Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.
—–
Tölvuvæðing ríkisins skilar ekki væntum ávinningi. Hún hefur hvorki sparað tíma í þjóðfélaginu eins og vænst hefur verið né grennt hið opinbera.
„Svifaseint og sívaxandi skrifræði er að verða helsta áskorunin í íslensku þjóðfélagi,“ sagði Þorsteinn Víglundsson í viðtali við Vísi fyrir skemmstu. Þetta snýr sennilega að flestum sviðum athafnastarfsemi; hindrar nýsköpun, spillir frumkvæði og dregur úr þjóðartekjum.
Margir óska því eftir einföldun regluverks. Þótt grisjun þess sé göfug á tímum hraðra breytinga – og raunar skilyrði – verður nútímaregluverki ekki varpað af sér. Flókið regluverk samtímans, bæði innlendar og alþjóðlegar kröfur, er merki um þróað þjóðfélag þar sem tekið er tillit til fjölmargra þátta og fjölmargra hópa og það eykur réttmæti og sanngirni í opinberri afgreiðslu.
Viðbragðshraði atvinnulífs tekst á við flóknar kröfur um vandaða stjórnsýslu.
Leið nútímans
Svarið við þessu blasir við í fordæmi Skattsins. Ætli regluverk um skatta hafi nokkru sinni verið flóknara en nú – en gerð skattskýrslna og skattauppgjörs aldrei einfaldara. Þetta sama þarf að gera fyrir aðra málaflokka; byggingariðnaðinn, ferðamannaþjónustuna, félagsmálakerfin, nýsköpunarumhverfið og jafnvel víðar.
Fyrir um tuttugu árum komu fram hugmyndir um að opinber afgreiðslukerfi á vef færu eftir málaflokkum, þ.e.a.s. að þau miðuðu ekki við einstaka stofnanir og stjórnsýslustig, heldur við þarfir notendanna, bæði atvinnulífs og almennings. Ríkisstjórn BNA vann í framhaldinu nokkur meginverkefni sem mótuðu opinberar kröfur í abstrakt heim afgreiðslukerfa – óháð uppruna krafnanna. Svipað og Skatturinn hér, en hann hylur stjórnsýslustig með því að annast um útsvar.
Ávinningur
Ávinningur af hraðri og öruggri þjónustu hins opinbera er reiknaður í spöruðum tíma hjá starfandi fólki; metinn og verðlagður, og einnig í tíma almennings, en á lægra verði. Ef samhæfð afgreiðslukerfi spara öllum í þjóðfélaginu tíma, er sá ávinningur fljótur að verða að hárri upphæð.
Þetta eru ekki draumórar, samræmd afgreiðslukerfi auðvelda skilvirkni meira en annað; afgreiðsla tekur skemmri tíma en áður sem opnar á styttri vinnuviku og eykur hagsæld. Þetta snýst um þjóðartekjur, kaupmátt og ávinning atvinnulífsins – og með því að fækka starfsfólki í núverandi atvinnugreinum opnast möguleikar á nýjum, og þá auknum þjóðartekjum.
Að grenna ríkið
Auk afgreiðslukerfa, oft sem hluti af þeim, þarf hið opinbera að gera samhæfð fagkerfi fyrir eigin starfsmenn, þau grenna hið opinbera og létta öðrum lífið. Margar stofnanir hafa staðið sig vel í þessu efni, en engin þekkt fagkerfi hafa verið gerð fyrir heila málaflokka og þvert á stjórnsýslustig, þau geta þó aukið skilvirkni meira en stofnanabundin kerfi.
Ávinningur af tölvuvæðingu stofnana er ekki sóttur miðlægt af fjármálaráðuneytinu, heldur verður hann eftir í stofnunum sem tölvuvæða sig og er m.a. notaður til að fjölga starfsfólki, þenja út þjónustuna – og stytta vinnuvikuna. Almennt sparaði upptaka gagnagrunna á sínum tíma allt að 10% vinnuafls, netvæðing þeirra kannski svipað og hagnýting gervigreindar lofar ekki minni ávinningi.
Hver á þann ávinning?
Röng stefna
Fjármálaráðuneytið tók upp afskiptaleysisstefnu í tölvumálum ríkisins á árunum eftir 1991 (Nýsköpun í ríkisrekstri), seldi SKÝRR, lagði niður fagstofnanir og strípaði sig af tölvuþekkingu. Því tók tölvuvæðing stofnana við í stað tölvuvæðingar á vegum miðlægs valds.
Dreifstýring tölvumálanna hefur kostað mikið, fitað hið opinbera án þess að mæta þjónustukröfum nútímans, og hótar að gera okkur öll fátækari – ef taka má orð Þorsteins Víglundssonar lengra.
Þetta eru ákveðnar fullyrðingar, en fram hjá þeim verður tæpast gengið. Alþjóðasamvinna
Nefna verður að kostnaður pr. færslu verður alltaf hár á Íslandi og kerfi greiðast seint niður vegna fámennis þjóðarinnar. Það þarf bara eitt Facebook fyrir heiminn allan.
Því þurfa opinberir aðilar að hafa augun opin fyrir alþjóðasamstarfi um tölvukerfi og laga regluverk og vinnubrögð að kröfum annarra þjóða. Leita mætti til systurstofnana og nágrannaríkja um samstarf.
Þetta þýðir jafnframt að íslenskan faghugbúnað verður að selja á alþjóðamarkaði. Annars verður kostnaður óhóflegur, oftast er það sóun að þróa búnað fyrir eina stofnun eða eitt sveitarfélag.
Lokaorð
Enda þótt hugbúnaðarfyrirtækin, innlend og erlend, frumkvöðlarnir og hagnýting gervigreindar vinni verkin, þarf einhver að leiða fyrir hönd almennings. Bæði að sjá fyrir sér framtíðina, kosta verkefnin, stjórna þeim og setja upp tölvudeild ríkisins fyrir faglega leiðsögn og rekstur samhæfðra gagnagrunna þess (eins og Reiknistofa bankanna er fyrir fjármálakerfið) – svo eitthvað sé nefnt.
Engum öðrum en ríkisstjórninni og þá fjármálaráðuneytinu ber að sinna þessu verkefni. Enginn annar getur það, hefur vald til þess – hefur beinar skyldur til að efla þjóðarhag – eða má eða getur tekið sér vald ríkisins.
Við áramót, við ráðherraskipti, við ráðuneytisstjóraskipti og þegar skrifstofustjóri málaflokksins er farinn til Sjúkratrygginga – þegar nýtt fólk tekur við í stigveldi fjármálaráðuneytisins í tölvumálum og kemur ferskt að málum – er ástæða til að líta yfir farinn veg, skoða stefnuna, hvort árangur hafi orðið af henni og kannski ekki síst að endurnýja hana.