Flutningur leiða

Auðvitað verð ég var við ýmislegt í mínu starfi, á ég að segja yfirnáttúrulegt? Ég er einn þeirra sem veit að eðlisfræðin getur ekki skýrt allt. En ég beini því frá mér og gangi það illa tek ég svefnpillur, því það er á nóttunni sem þetta gerist. Fólkið sækir að mér í gegnum drauma og þegar ég er milli svefns og vöku. Það eru oftast hin látnu sem ég er eða hef verið að þjónusta, og einstaka sinnum látin ættmenni þeirra, kannski foreldrar þeirra, makar eða systkini.

Ásóknin er oftast fyrst eftir athöfnina og stundum í aðdraganda hennar, svo líður hún hjá. Hún snýst alltaf um ákveðið atriði. Þetta fylgir helst fjölskylduerjum, ef þær eru hatrammar, þá skiptist aðstandendahópurinn í fylkingar, bæði lifendur og dauðir.

Nú orðið legg ég töluvert á mig til að forðast ágreining milli aðstandanda við skipulagningu útfaranna, reyni að sigla milli skers og báru og ráðfæra mig við alla aðila. Aðila, sem oft geta ekki talast við sín í milli. Ég hef smám saman lært á þetta og algengast er að ég finni lausn sem sátt verður um og þá láta hinir látnu af sér vita og þakka mér fyrir.

Útfararstjórinn er alltaf í hlutverki hins sterka meðan syrgjendurnir eru hinir veiku. Á ákveðinn hátt er útfararstjóri í yfirburðastöðu og öllu skiptir hvernig hann hagar orðum sínum og gerðum. Ég hef verið að hugsa um að halda námskeið í hvernig á að umgangast syrgjendur. En þá er aðalatriðið að minnast ekki á neitt sem gæti skipt fjölskylduna máli.

Ég segi engum frá upplifunum mínum af framliðnum, því þá heldur fólk að ég sé undarlegur. Á ensku er þetta kallað „occupational hazard“, sem má þýða sem starfstengda áhættu. Ég hef samt aldrei ímyndað mér að ég sé í hættulegu starfi, en hefði kannski átt að skoða það.

Útfararstjórar staldra nefnilega við ýmislegt. Þótt allir geti verið vissir um eitt alla ævina, það er að dauðinn bíður þeirra, er með ólíkindum hvað fólk deyr undirbúningslaust. Þegar maður spyr um tegund af kistu hefur enginn heyrt talað um að fjölmargar gerðir eru til. Og því síður velt málinu fyrir sér. Það telst til undantekninga ef hinir látnu hafa skrifað niður uppáhaldssálmana sína – eða uppáhaldslögin. Ég hef aldrei hitt látinn mann sem hefur tekið frá föt til að klæðast í kistunni. Ásýndin er samt kannski það mikilvægasta, og hefur mikil áhrif á síðustu endurminningu hinna eftirlifandi um hinn látna.

Smám saman hefur ný þjónusta bæst við hjá mér. Þá á ég við flutning leiða. Fólk er einlægt að ráðstafa jarðneskum leifum sinna nánustu betur, koma þeim þannig fyrir að auðveldara verði að hirða um leiðin og leyfa afkomendunum að komast að þeim og eiga stund með minningunni um ömmu eða afa, langömmu eða langafa, eða það sem sárara er, með einhverjum sem féll frá ungur eða ung. Það fylgir auðvitað fleira, fólk dvelur ekki aðeins í minningunni, heldur líka í hugsunum sínum, og á ég þá við eftirkomendurna. Hver er eiginlega tilgangurinn með öllu saman? Ef út í það er farið, hver vill ekki hafa sína nálægt sér? Þó eru ekki allir ræktarsamir.

Það er kannski jafn gott. En þessi leiðaflutningar hafa undið upp á sig. Maður gæti haldið að störf útfararstjóra væru hreinleg, bara að standa í sparifötunum við athafnir og keyra bónaða bíla hægt og virðulega um götur við upphaf þeirra og eftir þær. Og taka hálfa aðra milljón fyrir. En sannleikurinn er annar. Þetta er óhreinleg, mikil og erfið vinna. Ég tala aldrei um smurninguna, en að þola lyktina eða að klæða 100 kílóa lík í spariföt sem voru orðin of lítil fyrir löngu síðan, það er alvöru vinna. Þá er ég ekki farinn að tala um greftranir og flutning leiða. Nei, það er með útfararstjórn eins og pylsugerð, maður vill ekki þekkja verkferilinn.

Þegar maður hugsar um það þá er flutningur leiða, á góðum degi, ekki eins vandasamur og fornleifauppgröftur, en krefst engu að síður sérþekkingar, sérstaks tækjabúnaðar, og þegar verst lætur er það jafnvel óhugnanleg erfiðisvinna sem krefst natni. Auðvitað er líka óþægilegt þegar rignir og ef langt er um liðið frá því gröfin var upphaflega tekin. Að ég nú ekki minnist á furukisturnar, sem fúna í sundur á tveimur áratugum. Bróðir minn er í þessu undir minni stjórn, hann sér um allt sem snýr að mold í mínum rekstri. Nú er þetta orðið meira en full vinna hjá honum og hann hefur pólskan verktaka með sér.

*

Ég tók varla eftir því þegar ég fékk pöntunina að norðan, þetta er rútína. Fjarlægja þurfti átta leiði úr heimagrafreit, það átti að leggja hann niður og afhelga hann. Fimm kistur áttu að fara í kirkjugarð gömlu sóknarinnar, við vonum að það séu heilar kistur, ekkert meira um það að segja, en hinar þrjár áttu að fara til Húsavíkur og Akureyrar. Í almennilega hirta garða. Af hverju þau koma ekki suður með allt liðið veit ég ekki, það er oftast gert nú orðið. Þá er hægt að fara með alla í einni ferð og jarðsyngja þá í einni athöfn upp á nýtt. Grafirnar gætu orðið hlið við hlið, þannig að um hálfgerðan fjölskyldugrafreit yrði að ræða. Einn prestur, ekkert vesen.

En hér var farið milli sókna og það þyrfti að leita til þriggja presta og ég myndi ætla að kranabílstjórinn okkar tæki þrjá daga. En auðvitað geri ég bara eins og mér er sagt. Fimm leiði skyldu flutt um þrjá kílómetra norður sveitina, eitt til Húsavíkur, þar sem erfitt er að komast að og leiðin standa öll stakstæð, enginn möguleiki á fjölskyldugrafreit, og það síðasta til Akureyrar. Þar er fagmennska meiri.

Það er alltaf peningahlið á öllum málum, líka ráðstöfunum á framliðnum, ég hef ekki farið varhluta af henni. Mér hefur ekki verið boðið í tvö síðustu árgangamót bekkjarins míns frá Verslunarskólanum og þess hefur verið rækilega gætt að ég vissi ástæðuna; að ég er talinn selja þjónustu mína við of háu verði. Mér sárnar það, hver vill sinna þessu starfi fyrir lítið, ef til þess kæmi skyldi ég skipta við hvert þeirra sem væri.

Ég var fljótur að semja tilboðið í verkið fyrir norðan. Þetta var tiltölulega stór ætt og nokkuð um eignafólk, svo er ákveðin áhætta í því að fara út á land, tækin geta bilað á einhverjum útkjálka og hótelin eru alltaf full og rándýr; ég mætti því reyndar nýlega með kaupum á húsbíl fyrir mína menn. Auðvitað dró ég ekki af mér í tilboðsgerðinni, það er nú einu sinni þannig að fólk heldur að það sem kostar mikið sé betur unnið en það sem ódýrt er. Svo allir voru ánægðir.

Við myndum gera þetta fljótt og vel, strax núna í ágústbyrjun. Mér fannst samt óþægilegt hvað komið var langt fram á sumar, betra hefði verið að fresta þessu til næsta vors  torfurnar í heimagrafreitunum geta orðið þykkar síðsumars og algerlega samhangandi þannig að erfitt er að slíta þær í sundur. Þetta er best snemma á vorin þegar skera má nýþiðnaðan svörðinn eins og ost og jafnvel seint á haustin, þegar lítið frost er komið í efsta lag jarðvegarins, þá skerast torfurnar hreinlega. Alltaf þarf að beita vel brýndum verkfærum. Það hafa hins vegar ekki allir þolinmæði og þetta mál þoldi einhverra hluta vegna ekki bið.

*

Ég fann strax fyrir einhverju, ég var að stíga á einhverjar tær. Ekki þannig að ég yrði andvaka, ekki til að byrja með. En þetta hélt áfram. Kona var að ýta við mér, hún var stóreyg og opineyg, hafði liðað afturkembt hár og var í sjálfu sér myndarleg. Með henni voru þrjár aðrar konur, eins og bak við hana. Þær voru líka látnar, kannski lágu þær með henni í heimagrafreitnum. Ég tengdi konuna strax við þetta verkefni fyrir norðan og hún sagði mér það reyndar umbúðalaust.

Ég vissi ekki til hvers þetta mál leiddi, ég sé ekki hið óorðna. Hefði ég ekki bara átt að segjast hafa of mikið að gera, það hefði meira að segja verið sannleikanum samkvæmt, en ég get varið mig með því að verkefnið var auðfengið fé fyrir mig, það lenti aðallega á bróður mínum. Ég hélt að ásóknin liði hjá.

Samt fór það svo að ég hringdi í verkbeiðandann og spurði hvort eitthvert þeirra sem lægi í garðinum væri mögulega ósátt við flutningana, hvort eitthvert þeirra hefði haft sterkar skoðanir á greftrunarstað. Hann lét í fyrstu eins og spurningin kæmi sér á óvart.

-Nei, hann hafði ekki endilega heyrt um það. Þannig er að bóndinn hefur horn í síðu heimagrafreitsins og hefur krafist þess að hann fari. Hann er samt ekki ótengdur fjölskyldunni, foreldrar hans eru í garðinum og þeir eiga að fara norður í sóknargrafreitinn.

Ég skildi það þannig að átakafælnari hluti afkomendanna vildi fara að vilja bóndans. Og eiginlega sagði viðmælandi minn að ella væri með öllu óvíst upp á hverju hann tæki. Hann myndi jafnvel setja jarðvinnslutæki á leiðin.

-Þá gæti hann fengið ásókn frá grafreitsbúunum, sagði ég.

-Það getur hann ekki, látnir eru látnir, var svarið og ég myndi ekki neita því.

Svo felldum við talið.

En ásóknin gagnvart mér harðnaði. Þegar vika var í flutninginn þurfti ég til viðbótar við svefntöfluna á kvöldin að taka aðra um miðja nótt. Til að hafa nóttina af. Svo hringdi bróðir minn í mig og sagði að tækin hans biluðu hvert af öðru. Hann spurði, kannski meira í gamni en alvöru, hvort einhverjir reimleikar væru í kringum eitthvert verkefnanna sem við værum að vinna.

Ég hló. Aldrei myndi ég láta standa mig að því að vera hjátrúarfullur, enda þótt svo væri.

-Sjaldan er ein báran stök, sagði ég, þessi tæki vilja oft bila öll í einu.

En mér leist ekki á blikuna. Svo ég forvitnaðist betur um þessa ætt og leitaði að einhverjum sem gæti sagt mér hvað eiginlega væri um að vera. Ég fann eldri konu, frænku, sem búsett var í Stokkhólmi, ég reiknaði með að hún væri komin nógu langt frá aðstæðunum til að ræða þær, hringdi í hana og kynnti mig. Ég spurði sömu spurningarinnar og ég hafði áður spurt verkbeiðandann.

– Heldurðu að eitthvert þeirra sem liggja í garðinum sé mögulega ósátt við flutningana, heldurðu að eitthvert þeirra hafi haft sterkar skoðanir á greftrunarstað?

Svarið smá kom. Þetta var saga, um berkla, um einangrun þessa bæjar í sveitinni vegna veikindanna og síðan höfnun íbúa hans á samskiptum við aðra íbúa hennar og jafnvel fyrirlitningu á þeim. Þetta fylgdi eldri systrunum, þær vildu hvergi liggja nema á heimajörðinni. Þessir atburðir urðu nálægt stríðsárunum síðari. Tvær systranna voru með berkla, sú eldri féll að lokum frá á Vífilsstöðum, en sú yngri var bara með annað lungað sýkt og var að lokum höggvin, eins og það var kallað, þá var lungað fjarlægt með nýrri en illræmdri skurðaðgerð.

Eldri systirin hafði verið allt það sem þetta feimna og kyrrláta sveitafólk þráði að vera. Hún var myndarleg, listræn, söngvinn og spilaði á orgel eins og engill og svo glaðvær að hún sagði aldrei orð af alvöru. Hún varpaði ljósi á heimili sitt og raunar á alla sveitina og hún var vinamörg og vinsæl og söng með glöðum. Ekki bara lög úr Ærbókinni, ekki bara dægurlög þess tíma, heldur útvegaði hún sér einnig nótur með amerískum og þýskum söngvum, skemmtilegum söngvum.

En svo hafði allt breytt um svip. Þegar hún kom heim frá Kristnesi, þar sem hún var til að byrja með, og raunar allt frá því að veikindi hennar uppgötvuðust, lokuðu vinkonurnar og vinirnir á hana, nei, þau höfðu ekki tíma, það voru annir hér og annir þar og síst af öllu var tími fyrir lautarferð suður í skóg. Eins og gefur að skilja var hún veik fyrir og brást illa við, hún snerist gegn sveitungum sínum. Hún fyrirleit þá og veikindahræðslu þeirra, sótthræðsla var að hennar viti og systra hennar lægsta tilfinning mannsins, það eimdi eftir af þessu í kóvíd-faraldrinum, margir af ættinni vildu ekki bólusetningu og settu sig á móti lokunum. Fólk verður að þora að lifa.

Samt birti alltaf yfir heimilinu þegar hún kom, orgelið var þanið, það var sungið, hún sagði sögur frá hælisvistinni og svo voru sagðar skemmtisögur af sveitungunum.

En það hallaði undan fæti hjá henni, heimsóknirnar urðu stopulli, hún var komin suður á Vífilsstaði og hugur hennar orðinn harðari. Þegar hún sá til hvers dró bað hún föður sinn að búa til heimagrafreit, eins og algengt var á berklaheimilum um þær mundir, hún vildi ekkert hafa með sveitunga sína og sóknarfólk að gera. Hann tók því seinlega. En undir lokin, í síðasta bréfinu, þar mátti gæta vanstillingar, þá bað hún foreldra sína þess lengstra orða að mega hvíla á landinu þeirra og sagði að jafnvel hundarnir fengju það. Nú kæmi að henni.

Við þessu varð faðir hennar, steypti upp grafreit, fjóra veggi á steinsúlum, þeir voru með kúptu efra borði sem hrintu norðanrigningunni af sér þannig að veggirnir sprungu aldrei, gróðursetti birkitré allan hringinn, smíðaði forláta smíðajárnshlið og grafreiturinn var helgaður. Líkið var flutt norður og kór sóknarinnar söng á túninu við garðinn. Svo var kistan látin síga.

-Það er langt síðan þetta var, sagði konan í Svíþjóð, þau okkar sem eru yngri en 75 ára þekkja hana bara af myndinni sem hékk yfir svefnherbergisdyrum afa og ömmu. Hún horfði þar yfir stofuna stórum greindarlegum augum með liðað afturgreitt hár. Sorgin hvíldi alltaf yfir þessari stofu.

*

Þetta var eins og mig hafði grunað, en mest undraðist ég að hún væri enn þá svona viljasterk. Og að þrjár systur hennar skyldu taka þátt í ásóknunum með henni. Hún gæti mögulega beygt mig, ég ætti kannski að vísa þessu verki frá og skapa mér svefnfrið, en hvernig ætlaði hún að sannfæra bóndann, eiganda jarðarinnar, rétt eins og hún hafði sannfært foreldra sína. Hann virtist ekki telja sig skuldbundinn henni ef rétt var með farið.

Ég hringdi síðan í bóndann sem tók mér vel, sagði að við gætum lagt á Leitinu við Ljósvetningabúð og gengið þar að aðstöðu meðan við ættum við grafreitinn. Hann var forvitinn um framkvæmdina og hafði greinilega áhyggjur af ágangi á túninu. Ég sagði honum hvernig við gerðum þetta, við erum með samansmellta aflanga krossviðarkassa sem við setjum utan um kisturnar eða það sem eftir er af þeim og öðru sem tilheyrir þeim, og þeir fara síðan niður í nýju gröfina.

Ég róaðist við að tala við bóndann og fann hvað það var fjarlægt nútímamanninum að trúa á tilvist framliðinna og hálfskammaðist mín fyrir að vera að guggna. Ég talaði aftur við bróður minn og við skipulögðum framkvæmdina. Prestarnir voru klárir og kirkjugarðarnir höfðu greftrunarmenn í viðbragðsstöðu. Við gætum farið norður með tækin eftir þrjá daga og komið öllu fyrir. Ég vildi ekki hafa þetta hangandi yfir mér lengur.

Það var eins og við manninn mælt að þegar ákvörðunin hafði verið tekin linnti ásóknunum og ég svaf vel um nóttina. Á þriðja degi vaknaði ég snemma, dreif mig út í bílinn, fyllti á með bensíni í Ártúnsbrekkunni og lagði í hann. Ég hef alltaf verið ákafur bílstjóri.

*

Frelsistilfinningin við að fara út á land kemur ekki yfir mann strax. Hún seytlar smám saman inn. Auðvitað finnst fyrir henni strax í Kollafirðinum, en ekki fyrir alvöru fyrr en komið er upp úr Hvalfjarðargöngunum og Súlurnar inn af firðinum blasa við. Hún styrkist þegar Baula kemur í ljós, en sjálf frelsisgleðin umlykur mann þegar horft er norður af við mastrið á Holtavörðuheiði. Þá hefur skipt um andrúmsloft og birtu og þá hefur skipt um veður. Þá er maður á einhvern hátt orðinn ungur á ný.

Ég kveikti á útvarpinu og fann að ég var laus undan áhyggjunum af þessum leiðaflutningi. Ég myndi stjórna málinu, koma því af stað og keyra svo aftur suður. Þegar maður hugar út í það er ég í skemmtilegu starfi. Get ferðast um landið og hitt nýtt fólk og skoðað nýjar og gamlar grafir. Það eru sennilega samskiptin sem löðuðu mig að starfinu í upphafi – og það eru þau sem ég hlakka til á hverjum morgni að njóta.

*

Maður veltir því auðvitað fyrir sér, þegar þangað er komið, hvort betra sé að keyra fram af klettabrún eða niður snarbratta skriðu. Í skriðunni hendist bíllinn til eftir því sem hann lendir á steinum, ef maður er heppinn og nær að stýra honum fer hann beint niður og undirvagninn klessist, en ef maður er óheppinn veltur bíllinn niður skriðuna, lyftist upp af steinunum sem standa upp úr, lendir síðan harkalega og klessist sífellt meira saman. Þá dynja höggin á bílnum allan hringinn, en toppurinn gefur auðvitað mest eftir. En fram af kletti er lóðrétt fall og ef það er nógu hátt þá réttist bíllinn af og framendinn, þungur vegna vélarinnar, veit niður. Bíllinn lendir á framstuðaranum og skellur fram yfir sig á toppinn. Og klessist endanlega saman. Sérstaklega ef hann steytir á stórum steini.

Í miðjum Giljareitunum á leiðinni upp á Öxnadalsheiði er bæði brött skriða og klettaveggur.

Auðvitað sér maður þetta ekki í smáatriðum, heldur eins og í kvikmynd sem sýnd er hægt, ekki samfellda mynd heldur tekur ein stök mynd við af annarri, uns maður er kominn alveg niður.

Ég hef aldrei hræðst þennan vegbút á Öxnadalsheiðinni og ók rösklega. Ég herti á þegar ég fór nýja veginn fyrir Silfrastaðafjall og stefndi upp Norðurárdalinn. Silfrastaðir eru í vari fyrir öllu veðri, þar festir ekki snjó og þá á maður eftir 40 mínútur til Akureyrar. Þetta var beint af augum. Minni háttar sveigjur eru á veginum um Giljareitina og ég ætlaði að taka þær með sveiflu, en þá gerðist eitthvað.

Völdin voru tekin af mér. Konan tók yfir, ég fann fyrir andardrætti hennar, en sá hana ekki. Það varð ískalt og moldarlykt umlukti mig. Allt í einu snarbeygði hún, ég fann hvernig hún sneri stýrinu og bíllinn fór auðveldlega fram af þar sem grindverkið endaði.

Það liðu fimm klukkutímar þangað til glöggur vegfarandi sá förin eftir bílinn minn, stöðvaði og horfði fram af, en sá ekki niður fram fyrir skriðuna. Svo hann þurfti að niður með gilinu þar sem það er þverhníptara og horfa upp eftir árfarveginum til að sjá bílinn. Síðan leið nýr klukkutími þangað til sjúkrabíllinn kom og annar þangað til bráðaliðarnir voru komnir niður með klippurnar og hófust handa. Og þeir voru ekki öfundsverðir af því að standa á hálum steinunum í vatnsmikilli ánni. Gott að þeir þurftu ekki að flýta sér. Því þá þegar hafði ég bæði haft gott næði til að velta þessu máli fyrir mér og að gefa upp öndina.

Eftir á að hyggja er ég ánægðastur með að hafa fyrir löngu skipulagt mína eigin útför.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation