Embættisverk

Nú gæti maður haldið að illgjarnir og enn frekar hugsunarlausir myndu hlægja þegar bíll rennur niður frá bílastæði og fram af bjargi. Þegar hann fer fram af efstu brúninni fellur hann niður að framan, vegur salt örlitla stund og sú hugsun vaknar að nú muni hann sitja á kviðnum og alls ekki fara lengra, hann vegi salt á brúninni en gæti samt þá og þegar farið fram af, það þyrfti að fara varlega í að snerta hann.

En það er borin von, aldrei leikur vafi á því hvað gerist næst, vélin er þyngsti hluti bílsins, eftir hikið fellur hann hægt fram, framhlutinn veit niður, en þakið hallar fram yfir sig. Það líður svolítil stund, svo heyrir maður dynkina, fyrst þegar bíllinn lendir á grillinu og síðan þegar toppurinn skellur á stórgrýtinu. Þá líður góð stund, töluvert lengri en áður og áhorfandinn færir sig nær brúninni, en honum bregður ekki illa fyrr en sprengingin verður og í framhaldinu leggur svartan reyk upp fyrir bjargið í norð-vestanáttinni.

En hafi áhorfandinn haft gaman af, það hafi eins og hríslast um hann fögnuður vegna hins óvænta atburðar, hér í fásinninu gerist ekki margt, hann vissi að þetta var aðkomubíll, þá vék gleðin til hliðar þegar ung kona kom hlaupandi frá Höfðaböðunum og hrópaði stöðugt upp yfir sig:

-Barnið mitt, barnið mitt!

Við það breyttist allt.

Það leit ekki vel út fyrir bæjarstjóranum í Höfðavík. Í morgun hafði konan, kærastan, eða fyrrverandi unnusta hans, hvað vissi hann, hringt og sagst enn einu sinni vera að velta fyrir sér að slíta sambandinu við hann. Hann hafði ekki hugsað sér að fara frá henni, þótt þau byggju í sitt hvorum landshlutanum, hún var dóttir ritara Flokksins og með hana við hlið sér var bæjarstjórinn innan hrings hjá Flokknum og væri umtalsefni slúðurfrétta. Hann var ekki alveg frá því að tilkoma starfs hans ætti sér sömu ástæður. Sem skaðaminnkun yrði hann að láta hana taka ákvörðun um sambandsslit, það gæti komið honum í koll að bregðast hart við og segja henni sjálfur upp.

Hann ætlaði sér samt að víkja úr þessu embætti, helst á miðju kjörtímabili, honum leið alls ekki vel fyrir norðan og hann þyrfti stuðning Flokksins til að fá góða stöðu fyrir sunnan, þar sem samkeppnin var hörð. Skilnaðurinn yrði að vera í sátt og aðallega þyrfti hún að bera honum vel söguna. Hann þyrfti síðan að endurnýja kynnin af þeim fáu fréttamönnum sem hann þekkti til að fá auglýsingu sem eftirsóttur piparsveinn. Og velja aftur af kostgæfni. Ást og frami er góð blanda. Ef til þess kæmi að hann sækti sér nýja kærustu yrði hann að sitja stöðu, kannski þyrfti hann að sitja sem bæjarstjóri eitthvað áfram, það var góður stökkpallur til ýmislegs, nú, eða aðra eftirsótta stöðu.

Svo er það þessi hátíð á morgun, Nammidagar, sem aldrei skyldi verið hafa, af hverju borða Höfðavíkingar sælgæti fram yfir aðra? Hann þyrfti að setja hátíðina og gera tvo að heiðursborgurum í bænum, báða karlmenn, það var nú aldeilis ekki tímanna tákn, en bæjarstjórnin tók ákvörðunina, ekki hann. Auðvitað vissi hann samt hver þyrfti að svara fyrir málið í fjölmiðlum, þegar og ef atburðir vetrarins yrðu altalaðir utan bæjarfélagsins.

Annar verðandi heiðursborgarinn var gamall trillukarl. Ekki vegna þess að hann skæri sig úr, heldur vegna þess að hann var réttur maður á réttum stað. Hann hafði dólað suður með söndum mest alla ævi sína, sumar eftir sumar, með nestið frá konunni í blikkboxi, með kaffibrúsa og veitt þorsk; farið vestar og veitt ýsu, þennan eina fisk sem borðaður er af heimamönnum, en hann hafði ekki farið á miðin norð-austur af eynni í mynni flóans og sótt sér lúðu, en auðvitað kom fyrir að hún gekk inn eftir. Eins og landbúnaður er ímynd Íslands sem stjórnmálamennirnir virða allir; fyrir hann er borgað óbeint með ríkisstyrkjum og beint með hæsta matvælaverði í heimi, þá er trilluútgerðin ímynd plássins, alla vega í augum eldra fólksins. Þess vegna verður trillukarl heiðursborgari.

Þegar kaupfélagið var stofnað fyrir hundrað og fjörutíu árum urðu einhverjir úr sveitunum að flytja út eftir og þjóna þeim, umframfólkið kom hvaðanæva að, úr innsveitunum og frá úrnesjunum og bar jafn litla virðingu fyrir sjálfu sér og sveitamennirnir fyrir því, það var ömurlegt að vera ekki búandi, og hér þróaðist samfélag sem hafði öll bestu og verstu einkenni sveitanna og eitt afleitt að auki. Um það ríkti þegjandi þögn, og í andrúmslofti samtímans, ærandi þögn.

Bæjarstjórinn í Höfðavík vissi ekki af þessu þegar hann réðist til starfa, en ef eitthvað skelfdi hann var það þetta eina einkenni. Ef það yrði opinskátt þá gæti hann misst mannorðið, ekki eins og aðrir á staðnum, heldur sem fulltrúi staðarins, og þá yrði svo sannarlega úti um allan stuðning við hann fyrir sunnan. Þetta ásótti hann stöðugt, ekki síst ef hann fékk sér koníak eftir kvöldverð, kannski af því að þá slappaði hann af frá erli dagsins – þá fannst honum jörðin færast undan sér og hann gat ekki lengur notið þess almennilega að hvíla sig. Þetta var alltaf að koma til hans.

Nei, það var í lagi með trillukarlinn. Það var hinn. Nú er allt í lagi að vera einfeldningur og á framfæri þjóðfélagsins; að búa hjá móður sinni þótt menn séu fullorðnir; að geta ekki talað við fullorðna eða hlýtt nokkrum manni, þótt einhverjir hefðu lag á því að láta mann vinna viðvik svart; að ekki sé talað um að vera ekki í viðskiptum við tannlækna, heldur var hitt verra, að láta ungar stúlkur ekki í friði. Það var þetta fullorðna barn sem átti að gera að heiðursborgara, mann sem misnotaði þrettán ára stúlku í vetur, frænku ritara bæjarstjórans, stúlku sem var líka minni máttar og bjó ein hjá drykkfelldri móður sinni í bæjarblokk. Ritarinn hélt að stúlkan væri vanfær, svo bæjarstjórinn talaði við prestinn, því stúlkan gekk til spurninga, sem talaði við móðurina sem vonandi sleit sambandinu og presturinn talaði síðan við sjúkrahússlækninn sem heimullega breiddi yfir öll vegsummerki. Það var nógu slæmt að fimmtán og sextán ára strákar og jafnvel fullorðnir karlar væru að leika sér að yngri stúlkum og enginn sagði neitt, en ef þetta kæmist í hámæli, þá tæki steininn úr.

Það var þetta fullorðna barn sem bjargaði smábarni úr fallna bílnum undir Höfðanum. Bæjarstjórnin ákvað að gera það að heiðursborgara, kannski helst til að sýna víðsýni og fordómaleysi gagnvart öryrkjum, það var ekki eitt atkvæði á móti og enginn sat hjá. Bæjarstjórnin var samt nánast aldrei samstíga. Þessi upphefð bjargvættarins byggði mögulega á því að bæjarstjórinn, ritarinn, móðirin, presturinn og læknirinn létu mál stúlkunnar liggja í þagnargildi, hennar vegna, staðarins vegna, alls vegna. En var það raunverulega tilfellið, vissi forseti bæjarráðs af misnotkuninni, kannski öll bæjarstjórnin, kannski allir bæjarbúar, þetta var lítill bær, en ákvað hún að ögra sjónarmiðum samtímans og treysta samstöðunni í bænum? Hversu lengi héldu bæjarbúar það út að þegja bæjareinkennið í hel, myndu allir leika leikinn í það endalausa?

Bæjarstjórinn hafði rætt þetta hættulega einkenni við forseta bæjarráðs, bara einu sinni, og samtalið nánast orðið að rimmu, forseti bæjarráðs hafi nefnilega aldrei heyrt af því og vildi ekki að fólk í stjórnkerfinu færi fram með rógi um bæjarbúa. Þannig slitnaði upp úr trúnaðarsambandi æðstu yfirmanna bæjarins og eftir þetta treysti bæjarstjórinn ekki forseta bæjarstjórnar, fannst jafnvel að hann sæti á svikráðum við sig, en reyndi að forðast ofsóknartilfinningu. Hann var einn með sínar áhyggjur.

Nú höfðu þær tvöfaldast. Myndi það ekki fljótlega komast í hámæli að hann hefði gert kynferðisbrotamann að heiðursborgara. Látum vera að maðurinn vissi ekki sjálfur hvað hann hafði gert, kunni ekki skil á afbrotinu né björgunarafrekinu. En að sjálfur bæjarstjórinn, fulltrúi Flokksins, kærasti einnar af helstu glanspíum landsins, lokaði augunum fyrir misgjörðum gagnvart stúlkum í viðkvæmri stöðu og heiðraði það lágkúrulegasta í fari mannsins, var það ekki of langt gengið?

Bæjarstjórinn var samt öðrum þræði ánægður með sín embættisverk, honum fannst hann hafa leyndardóma stjórnsýslunnar á sínu valdi og hann vera hreyfanlegur við lausn erfiðra mála. Honum var jafnvel farið að finnast að vegir framtíðarinnar ættu að vera honum auðfarnir. En nú lágu tvö heiðursskjöl á borðinu hans og á morgun myndi hann afhenda fullorðna barninu annað þeirra. Hvernig sneri hann sig út úr því?

Ungur vaskur maður hafði brugðist fyrstur við. Hann var niðri við höfnina að dedúa við tuðrubát og höggin tvö fyrir neðan Höfðann hljómuðu, eins og skot úr stórum riffli. Svo sá hann svartan reykinn. Hann keyrði öll sjötíu hestöfl tuðrunnar til hins ýtrasta og var að nokkrum mínútum liðnum kominn undir Höfðann, að stórgrýtinu. Þar gaf að líta þrekvaxinn mann á fertugsaldri standa stöðugan með smábarn í fanginu á svörtum sandi milli steina, nokkra metra frá brennandi bílflakinu, þau voru alsótug og maðurinn hruflaður, það vætlaði blóð úr höfði hans og fötin voru rifin. En ekkert virtist ama að barninu sem horfði rólegt á björgunarmann sinn. Vaski maðurinn þekkti hann strax, hann var stóra bæjarbarnið, barn í líkama fullorðins manns. Vaski maðurinn fann stóran sæbarinn stein skáhallt fyrir framan tvíeykið, lagði að, fór upp á steininn og gekk varlega á þaragrónu stórgrýtinu í átt til þess með stafntauminn í hendinni. Hann sagði bæjarbarninu, sem aldrei þessu vant gerði eins og því var sagt, að skríða á hálum steinunum og rétta sér smábarnið, sem allt gekk vel, svo fikraði hann sig til baka og setti það niður í framenda bátsins, en fór ekki um borð sjálfur fyrr en hann hafði komið hinum fullorðna fyrir á framþóftunni. Hann tók smábarnið með sér aftur að vélarhandfanginu, bakkaði og fór sér hægt í bakaleiðinni.

 Á flotbryggjunni stóð móðirin hágrátandi og kom ásamt öðru aðvífandi fólki fram á bryggjubrúnina þegar hann lagði þar að, og vaski maðurinn rétti henni smábarnið. Einhver hafði hringt á sjúkrabíl og þau voru ekki fyrr komin upp á steinbryggjuna en hann stöðvaði fyrir framan þau eftir ofsaakstur og móðirin, smábarnið, bæjarbarnið og vaski maðurinn fóru með honum upp á sjúkrahúsið. Það tók dálitla stund að lempa bjargvættinn til að fara inn í húsið og það varð að gefa honum róandi áður en hægt var að sauma hann, bæði á hné og enni. Ekki mörg spor og ekki djúp sár. Síðan var bundið um. Ekkert fannst að smábarninu, en móðirin átti að koma því strax til læknis ef bæri á einhverju óvenjulegu næstu klukkutímana. Vaski maðurinn fór síðan með bæjarbarnið, sem ekki var þó farið að treysta honum, til móður sinnar og sagði henni allt af létta af björgunarafreki sonarins og sárum hans. Hann hafði greinilega verið undir Höfðanum þegar bíllinn féll, sótt smábarnið hratt og örugglega í bílinn, til þess hafði hann ekki margar sekúndur, en síðan fallið með barnið þegar sprengingin varð, sennilega með það í fanginu og borið sig fyrir það í fallinu þannig að því varð ekki meint af. Hún myndi sjá um að sárin hefðust vel við.

Sagan barst hratt um bæinn og þótti mörgum undur að svo skillítill maður ynni svo frækið afreksverk.

Hátíðarhöldin fóru fram í Skrúðgarðinum og það var ekki rigning eins og spáð hafði verið, en örlítil súld þannig að gestirnir urðu smáblautir, en ekki gegnblautir. Bæjarstjórinn hélt setningarræðuna hratt og örugglega og á móti honum stóð trillukarlinn í gömlu sparifötunum sínum, hann var alvarlegur, en vissi kannski svolítið af sér, konan var mildileg við hlið hans, þau leiddust og mæðginin voru svo við hlið þeirra; móðirin ljómaði öll, loksins gat hún verið hreykin af syni sínum, en sennilega vissi hann ekki til fulls hvað var að gerast. Hún hafði keypt á hann þrískipt samstæð föt, hjá gamalli klæðskeraverslun inn á Akureyri, en splæsti ekki á sjálfa sig nýjum fötum þótt mikið stæði til.

Bæjarstjórinn var áhyggjufullur þegar hann minntist orða formanns Flokksins, í þetta eina skipti sem þeir höfðu hist, að í opinberu lífi væri mikilvægast að þegja og spila eftir reglunum. Þegar kom að veitingu heiðursborgaraskjalanna hóf hann ræðu um æfi og störf trillukarlsins. Ritarinn hans hafði samið textann og hann lesið hann yfir; fannst reyndar sums staðar full mikið í lagt, það var í sannleika sagt ekki verið að heiðra stórskáld eða andans jöfur. Að upplestrinum loknum kallaði hann trillukarlinn upp, ritarinn rétti honum umslagið, hann tók úr því innrammaða mynd með skjalinu, lyfti henni þannig að allir viðstaddir sæju og afhenti síðan karlinum, sem tók við henni með handarbandi. Þá spurði bæjarstjórinn hann hljóðlega hvort hann vildi ekki segja nokkur orð, það hafði verið talað um það, og trillukarlinn tók samanbrotið blað úr vasanum, gekk keikur bak við hljóðnemann sem bæjarstjórinn lækkaði aðeins og las þakkarávarpið óstyrkum orðum. Svo tókust þeir aftur í hendur og trillukarlinn gekk til baka til konunnar.

Þá var það hitt verkið. Bæjarstjórinn las upp hólræðu ritarans um bæjarbarnið, hún var tiltölulega stutt og kallaði mæðginin síðan upp til sín. Móðirin leiddi það, hún myndi veita skjalinu viðtöku. En þegar til átti að taka greip ritarinn í tómt; skjalið var ekki í íþróttatöskunni sem þau höfðu tekið með sér frá bæjarskrifstofunum, það var sama hvernig hún rótaði, kannski hafði það hreinlega týnst og ritarinn varð svolítið ör og óðamála þegar hún útskýrði stöðuna fyrir bæjarstjóranum. Hann fann léttinn hríslast um sig, útleiðina opnast, hann hafði ekki sterkar tilfinningar til ritarans, en á stuttu augnabliki elskaði hann hana. Þetta embættisverk slyppi hann við. Bæjarstjórinn reyndi að láta ekki á neinu bera, en sagði í hátalarann eins og satt var að sjálft heiðursskjalið hefði orðið eftir á bæjarskrifstofunum og að mæðginin myndu fá það afhent við fyrstu hentugleika. Hann sá hvernig andlitið datt af móðurinni, síðan harðnaði á henni svipurinn og hún gekk snúðugt með soninn til baka, staðnæmdist ekki í röðinni við hlið trillusjómannshjónanna heldur gekk á braut og hálfdró soninn í nýju fötunum. Fyrir sína parta skildi hún hvað klukkan sló, við því var ekkert að gera. Það var því ekki haldin nein þakkarræða fyrir seinna heiðursborgaraskjalið, þannig að athöfninni var hér með lokið.

Bæjarstjóri Höfðavíkur gat ekki stillt sig um að spila fjöruga tónlist meðan hann ók hratt upp veginn til efstu sveitarinnar í héraðinu. Hann ætlaði að fá sér síðdegisverð á fínasta hótelinu upp frá og kannski ganga um Borgirnar ef stytti upp. Jafnvel að fara á útsýnisfjall sveitarinnar, sem var í raun og veru uppáhaldsfjallið hans ef Höfðavíkurfjall var undanskilið. Fjöll með útsýni! Eiginlega var hann ekkert fyrir þessa Nammidaga.

Bæjarstjórinn var ekki mikill hugsjónamaður og þótt hann spilaði með hreyfingum samtímans barðist hann ekki út af fyrir sig fyrir #metoo hugsjónunum. Hann hafði svo sem aldrei verið handgenginn hugsjónum, nema þá frelsi og samkeppni sem voru meira góð hugtök en baráttumál, og hafði aldrei staðið í uppreisnum. Í dag hafði hann hins vegar gert sannkallaða uppreisn og honum leið ekkert illa með það. Auðvitað hafði formaðurinn sagt honum að spila eftir reglunum. En hann var að verja sig, bregðast fyrir fram við aðsteðjandi hættu og ef hann segði kærustunni frá þessu, unnustunni, eða hvaða stöðu sem hún annars hafði í hans lífi núna, þá myndi hún virða hann mikils fyrir góða embættisfærslu. 

Honum kom á óvart hvað hún brást hratt við, hún hringdi strax eftir málsverðinn. Hún hafði frétt að hann hefði neitað að gera öryrkja að heiðursborgara í Höfðavík. Forseti bæjarráðs Höfðavíkur hafði hringt í formann Flokksins og kvartað undan honum, sagst íhuga að víkja honum úr starfi vegna fordóma gagnvart landsbyggðinni, gagnvart öryrkjum, en þó alveg sérstaklega gagnvart Höfðavíkingum, fordómum sem hann hefði opinberað áður. Formaðurinn hafi hringt í flokksritarann, föður hennar, sem hann hélt að væri tengdafaðir bæjarstjórans, en kærastan eða fyrrverandi kærastan sagði í símann að það væri fráleitt, hafði kannski einhvern tímann verið, en væri alla vega ekki lengur. Faðirinn hafði sagt henni allt af létta.

Bæjarstjórinn taldi þetta misskilning, heiðursskjalið yrði afhent eftir helgina, það hafði verið haldin ræða um æfi og störf viðkomandi við hátíðarhöldin, skjalið hafði einfaldlega gleymst, sem gæti alltaf komið fyrir.

Hann velti stöðunni fyrir sér á leiðinni upp á útsýnisfjallið, lét sig hafa það að fara á fjallið þótt það hafði snúist í norðan þræsing og hann væri illa klæddur. Honum fannst hann með öll spil á hendi. Hann hafði svo sannarlega ekki neitað að afhenda heiðursborgaraskjalið, en með því að gleyma því hafði hann búið til fjarvistarsönnun ef misnotkun bæjarbarnsins yrði gerð opinber. Eftir því sem ofar dró fann hann sigurvissuna koma betur og betur yfir sig og þegar upp var komið hringdi hann í ritarann sinn.

-Skrítin tilviljun, sagði hún, ég var að fara að hringja í þig. Hefurðu litið á símann þinn? Það hefur einhver sagt frá barnaníði bæjarbarnins gagnvart frænku minni á síðu #metoo frásagnanna og það er komið í hámæli. Þetta er nafnlaus saga, en farið er rétt með staðreyndir málsins.

Bæjarstjóranum var létt, þetta var líklega laukur sem flysjar sig sjálfur. Hann sagði, reyndar ósatt, að hann hefði bara ætlað að heyra í henni og þakka fyrir stuðninginn við athöfnina.

-Það er alltaf erfitt að biðja starfsfólk, sérstaklega fjölskyldufólk, að vinna um helgar.

Svo felldu þau talið.

Bæjarstjórinn horfði síðan yfir vatnið, yfir vötnin, gervigígana, en sá ekki mikið til fjallanna. Hann vonaði að það yrðu ekki fleiri slys í bænum. Kannski fengi hann kærustuna aftur, kannski yrði forseti bæjarráðs samvinnuþýðari. Í öllu falli var hann sjálfur óhræddari við mannorðsmissi en áður. En nú hlypi hann niður og keyrði heim. Hlypi niður allar bugðurnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation