Dómgreindarleysi (vanhæfi) í Seðlabankanum

Rannsókn starfsmanna Seðlabankans á mögulegum hagsmunaárekstrum Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, vegna starfsemi fjárfestingasjóðsins Spaks, sem eiginkona hans veitir forstöðu og á fjármuni í, er markleysa. Um þetta mál var fjallað í nýjasta eintaki Heimildarinnar frá 12. september 2025.

Ástæðan er sú að starfsmennirnir hafa ekki hæfi til að vinna rannsóknina. Hæfisreglur stjórnsýslunnar kveða meðal annars á um „undirmannareglu“, sem segir að sé yfirmaður vanhæfur til verks, þá séu undirmenn það líka. Reglan gildir innan stofnana en ekki milli stofnana. Þannig er niðurstaða starfsmannanna lögleysa og markleysa, eins og áður er nefnt. Hlutaðeigandi aðilar geta væntanlega kært niðurstöðu starfsmannanna og látið ógilda hana.

Þá erum við komin að enn verra máli sem er að samkvæmt sömu undirmannareglu eru starfsmenn fjármálaeftirlitsins vanhæfir til að hafa eftirlit með starfsemi Spaks og taka ákvarðanir og veita ábendingar sem varða sjóðinn. Það er sem sagt líka kæranlegt lögbrot og allt eftirlit bankans með sjóðnum ógildanlegt.

Enda þótt starfsmenn fjármálaeftirlitsins hafi sérþekkingu til eftirlits með fjármálastofnunum þá mega þeir í mesta lagi afla gagna og upplýsinga frá Spak – upplýsinga sem þá yrðu lagðar fyrir ytri aðila sem tæki ákvarðanir sem vörðuðu sjóðinn og gæfi honum eftir atvikum ábendingar eða veitti áminningar. Það þyrfti allt að eiga sér stað utan seilingar seðlabankastjóra.

Einhvern veginn hefur Seðlabankinn fengið þá ráðgjöf að seðlabankastjóri sé vanhæfur ef mál sem varða Spak verða kærð, en ekki annars. Þetta skil ég ekki því mér vitanlega kæmi slík kæra ekki inn á hans borð, heldur til forsætisráðuneytisins – og allt eftirlit innan bankans með Spak er að mínum dómi gert í hans nafni sem stjórnvalds.

Hér er um alvarlegt mál að ræða því þegar kemur að hæfi kveikja fjármál og náin sambönd á öllum viðvörunarljósum umfram aðrar aðstæður; bæði sitt í hvoru lagi og sérstaklega ef þessi hugtök eiga bæði við.

Óhætt er að fullyrða að málin beri vott um svo rýra dómgreind að ekki verði við hana búið í mikilvægustu stofnunum ríkisins. Manni dettur strax í hug hugtakið að víkja.

[Ef upp kæmi spurningin um hver ætti að standa í stafni varðandi rannsókn á hagsmunatengslum seðlabankastjóra – þá er ekki augljóst hver það ætti að vera, en alla vega utanaðkomandi aðili. Varðandi eftirlit fjármálaeftirlitsins þyrfti utanaðkomandi staðgengil seðlabankastjóra og allra yfirmanna milli hans og eftirlitsins. Þannig gætu þeir ekki séð þau gögn og ábendingar sem fjármálaeftirlitið veitti sjóðnum, starfsfólk eftirlitsins þyrfti að geta treyst því – og það lyti ekki agavaldi þeirra í eftirlitinu. Í rauninni yrði þetta illframkvæmanlegt og kostnaðarsamt.]

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation