Grái herinn tapar aðalkærumálinu

Facebook-færsla.

Hvenær tapar maður og hvenær vinnur maður?

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) hefur tilkynnt að hann muni taka hluta af kæru Gráa hersins (Gh) til málefnalegrar meðferðar. Gh lýsir því í fjölmiðlum sem miklum sigri. En hið gagnstæða er nær sanni. Er ástæða til að segja satt í því efni?

Gh fór með mál sitt í gegnum íslenska dómskerfið og féll í því dómur í Hæstarétti í nóvember 2022. Meginkrafa Gh var að skerðingar ellilífeyris væru ólöglegar og brytu meðal annars á eignarétti eldri borgara. Þá var í rökstuðningi talað um að skerðingar væru mismunandi eftir uppruna tekna (lífeyrissjóðsgreiðslna eða atvinnutekna, mismununin felst í ólíkum frítekjumörkum) og þær væru líka mismunandi eftir því úr hvernig lífeyrissjóði tekjurnar kæmu: úr sameiginlegum sjóðum vs. séreignarsjóðum eða viðbótarséreignarsjóðum. Tekjur úr viðbótarséreignarsjóðum valda ekki skerðingum.

Allt tapaðist málið í íslenska réttarkerfinu og í ársbyrjun 2023 fór það til MDE. Og nú hefur MDE ákveðið að taka til meðferðar spurninguna hvort skerða megi ellilífeyri mismunandi mikið eftir uppruna teknanna. Bæði hvað varðar lífeyrissjóðsgreiðslur vs. atvinnutekjur og ólíkar skerðingar eftir tegund lífeyrissjóðssparnaðarins. Hins vegar ætlar dómstóllinn ekki að taka til meðferðar spurninguna um hvort skerðingarnar eru ólöglegar. Dómur Hæstaréttar í því efni var endanlegur.

Er þetta sigur eða er þetta tap. Við skulum rökstyðja hvort tveggja.

Annars vegar er það sigur að MDE skuli taka einhverjar af kröfum Gh til efnislegrar meðferðar, hann vísar fjölmörgu frá. Hann ætlar að skoða mismunina og þá erum við að tala um að málið varði við jafnræðisreglu. Í þessu efni virðist dómurinn túlka jafnræðisreglu stjórnsýslunnar vítt, en hér skal engu spáð um hvernig fer.

Hins vegar tapaðist meginmálið, þ.e. að skerðingarnar væru óheimilar og brytu í bága við eignaréttinn. Það mál – krafan um niðurfellingu skerðinga og að ríkir og fátækir fái allir jafnan ellilífeyri og fátæka ekkjan – hefur þó um langt árabil verið meginkrafa Gh og það sem öll kjarabarátta samtaka eldri borgara hefur snúist um. Þannig hafa eldri borgarar nú eytt mörgum árum til einskis undir stjórn forystu sem hafði rangt fyrir sér. Og segir væntanlega af sér í framhaldinu.

Flestir sem vit hafa á stjórnsýslurétti sögðu fyrir um málið – en ótrúleg þráhyggja var um þessa kröfu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation