Er óeðlilegt að vildarpunktar fylgi flugmiðum? (26.10.2023)

Texti greinar sem birtist í ff7.is.

—–

„Opinberu starfsfólki er að sönnu óheimilt að þiggja gjafir (regla sem því miður er stundum brotin), en fylgivara í viðskiptum er ekki gjöf, hvernig sem hún er – ef hún tengist kaupunum og er hluti af skilgreindri vöru,” segir Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, í aðsendri grein.

Fram er komin umræða um hvort það sé spilling að vildarpunktar fylgi farmiða sem opinberar stofnanir kaupa fyrir starfsfólk.

Fyrir kemur að verslunarvöru fylgir eitthvað smálegt. Mér finnst skipta máli að slíkur pakki tengist hinni keyptu vöru, þó það sé ekki alltaf. Þannig fylgja barnavörum oft eitthvert glingur, aukahlutir fyrir bílinn gjarnan bílakaupum, minnislykill tölvukaupum o.s.frv. Mörg flugfélög láta veitingar í ferðinni fylgja farmiðakaupum, áfenga drykki eða óáfenga, frátekt á sæti, aukinn farangur – en lággjaldaflugfélög selja miðana strípaða til að halda verðinu niðri. Þetta teljast ekki óheilbrigðir viðskiptahættir og ekki er talið að einn níðist á öðrum vegna þessa – menn selja ekki sambærilega vöru.

Ef við snúum okkur fyrst að hugtakinu spilling verðum við að muna að í stuttu máli snýst hún um að bregðast trausti – sem getur komið fyrir þá sem hafa eitthvert umboð, hvort heldur sem er opinber fulltrúi almennings eða þá í fyrirtækjarekstri. En það bregst enginn trausti sem fær í hendurnar flugmiða, sætisfrátekt, farangursheimild og vildarpunkta frá vinnuveitanda sínum – og því síður vinnuveitandinn sjálfur.

Opinberu starfsfólki er að sönnu óheimilt að þiggja gjafir (regla sem því miður er stundum brotin), en fylgivara í viðskiptum er ekki gjöf, hvernig sem hún er – ef hún tengist kaupunum og er hluti af skilgreindri vöru. Hún er innifalin í verðinu. Hvorki flugmiði né fylgivara eru laun (af þessu er ekki borgaður skattur) – og því síður eign (er hvergi eignfært) – en hvort tveggja er fullyrt. Um er að ræða venjuleg vörukaup sem eru rekstrarútgjöld vegna starfsemi.

Fargjald sem opinberir aðilar kaupa er ætlað fyrir starfsmanninn og því eðlilegt að það sem fylgir honum renni líka til starfsmannsins, bæði sætisfrátektin og annað. Vildarpunktarnir verða aðeins nýttir á vettvangi flugfélagsins. Þeir jafngilda hálfri samloku og má nota þá til kaupa á veitingum í ferðalaginu – eða mjög smálegu framlagi til annarrar flugferðar. 

Nú um stundir er mikil áhersla lögð á hagkvæm innkaup opinberra aðila. Ég þekki þó, sem gamall tölvumaður hjá hinu opinbera, að hagnýting vöru veldur meiru um hagkvæmni vörukaupa en innkaupsverðið – og oftast er betra og hagkvæmara að kaupa vandaða og dýra vöru en ódýra (þetta þekkja flestir frá heimilisrekstri og fyrirtækjarekstri). Sama á við um flugmiða. Huga þarf að hagnýtingu þeirra. 

Samstarfsfólk getur þurft að sitja saman á flugi til að nýta ferðina til vinnu; opinberir starfsmenn þurfa að hafa með sér ferðatölvuna og jafnvel annan búnað, auk annars eðlilegs farangurs. Þá getur sveigjanleiki skipt máli, t.d. tíðni flugferða til og frá áfangastað og möguleikinn á að fara til einnar borgar, ferðast annað í millitíðinni og koma svo heim frá enn annarri borg.

Þegar keyptur er flugmiði með ríkulegri þjónustu og vildarpunktum getur hann verið hagkvæmasti kosturinn þegar kemur að hagnýtingu. Munum að tíminn er líka peningar, ekki síst í opinberu lífi og hjá stjórnendum. Menn mega ekki bera saman epli og appelsínur og krefjast þess að allir selji sama ávöxtinn. Þannig eru eðlileg viðskipti ekki.