Ein að norðan

Facebook-færsla.

Aðalsteinn Sigurðsson, mannkynssögukennari við MA, var hljóðlátur ágætismaður. Hann sat framan á kennaraborðinu, svolítið álútur og hallaði í austur – og talaði við okkur eins og við værum börn. Sem við vorum en vissum hins vegar ekki af því. Aðalsteinn talaði lágum rómi, eins og þeir kennarar gera sem vilja hafa hljóð hjá sér – hjá slíkum kennurum er ekki hægt að pískra. Hann var ekki endilega eins og allir aðrir í útliti, svolítið langleitur og skarpleitur og krítargrár með framstæða tanngarða. Af honum er aðallega sögð ein saga – sem ég ætla að sleppa, en segja aðra, sem gerðist eftir að hann var hættur kennslu.

Sonur Aðalsteins, Sigurður Aðalsteinsson, var dugmikill flugmaður og rak þegar þetta var flugvél eða flugvélar á Akureyrarflugvelli. Hann fékk föður sinn – þá kominn á eftirlaun og vissi sennilega ekki hvernig hann ætti að drepa tímann – til að erindast fyrir sig og flugfélagið. Einhverju sinni kom Aðalsteinn í flugturninn með flugáætlun fyrir vél á vegum Sigurðar.

Hann gekk hægt inn línóleumdúkinn, að afgreiðsluborðinu og lagði pappírana á borðið. Á veggnum gengt honum var mynd af sitjandi konu í fatnaði sem seinna var kallaður bikíní. Sólin skein frá suðaustri inn um gluggann, þetta var fyrir hádegi. Aðalsteinn beið, enda átti hann ekki erfitt með það. Að borðinu kom að lokum afgreiðslumaðurinn, ungur maður af þeirri gerð sem klæðir sig eins og fimmtugur forstjóri umboðsfyrirtækis. Hann virti fyrir sér pappírana og sagði svo heldur snúðugt.

-Þú komst með þessa sömu áætlun fyrir hálftíma.

Svo horfði hann með yfirlæti á Aðalstein, eins og svona menn gera fyrir norðan – og gat ekki stillt sig um að bæta við.

-Ertu orðinn kalkaður?

Aðalsteinn sneri sér við og leit rólegur út um gluggann sem sneri að flugbrautinni – og leirurnar og gömlu eyjafjarðarbrýrnar blöstu við – sneri sér svo aftur í hálfhring, hvessti sjónir á afgreiðslumanninn og sagði.

-Ég hef gleymt meiru en þú munt nokkru sinni muna!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation