Facebook-færsla.
Við áttum von á því – og Kári Stefánsson hafði raunar sagt okkur að svo yrði – að dauða hans og brotthvarf frá ÍE/DeCode/Amgen bæri að á sama tíma. Nú hefur það ekki gengið eftir – sem hefur áhrif á uppgjör íslenska samfélagsins við þá starfsemi sem Kári hefur leitt.
Þessi aðskilnaður brotthvarfsins og dauðans getur bæði auðveldað rannsókn á starfseminni og gert hana erfiðari. Ef Kári snýst á einhvern hátt gegn Amgen gæti hann auðveldað rannsókn og lagt öll spilin á borðið, en ef hann er trúr starfseminni gæti hann orðið erfiður, því þótt hann geti ekki lengur notað sjóði ÍE/DeCode/Amgen til málaferla gagnvart þeim sem honum mislíkar við, þá hefur hann sterka stöðu (ekki síst hjá fjölmiðlum og órólegu deildinni í samfélaginu) sem fremsti vísindamaður þjóðarinnar fyrr og síðar.
ÍE/DeCode/Amgen hefur gengið nær þjóðinni en allir aðrir, að upplýsingatæknifyrirtækjunum meðtöldum. Svo langt hefur það gengið að Landspítalinn hefur leitað leyfis hjá inniliggjandi sjúklingum til að lífsýni þeirra verði færð ÍE/DeCode/Amgen til varðveislu og framtíðar rannsóknar. Ýmsum kann að þykja það langt til seilst hjá ríkisspítala gagnvart amerískum auðhring. Þetta dæmi eitt og sér sýnir ef til vill betur en margt annað stöðu ÍE/DeCode/Amgen gagnvart íslenska ríkinu.
Rannsaka þarf alla anga starfsemi ÍE/DeCode/Amgen, en fyrirtækið hefur verið inni á gafli hjá heilbrigðisráðuneytinu, hjá Landlækni og sjúkrastofnunum (sleppum því að ræða um áhrif Kára á viðbrögð ríkisins gagnvart Kóvíð, en Amgen vann með Pfizer að bóluefnagerð, eða áhuga hans á að útiloka óbólusetta frá samfélaginu), auk þess að vera sennilega stærsti viðskiptavinur vísindasiðanefndar og Persónuverndar. Sjálfsagt hefur fyrirtækið komið víðar við.
Kári hefur m.a. styrkt Sósíalistaflokkinn og því hafa vanstilltir í þjóðfélaginu látið starfsemi hans í friði – og hefði Þorsteinn Már átt að læra almannatengsl hjá Kára. Ef stórútgerðin hefði bara styrkt Sósíalistaflokkinn, væri umræðan öðru vísi.