Dómkirkjan í Kísildalnum

Facebook-færsla.

Ég er að skoða áhrif tækni-risanna (líka kallaðir tækni-auðvaldið, enda um ríkustu menn í heiminum að ræða) á Bandaríkin – áhrif sem takast nú á við evrópska hugmyndafræði – og skal aðeins segja frá helsta hugmyndafræðingi þeirra, Curtis Yarvin. Þótt aðrir séu kallaðir, þá virðist Yarvin útvalinn. Margir segja að hann sé brjálaður, en það tel ég alrangt – hann er lógískur og hefur góða ályktanahæfni innan eigin hugsanaramma. Hugmyndafræðin er annars lítilfjörleg og sundurlaus (eins og var með nasismann/fasismann í Evrópu á fjórða áratug síðustu aldar) og undirliggjandi virðast vera óskir tækni-auðvaldsins um að ráða fyrir Bandaríkjunum (BNA).

Það er kannski ekki alveg ný hugmynd, eldri uppfinningamenn og frumkvöðlar urðu voldugir, nefna má Ford og Disney, og saga BNA geymir fjölda stórmenna í vísindum og listum – sem réðu því sem þeir vildu. Og það gefur hugsunina um drauma stjórnarformið – sem er fyrirtækið (eða herinn).

En núna nennir Gamma-gengið ekki lengur (Googla, Apple, Meta (Facebook og fl.), Miocrosoft og Amazon) að stunda lobbíisma fyrir utan þingsali og vill bein og milliliðalaus völd.

Það er áberandi hjá Yarvin að hann talar lítið um að laga núverandi stjórnkerfi – hann ætlar að fella það. Þannig ætlar hann sér ekki að laga með niðurskurði gallana innan núverandi kerfis, t.d. fámennisstjórn, skrifræði, skort á þjóðaröryggi, litla skilvirkni og annað, sem hann sjálfur nefnir – sem virðist þó verkefni Musk og DOGE.

Hugmyndafræðingurinn Yarvin segir að „dómkirkjan“, eins og hann skilgreinir háskólana og fjölmiðlana, ráði ferðinni og þrói allar hugmyndir um breytingar – góðar eða slæmar. Dómkirkjan er væntanlega það afl sem hindrar Gamma að ná fram í þinginu og stjórnsýslunni því sem það vill. Hann lagði fram grunn-hugmyndafræði sína í löngum blogg-pisli 21. mars 2021, sem heitir „A brief explanation of the cathedral“. Bloggsíðan hans heitir Gray Mirror á vefsetrinu substack.com. Ég geri grein fyrir því helsta í því bloggi hér á eftir, en byrja á greiningu hans á verkum ríkisstjórnar Trump 47 (sem þýðir að Trump er nú 47-undi forseti BNA, meðan hann var Trump 45 á kjörtímabilinu 2017-2021).

—–

Nýjasti pistillinn heitir „Barbarians and mandarins“ (Villimenn og leiðtogar) og er frá 6. mars 2025. Þar er gengið út frá því að Trump-stjórnin sé að fremja gagnbyltingu og spurning Yarvin er: Hvernig gengur? Svar hans er „Þótt árangurinn sé mikið minni en möguleikarnir bjóða upp á – hefur [ríkisstjórninni] að minnsta kosti ekki mistekist. Sem er satt að segja ótrúlegt.“

Hins vegar spáir hann að Trump-stjórninni mistakist því „þótt hún eigi möguleika á að vinna og hafi styrkleika til þess, þá virðist hún hvorki hafa vilja né skilning til þess að vinna.“

Hann nefnir fyrst að framkvæmdarvaldið eigi að stýra ríkinu og að innri gerð ríkisins sé ekki treystandi. Þess vegna þurfi toppurinn á framkvæmdarvaldinu að „hakka“ kerfin – sem gæti þýtt að brjótast inn í þau þannig að þau vinni ekki eins og varðmenn djúpríkisins vilja.

Hvað þetta er afdráttarlaus gagnbyltingarhugmynd er ekki gott að segja.

Þá komum við að aðalatriði málsins sem er að „vald eykur vald“ að hans mati. „Því meira valdi sem þú beitir því meira vald hefur þú“. Því segir Yarvin að ríkisstjórnin þurfi að herða þumalskrúfuna því vald standi ekki í stað – annað hvort minnki vald hennar eða aukist. Valdbeitingunguna í janúar og febrúar verður að auka í mars og apríl – vegna þess að vald ríkisstjórnarinnar núna er of mikið til að vera sjálfbært, en of lítið til að sigra.

Yarvin skiptir ríkisstjórninni í tvo hópa. Villimennirnir koma úr einkageiranum, en leiðtogarnir koma úr stjórnsýslunni. Reynsla þessara hópa skarast lítið, segir hann. Hann segir báða hópana seinþroska – og ef það er rétt skilið hjá mér er hann að tala um að þeir læri báðir hægt – og hann segir að mögulega sé ekkert hægt að gera í því. Villimenn segir hann að viti ekki hvernig eigi að stjórna, vilji ekki stjórna en vilji aðeins laga kerfið. Leiðtogarnir vilja hins vegar stjórna, kunni að stjórna en vilji ekki endilega breyta kerfinu. Báðir hóparnir eru of nálægt kerfinu til að sjá að „ógerlegt er að laga það“.

Yarvin hefur miklar áhyggjur af því að hvorugur hópurinn vilji í rauninni eyðileggja gamla stjórnkerfið. Þeir vilji bara gera það skilvirkt. Engin strategía um niðurrif og endurbyggingu sé til staðar. Og hann segir þá alla langa til að hygla vinum sínum og frændum. Og ekkert breytist! Líklegast sé að kerfin skemmist tímabundið, en lagist síðan og læri að standa árásina af sér.

Síðan leggur hann til að meira fé sé varið til að gera völd „the liberalists“ að engu. Enda þótt hann sé almennt á niðurskurðarlínunni og sérstaklega þegar kemur að utanríkismálum. Þar segir hann að niðurskurður auki skilvirkni.

Hann leggur líka áherslu á að gerbreyta þurfi menntakerfinu, allt frá barnaskólum og uppúr – það gerist ekkert af sjálfu sér þótt fjárveitingar til kerfisins séu skornar niður. Það þarf að „ríbúta“ kerfinu.

Í lok bloggsins gengur hann svolítið amok og er ergilegur. Hann segir að lýðræði sé ekki raunverulegt og að villimennirnir skilji ekki hlutverk sitt.

—–

Hugmyndafræðilegi pistillinn „A brief explanation of the cathedral“ frá 2021 segir frá tveimur ríkjum, annars vegar alræðisríki að austurlenskum hætti þar sem íbúar eru þrautkúgaðir og hafa ekkert frelsi (en nóg er af fangelsum) – og hins vegar nútímaríki – sem hann kallar skrifræði, djúpríki eða fámennisstjórn, það er ríkið með dómkirkjunni. Megin muninn á hvernig hugmyndir verða leiðandi í þjóðfélögunum segir hann að í alræðisríki verða bara bestu hugmyndirnar ofaná – af því að stjórnvöld kúga og pína hugsuði og með því sigtast aðeins það besta út – en í skrifræðisríki verða hugmyndir dómkirkjunnar ofaná og hún hefur engan gagnrýnanda. Þess vegna afvegaleiðist hún og vondar hugmyndir verða leiðandi og þjóðfélagið keyrir ofan í skurð.

Hann hefur í kringum þetta svolitlar kenningar, t.d. um vald, hvaðan það kemur og hvert það fer – og þær kenningar eru leikmannslegar (enda vald eitt erfiðasta hugtak stjórnmálafræði og siðfræði).

Nú er þetta einföldun á því sem hann segir og ekkert bendir til þess að Yarvin vilji alræði eins og við höfum séð það í Austurlöndum og nasista/kommúnista/fasistaríkjum – heldur talar hann beinlínis um stjórnarhætti (stór)fyrirtækja og nefnir líka herinn. Í báðum tilvikum koma skipanir ofanfrá og almenningur hlýðir – ábyrgðin hvílir á toppnum. Hann segir lýðræði bæði ómótstæðilegt, en óstöðugt.

Yarvin segir að skrifræðisríkinu verði ekki við bjargað. Það hefur verið túlkað sem vilji frá hans hálfu til byltingar – og þá gagnbyltingar því annars staðar segir hann að slíkt ríki sé „kommúnískt“.

Hann sér framtíðina þannig fyrir sér að í báðum ríkjum – alræðinu og skrifræðinu – verði gerðar byltingar. Í alræðisríkinu taki lýðræði við – sem velji sér einvald, en við stjórnvölinn í ríkinu verði besta fólk þess – þeir sem áður voru kúgaðir og þrá lýðræði og frelsi mest. Alræðið hafi þannig leitt af sér náttúruval. Af þessu leiðir að nýja ríkið á grunni alræðisins – sem nú er orðið lýðræði og einveldi með upplýstri stjórn – verður farsælt.

Skrifræðisríkið þjáist hins vegar af getulausri elítu sem leggur áherslu á að leiða til áhrifa ákveðna kynþætti (sem hann virðist álíta mjög misverðuga) og sýna mildi gagnvart glæpum (lakari kynþáttanna) og segir hann að almenningur muni af þessum sökum – og vegna algers getuleysis stjórnvalda elítunnar til að leysa úrlausnarefni ríkisins – fella stjórnina. Hins vegar hafi skrifræðisríkið í sínum röðum fólk sem geti tekið við, mjög hæft fólk. Það kemur frá „einkageiranum“ þar sem einveldisframkvæmdin hefur verið ydduð og þrautreynd (sem sagt, við stjórnun stórfyrirtækja).

Byltingaröflin munu líka koma á lýðræði í skrifræðisríkinu – sem velur sér einvald. Einvaldurinn verður valinn af einkageiranum og er úr hans röðum; einstaklingur sem hefur að minnsta kosti leitt tvö stórfyrirtæki sem staðið hafa fyrir grundvallarbreytingum á samfélaginu. Embættismenn nýja ríkisins verða fyrrverandi starfsmenn tæknirisa.

„[Nýja ríkið] verður glitrandi paradís þar sem allir fá leikföng og þægindi sem þeir eiga skilið og það raunverulega innihaldsríka starf sem hæfir hæfileikum þeirra. Og enginn – enginn – verður heltekinn af kynþætti.“

—–

Nú segir lítið í þessum kenningum um velferðarríki – en ætla má að það sé allt einkavætt, en til staðar því tæknirisar þurfa vel menntað og hraust starfsfólk. Þá er athyglisvert að lýðræðisfyrirkomulag muni velja sér einvald. Í nýjasta pislinum hafnar hann þó lýðræði sem raunverulegum valkosti. Ekki kemur fram hvað einvaldurinn situr lengi eða nánar hvernig val hans fer fram. Almennt hefur Yarvin ekki áhuga á mannréttindum og valddreifingu, helstu einkennum vestræns lýðræðis.

Eins og sjá má er þessi hugmyndafræði ekki í takti við skólabækur, ekki einu sinni í barnaskóla, ekki í samræmi við kenningar í sagnfræði og heimspeki, hvað þá stjórnmálafræði. En Yarvin er leiðandi hugsuður Trump 47 ríkisstjórnarinnar og var heiðursgestur í Hvíta húsinu fyrir rúmum mánuði.

Hversu hættulegur Yarvin er og hversu hættulegar hugmyndir hans eru fer auðvitað eftir því hvort tekið er mark á þeim eða ekki. Ég held eins og hann að bandaríska stjórnkerfið standi árásir Trump-stjórnarinnar af sér. Í lýðræðinu eru svo margir varnaglar sem tryggja valddreifingu. Eitt kerfi tekur við af öðru sem varnargarður lýðræðisins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation