Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.
Þar sem málþóf er komið til umræðu skulum við athuga hvernig þau mál hafa þróast á Alþingi. Ég fékk upplýsingar úr gagnagrunni Alþingis fyrir árin 2014-2024 – síðustu 10 ár. Þá hef ég aðeins flett vef danska þingsins til að fá lágmarks samanburð. Fyrir liggur fræðigrein mín í vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla frá 2016 um málþóf á árunum 1991-2015.
Áður en lengra er haldið er rétt að minna á að enginn einhlítur mælikvarði er til á málþóf. Starfsfólk skrifstofu Alþingis getur ekki merkt ákveðnar ræður sem málþóf, oftast er einhver efnispunktur í þeim. Málþóf getur átt sér stað í öllum dagskrárliðum, oft er bara verið að hægja á þingstörfunum. En algengast er að það eigi sér stað með stuttum andsvörum, (að hámarki ein eða tvær mín.), fjölda ræðna við aðra umræðu (mega mest vera fimm mín.) og síðan hinum sívinsælu athugasemdum um fundarstjórn forseta. Því þarf að líta á fleiri tölur saman sem geta gefið ákveðna mynd af því hversu langdregnar umræður eru og hvort stutt andsvör hafa verið notuð. Oft er einfaldlega miðað við heildarræðutíma þinga.
Staðan
Á þessum 10 árum (2014-2024) breytast tölurnar sem nota má ekki mjög mikið, en þróast þó greinilega í ákveðna átt. Meðal heildarræðutími þingfunda á ári var 444 klst. Hann var að meðaltali 549 klst. á árunum 1991-2015. Ræðutíminn milli tímabilanna hefur þannig styst um 23% eða nálægt 2,5 vinnuvikur á ári miðað við 8 tíma vinnudag.
Heildarræðutími innan áranna 1991-2015 styttist um meira en 4% og 2014-2025 styttist hann um nálægt 7,5% miðað við tilhneigingarlínu. Út frá þessum tölum má álykta að málþóf hafi dregist saman með vaxandi hraða allt frá 1991.
Ef við lítum á þingárið 2023-2024 sérstaklega var heildarræðutíminn 432 klst. Til samanburðar má nefna að í danska þinginu var nokkuð sambærileg tala 571 klst. fyrir sama þingár. Danska þingið afgreiddi 197 lög á þingárinu, en Alþingi 112. Danirnir hafa því ennþá vinninginn varðandi skilvirkni. Á árunum 1991-2015 var heildarræðutími á Alþingi að meðaltali 43% meiri en í danska og norska þinginu. Það hlutfall hefur augljóslega lækkað nokkuð, er samkvæmt þessum tölum 32%. En ekki má alhæfa út frá einni mælingu.
Lengd ræðna
Árið 2015 var lengd meðalræðu um frumvörp sem urðu að lögum komin niður í um 3 mín. og hafði farið úr um 6 mín. árið 1991 sem skýrist með því að stutt andsvör urðu meginform málþófs eftir 2007, en langar ræður höfðu verið það áður. Þessi þróun hefur gengið til baka, meðalræðan hefur lengst, hún var að meðaltali 3,3 mínútur árin 2014-2024 – fór á tímabilinu frá um 3 mín. í upphafi þess í 3,5 mín. í lok þess. Þetta þýðir að andsvörum hefur fækkað og væntanlega hefur undirbúnum ræðum fjölgað. Auk heildarræðutímans bendir þetta líka til þess að málþóf hafi verið á undanhaldi síðustu 10 árin.
Tilhneiging í gögnunum
Eins og áður segir hefur heildarræðutími dregist saman síðustu 10, farið frá tæplega 500 klst. í nálægt 430. Það hefur gerst á sama tíma og frumvörpum sem verða að lögum hefur heldur fjölgað; farið frá því að vera tæplega 100 í að verða nálægt 110. Á sama tíma hefur hlutfall þess tíma í þingsal sem fer í umræður um frumvörp sem verða að lögum af heildarfundartíma lækkað úr um 60% niður í um 50%. Að öllu þessu athuguðu er ljóst að umræður um frumvörp hafa styst á síðustu 10 árum og skilvirkni við lagagerð (samþykkt lög pr. tímaeiningu) aukist. Skilvirkni er enn einn mælikvarðinn á málþóf – sem sýnir líka að málþóf hefur verið á niðurleið.
Ályktun
Ólíklegt er að málþófi verði hætt á Alþingi. Það er vandamál í öllum þjóðþingum, sem þau taka á með misjöfnum hætti og ná misjöfnum árangri. Alþingi er þekkt fyrir að taka á málþófi með vettlingatökum og ná litlum árangri – þó það hafi breyst – og álykta má að meirihluti þess mætti og ætti að taka upp málsmeðferðarreglur þeirra nágrannaþjóðþinga sem ná bestum árangri. Sérstaklega er mikilvægt að takmarka eða banna andsvör – en snjallt andsvar getur fellt vel undirbúna ræðu. Enda þótt slíkt geti verið skemmtilegt er það oftast ekki málefnalegt, gagnast ekki umræðunni og rökstyðja má að það geti verið bæði óheiðarlegt og ódrengilegt. Hins vegar er það neyðarúrræði að grípa til ákvæðis í þingsköpum sem heimilar meirihlutanum að stöðva umræður um mál.
Álykta má að málþóf á Alþingi hafi minnkað mikið á síðustu árum. Það minnkaði á árunum 1991-2015, en hefur minnkað enn hraðar síðan þá. Ef miðað er við þessa einu heildarræðutímatölu frá danska þinginu þá er enn svigrúm til bætingar. Almennt er álitið að lítið sé um málþóf í danska þinginu. Þróunin á Alþingi er ánægjuefni og kannski undrunarefni fyrir suma.