega að hverfa frá jákvæðri mismunun og skipta fjárveitingunni jafnt. Minnt skal á að Alþingi er bundið af fjármálalegum forsendum í ríkisrekstrinum.
Dómur Hæstaréttar
Skemmst er frá því að segja að Hæstiréttur hafnaði kröfum Gráa hersins á þremur forsendum: Í fyrsta lagi að ekki væri um eignarréttindi að ræða, í öðru lagi að ríkið bryti ekki stjórnarskrárskyldur sínar um framfærslu fólks vegna elli og í þriðja lagi að jafnræðisregla stjórnarskrár væri ekki brotin t.d. með mismunandi frítekjumarki eftir því hvort tekjur kæmu frá lífeyrissjóði eða af atvinnu. Hins vegar taldi Hæstiréttur að krafan um greiðslur aftur í tímann ætti sér lagastoð, en á það reyndi ekki.
Hvað ef Grái herinn hefði unnið?
Ef Hæstiréttur hefði fallist á kröfur Gráa hersins hefði tvennt breyst:
Annars vegar hefði Alþingi orðið samkvæmt dómi að skipta jafnt þeim um 80 milljörðum sem það ver til ellilífeyris, og fengi þá hver og einn 67 ára og eldri 128 þús. (já, meðalgreiðslan hefur lækkað frá 1969). Þetta myndi þýða að allir sem hafa minni lífeyrissjóðstekjur en 430 þús. (einbúar) eða 377 þús. (sambúðarfólk) fengju minna frá ríkinu en áður, en þeir sem eru tekjuhærri fengju meira. Þannig myndi stærsti hópur eldri borgara fá minna en áður – það er sá stóri hópur sem þarf mest á greiðslum að halda og á lítil réttindi í lífeyrissjóðum (og ellilífeyririnn til þeirra fátækustu lækkaði mest). Þetta eru listamenn, bændur og aðrir sjálfstætt starfandi og svo stóru láglaunastéttirnar s.s. kennarar, verslunarfólk og hjúkrunarfræðingar. Nokkur þúsund manns fengju meira en áður (byggt á reiknivél TR og tölfræðigögnum skattsins frá 2020).
Hins vegar þyrfti ríkið að greiða þeim sem voru með skerðingar eingreiðslu afturvirkt frá 1. mars 2017. Þeir sem eru með 0-25 þús. kr. í tekjur fengju ekkert, en frá 25 þús. kr. markinu hækkaði greiðslan með hækkuðum tekjum og það fólk sem hefur nú 660 þús. kr. eða meira fengi um 25 milljónir í eingreiðslu fyrir skatt. Þeim hópi tilheyra fyrrverandi æðstu menn ríkisins og aðrir eldri borgarar sem njóta góðra lífeyrisgreiðslna úr lífeyrissjóðum og standa best fjárhagslega.
Eingreiðslan myndi kosta ríkið mörg hundruð milljarða eða nálægt tífalt það sem skuld þess vegna ÍL-sjóðsins stendur í nú. Efast má um að félagar í Gráa hernum hafi gert sér grein fyrir af hvaða stærðargráðu krafan var og hversu siðlaus hún er, því mestur hluti hennar rennur til hátekjufólks. Sambærileg krafa hefur væntanlega aldrei fallið á ríkissjóð.
Forsendur félagslegs stuðnings
Ekkert réttlæti væri í því ef slíkur dómur hefði gengið, það hefði verið stórslys fyrir eldri borgara og sett allar forsendur almannatrygginga í uppnám. En Hæstiréttur getur ekki og gat ekki dæmt jákvæða mismunun ólöglega, hún er grundvallarregla í öllum félagsmálakerfum í Evrópu.
Jákvæð mismunun felur alltaf í sér skerðingar, jafn í vaxtabótum, námslánum og atvinnuleysisbótum, og væri fráhvarf frá velferðarsamfélaginu að hafna skerðingum sem slíkum en eðlilegt að berjast fyrir sanngjarnri beitingu þeirra og sanngjörnum almannatryggingum yfirleitt.
Lokaorð
Nú er komið að því að forystumenn eldri borgara hugsi sig um. Þeir þurfa að muna að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi og dómskerfið getur ekki rétt þeim ný kerfi og háar mánaðargreiðslur og breytt forsendum félagsmálakerfa. Þeir þurfa að tala við stjórnmálaflokkana um það.
Þetta mál snýst nefnilega öðrum þræði um hlutverkaskiptingu valdþátta ríkisins.