Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.
——
Í frjálsum samningum á vinnumarkaði er málamiðlun hlutverk ríkissáttasemjara, ekki að gefa fyrirmæli. Fyrirmælavaldi fylgir misnotkunarhætta.
Miðlunartillaga ríkissáttasemjara í deilu SA og Eflingar hefur vakið margar spurningar. Fyrst og fremst hvort við viljum hafa frjálsa samninga á vinnumarkaði og hvað ríkið á að stjórna miklu um kaupgjald. Síðan hafa fleiri spurningar vaknað, svo sem, hvernig eigi að haga samningagerð yfirleitt og hvort lögin um stéttarfélög og vinnudeilur frá 1938 séu úrelt að einhverju eða verulegu leyti.
Fullt samningsfrelsi
Almenna reglan um fullt samningsfrelsi gildir á Íslandi og á og má ríkið yfirleitt ekki grípa inn í það með lögum nema við neyðaraðstæður (force majeure) – og þær geta skapast ef aðilar beita ýtrustu úrræðum. Þessi völd hefur ríkið haft lengi og hefur raunar alltaf í öllum málum, en með lögunum um sáttamiðlun í vinnudeilum frá 1978 var sett upp ríkisstofnun, ríkissáttasemjari, sem á að auðvelda samninga á frjálsum vinnumarkaði.
Við höfum því gefið ríkinu ýmis úrræði til þess að auðvelda lausn kjaradeilna og má fyrst og fremst nefna (i) fagleg ferli í aðdraganda samninga, (ii) beina stjórn ríkissáttasemjara á viðræðum, (iii) möguleika ríkissáttasemjara á miðlunartillögu – fyrir utan (iv) neyðarvald ríkisins til þess að setja lög.
Á ríkið að auka völd sín?
Ríkissáttasemjari, eða ætti ég að segja félags- og vinnumarkaðsráðherra – við hann var haft fullt samráð eins og gengur í stjórnsýslunni, sem flytur ábyrgðina til æðra stjórnvalds – reyndi að auka heimildir ríkisins til inngripa með miðlunartillögu sinni. Þeir félagarnir ætluðu að þvinga Eflingu til að kjósa um tillöguna, en reglurnar um slíkar kosningar hefðu gert félaginu erfitt um vik að hafna henni.
Í framhaldi af þessu krafðist ríkissáttasemjari þess að fá félagaskrá Eflingar í hendurnar og hugðist sækja hana með aðfarargerð og þvinga fram kosningu. Þannig tók hann sér fyrirmælavald og greip til þvingunaraðgerða.
Umbeðnar valdheimildir
Tillögur um heimildir til fyrirmæla og þvingunaraðgerða var að finna í frumvarpi Gunnars Thoroddsen um sáttamiðlun í vinnudeilum árið 1978, en þær voru teknar út í meðförum Alþingis. Þannig var heimild ríkissáttasemjara til að kalla eftir félagaskrá stéttarfélags aldrei samþykkt á Alþingi, en án skýrrar heimildar í lögum verður aðfarargerð ekki framkvæmd. Þorvaldur Garðar Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður félagsmálanefndar efri deildar, stóð fyrir þessum málatilbúnaði.
Niðurstaðan varð sú að ríkissáttasemjari hefur aðeins verkfæri til að leiða aðila í sáttaátt og þegar í óefni er komið, leggja fram sáttatillögu til kosninga hjá aðilum. Þetta á hann allt að gera í sátt og samvinnu við aðilana.
Almennt má segja að takmarkanir Alþingis á valdheimildum ríkissáttasemjara séu í takt við þjóðfélagsgerð okkar, frelsi aðila á markaði, valddempun, takmarkanir á valdbeitingu ríkisins, meðalhófsreglu stjórnsýslunnar – svo eitthvað af meginramma samfélagsgerðarinnar sé nefnt. Verður að hrósa Alþingi fyrir lagasetningu þess á þessum tíma og í þessu efni.
Dómur Landsréttar í aðfararmálinu
Tekið skal fram að þótt Landsréttur hafi ítrekað heimildir ríkissáttasemjara til að leggja fram miðlunartillögu gaf hann tillögunni ekki heilbrigðisvottorð. Ég ætla að hún hefði, hefði hún komið til kasta dómsins, hvorki staðist efnisreglur (í henni falist miðlun) né mögulega formreglur (að hafa samráð við aðila). Þá erum við ekki farin að tala um lög um persónuvernd sem væntanlega hindra að félagaskrá sé látin af hendi án staðfests samþykkis félagsmannanna sjálfra. Það sjónarmið kallar á að kosningar um miðlunartillögur fari fram á vegum stéttarfélagsins, en það hefur ekki komið til skoðunar.
Þá skal líka tekið fram að skriflegur samningur ríkissáttasemjara um afsal réttinda til að vísa niðurstöðu Landsréttar til Hæstaréttar virðist ólögmætur. Ríkisstarfsmaður má aldrei semja frá sér réttindi sem varða almannahag og raunar má ekki taka af nokkrum möguleika á að skjóta máli sínu fyrir dóm.
Hvað með framhaldið?
Reikna má með að helstu baráttumenn fyrir frelsishugmyndum á vinnumarkaði, auk verkalýðssinna af öllu tagi, muni snúa bökum saman og verja að hlutverki ríkissáttasemjara verði ekki breytt. Eins og minnst hefur verið á hefðu auknir möguleikar ríkisins á inngripum ófyrirsjáanlegar afleiðingar, auk þess sem slíkt hefur á sér ákveðinn alræðisstimpil – sem brýtur í bága við þjóðfélagsgerðina.
Hitt er svo annað mál, sem þessi grein fjallar ekki um, að áhuga flestra aðila til að þróa og breyta gömlu lögunum um stéttarfélög og vinnudeilur mætti mæta með faglegri vinnu á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og með vinnuferðum til hinna norrænu landanna og samanburði á árangri aðferða við að mynda góð þjóðfélög fyrir þá sem veikast standa.