Facebook-færsla.
Frjálsræði í störfum Alþingis kemur ekki á óvart. Svo slæmt var ástandið 1867, þegar Alþingi var ráðgefandi þing, að danska stjórnin treysti því ekki til að verða löggjafarsamkoma. Athugasemdir fulltrúa hennar um vinnubrögðin viðurkenndu Jón Sigurðsson og fleiri þingmenn bæði í orði og verki og gerðu tillögu um að laga þau, tillögu sem danska stjórnin samþykkti, og hún veitti Alþing löggjafarvald 1874.
En festa virðist ekki hafa komist á með stjórnarskránni 1874, þótt vinnubrögðin breyttust mikið – málsmeðferð varð í þremur umræðum og sett var upp tveggja deildar kerfi og sameinað þing – nema þeim hafi hrakað aftur. Þegar Alþingi fór aftur í eina deild, 1991, voru ekki gerðar breytingar á þingsköpum eða stjórnarskrá til að tryggja gæði lagasetningar, enda þótt umræður færu úr 6-7 í þrjár. Nú eru þær “de facto” tvær, en sú þriðja kemur oftast í beinu framhaldi af þeirri annarri (en settur er nýr fundur með nýju fundarnúmeri til að hespa málið af í þriðju umræðu). Þannig eru flest lög sett með hvelli að vori og fyrir jól.
Enda þótt ástæða sé til að ræða frjálsræði í störfum þingsins út frá málþófi – og það mun ég gera og hef gert – vil ég þó benda á annað. Það eru gæði lagasetningar. Enda þótt stjórnarandstaðan kvarti mikið undan gæðum frumvarpa ríkisstjórnarinnar (það er svo sérstakt umræðuefni og fullyrðingar stjórnarandstöðunnar eru í mörgum tilfellum véfengjanlegar) – þá veikir hún með vinnubrögðum sínum möguleika Alþingis til að gera málefnalegar og vel hugsaðar breytingar á frumvörpum. Málþófið eyðir um efni fram helstu auðlind þingsins – sem er tíminn. Og það þarf tíma fyrir vönduð vinnubrögð.
Vegna þessa að hætta er á – eins og ávallt áður – að gerðir verði samningar um mál og þeim svo öllum lokið á innan við 24 klst. af því að þá er þingið fyrir löngu komið í tímaþröng. Ekki bara samningar um hvaða mál verði að lögum, heldur líka samningar um efnisleg atriði sem breyta frumvörpum. Eins og fram hefur komið í rannsóknum eru slíkar breytingar á síðustu stundu – oftast að lítið hugsuðu máli – oft óframkvæmanlegar og eru teknar til baka á næstu fimm árum eftir lagasetninguna (viðkomandi ráðherra lætur laga lögin og færa þau efnislega nær því sem frumvarpið sagði áður til um).
Ég minni á bækur mínar, Mín eigin lög, sem út kom í fyrra, og fjallar um málsmeðferðarferli á Alþingi og bókina Um Alþingi: Hver kennir kennaranum, sem kom út 2019 og túlkar tölfræði úr gögnum gagnagrunns Alþingis fyrir árin 1991-2018. Þær fást báðar í Eymundsson Austurstræti – og eru, auk fræðigreina eftir mig, helstu heimildirnar frá síðustu 15 árum um störf Alþingis. Í þeim kemur skýrt fram hvernig vinnubrögðin eru og að þörf er á að breyta þeim.
Margt fleira má segja um frjálsræði í vinnubrögðum Alþingis, t.d. ræða nýlegan dóm Hæstaréttar um búvörulagabreytinguna og afgreiðslu forsætisnefndar Alþingis á kærum til siðanefndar vegna mögulegra siðabrota Þórarins Inga Péturssonar. Þessir úrskurðir og dómar fela í sér að stjórnmálamenn og ekki síst Alþingi hafa mikið frjálsræði í störfum sínum – og það þannig að þeir þurfa ekki að fara að lögum. Þetta er hörð fullyrðing en óþægilega rétt.
Þetta veit ríkisstjórnin og afgreiðsla fjármálaráðuneytisins á kröfu um endurgreiðslu á ólöglega fengnu fé Flokks fólksins og samningur dómsmálaráðuneytisins við vararíkissaksóknara um starfslok – voru hvort tveggja gjafir á almannafé sem virðast ekki eiga sér lagastoð. Því miður. En þagga niður í óþægilegum málum.
En komum aftur að Alþingi. Fyrirkvíðanlegt er fyrir nýjan meirihluta á Alþingi að fara í haust inn í fyrsta heila þingárið með þessar nýju niðurstöður sem staðfesta enn ákveðnar en fyrr frjálsræði þingsins og möguleika stjórnmálamanna. Ekkert getur stöðvað ódrengilega og ósiðlega framgöngu stjórnarandstöðunnar, hún má allt.