Texti greinar sem birtist í Kjarnanum.
—–
Þar sem ég ólst upp fyrir norðan steig samvinnuhreyfingin sín fyrstu skref. Langflestir íbúar studdu Framsóknarflokkinn og aðhylltust sósíalistískar hugmyndir hreyfingarinnar. Fólkið sem ól mig upp hafði andúð á fjármálabrölti en fór vel með fé, sitt eigið og annarra. Það stóð föstum fótum á gildum eins og heiðarleika, jöfnuði, siðgæði og heilindum. Nú einni öld eftir að Samband Íslenskra Samvinnufélaga var stofnað að Ystafelli hefur hugmyndafræðilegur grundvöllur samvinnuhreyfingarinnar fallið og grunngildin eru jafnvel sniðgengin af forystu flokksins.
Upplýsingar um eignarhlut konu forsætisráðherra og/eða hans í aflandsfélagi í heimsfrægu skattaskjóli (gögn um séreign hafa ekki komið fram) kom óþægilega á óvart. Það eru þó ekki síður eftirmálar þess og önnur verk forsætisráðherra sem valda mér áhyggjum, ekki bara vegna fastheldni á gömul og góð gildi frá uppvextinum, heldur einnig vegna þekkingar minnar á stjórnsýslu og kunnugleika af hlutverkum ríkisins, að ógleymdum áhuga mínum á að áhrif netsins komi til framkvæmda.
Aðstöðumunur og tvöfalt siðgæði
Þúsundir eða tugþúsundir Íslendinga töpuðu fé í hruninu, margir ævisparnaðinum. Nokkrum mánuðum áður komu forsætisráðherrahjónin sparifé sínu undan í erlendan gjaldeyri. Þetta sýnir „aðstöðumun“. Höfum í huga að eitt helsta verkefni ríkisins er að sjá til þess að allir íbúar sitji við sama borð, hafi jöfn tækifæri í samfélaginu. Stjórnmálamenn og embættismenn eiga að sjá til þess.
Sá stjórnmálamaður sem berst fyrir því að íslenska krónan sé framtíðarlausn fyrir Ísland og Íslendinga en kemur sparifé sínu jafnframt undan sýnir af sér „tvöfalt siðgæði“. Það er óverjandi að ríkið stuðli að notkun almennings og minni fyrirtækja á krónu meðan stórfyrirtæki og efnafólk tryggir eignir sínar og rekstur í annarri mynt. Þá er fyrirfram búið að ákveða hverjir bera byrðina ef áföll ber að, s.s. aflabrestur eða eldgos.
Forsætisráðherra leyndi kjósendur upplýsingum um fjármál konu sinnar í aðdraganda síðustu kosninga, sem hefðu augljóslega farið öðru vísi ef aðstaða hans og fjölskyldu hans hefði verið ljós, enda snérust þær m.a. um afstöðu og aðstöðu stjórnmálamanna gagnvart kröfuhöfum.
Vanhæfi eða ekki
Ólíkar reglur gilda um hæfi aðila til þess að takast á við opinber málefni. Sem dæmi má nefna að formlegar reglur löggjafarstarfsins eru lítilfjörlegar, reglur fyrir dómara eru hins vegar ítarlegar og reglur stjórnsýslunnar ganga ekki mikið skemur. Ráðherrar hafa aðra aðstöðu en óbreyttir alþingismenn því þeir geta unnið undir stjórnsýslurétti sem framkvæmdarvald. Úrlausn á kröfum „hrægamma“ eins og Framsóknarmenn hafa kallað kröfuhafa gömlu bankanna, var bæði unnin af Stjórnarráðinu og af Alþingi. Lausn sem kennd er við stöðugleika. Um framkvæmdina gilda því ólíkar hæfisreglur eftir því við hvaða hluta lausnarinnar er átt.
Þar sem um mikla hagsmuni er að ræða og lögfræðinga greinir á um hvort um vanhæfi hafi verið að ræða eða ekki er sennilegt að dómstólar dæmi í málinu. Það þarf ekki nema einn óánægðan kröfuhafa til þess að kæra og óska eftir ógildingu stjórnvaldsákvörðunar. Niðurstaða kæmi eftir nokkur misseri.
Áhætta
Enginn vill að ákvarðanir í málinu verði ógiltar að hluta eða í heild. Ógerlegt er fyrir leikmann að ímynda sér hvað það myndi hafa í för með sér, annað en það að árangur núverandi ríkisstjórnar í málinu, sem nú er mjög rómaður, yrði það ekki lengur. Þvert á móti. Jafnvel má hugsa sér nýtt hrun, nýtt landsdómsmál og annað í þeim dúr, ef menn vilja skima alla möguleika.
Enda þótt líklegt sé að lögfræðingar Stjórnarráðsins hafi séð til þess að vanhæfi verði ekki dæmt í málum þessum er mikilvægi þeirra svo mikið að ekki mátti taka minnstu áhættu. Í þessu ljósi er sú ákvörðun forsætisráðherra að víkja ekki sæti við úrlausn málsins á vegum framkvæmdarvaldsins glannaleg og munum að hann einn vissi að hann stóðst ekki hæfisreglur stjórnsýsluréttar. Í þessu efni má rökstyðja að hann hafi sýnt dómgreindarleysi.
Valdmörk
Í fréttum hefur verið sagt af tveimur málum sem varða valdmörk innan Stjórnarráðsins. Sú meginregla gildir hér á landi að hver ráðherra ber ábyrgð á sínum málaflokki og hefur á honum fulla stjórn. Enda þótt sumir stjórnsýslufræðingar aðhyllist aukna samvinnu milli ráðherra, þ.e. fjölskipað vald, sem þekkist hér t.d. með ráðherranefndum, þá þýðir það ekki að forsætisráðherrann, þótt í leiðandi stöðu sé, eigi að handstýra einstöku málum annarra ráðuneyta. Það er að virða ekki valdmörk.
Engu að síður hefur það gerst að forsætisráðherra hefur reynt að hleypa upp byggingu nýs háskólasjúkrahúss með því að hafna staðsetningu þess. Mál sem er undir stjórn heilbrigðisráðherra, er stutt af honum, starfsmönnum hans og landlækni og háskólarektor og að málinu hefur fagfólk unnið í 15 ár.
Einnig hefur forsætisráðherra gripið inn í byggingarfyrirætlanir á Hafnartorgi og freistað þess að breyta þeim með því að Stjórnarráðið keypti eða leigði húsnæðið undir skrifstofur sínar. En húsnæðismál Stjórnarráðsins heyra undir fjármálaráðuneytið.
Vissulega er það þekkt erlendis frá að forsætisráðherrar handstýri einstöku málum, t.d. í Rússlandi. En ekki í nágrannaríkjunum, ekki málum af þessu tagi og ekki í ríkjum með þróaða lýðræðislega valddreifingu.
Þá hafa leiðtogar flokksins hótað Háskóla Íslands og RUV niðurskurði fjárveitinga ef stofnanirnar láta ekki að vilja þeirra. Það eru stjórnarhættir sem ekki hafa sést opinberlega hér á landi í marga áratugi.
Ótækir starfshættir
Starfsemi Stjórnarráðsins hefur lítið þróast til nútímahorfs í 2-3 áratugi eða síðan tölvumálin voru tekin úr höndum fjármálaráðuneytisins, SKÝRR seld og RUT-nefndin og Hagsýslustofnun lögð niður. Enginn aðili hefur það verkefni að nútímavæða starfshætti æðstu stjórnar ríkisins. Þrátt fyrir góðan vilja í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar hefur hún sniðgengið verkefnið.
Þetta eru alvarleg mistök því gömlu starfshættirnir bera með sér lítið gagnsæi. Upplýsingar eru gríðarlega mikilvægt stjórntæki, þær móta ásýnd og ímynd stjórnvalda (og gera stjórnvöld annað hvort nútímaleg eða gamaldags) og eru í sjálfu sér vald. Opnun upplýsinga ber með sér valddreifingu og þær upplýsingar þarf að taka saman í ríkisgagnagrunna (vinna heimavinnuna). Eftir þeim kallar unga kynslóðin.
Í stað þess að mæta vilja almennings hefur forsætisráðuneytið ráðið upplýsingamenn og almannatengla, sumir þeirra bera starfsheitið aðstoðarmenn, sem eiga það til að dreifa upplýsingum um ríkisreksturinn og framkvæmdir verkefna og fegra þá gjarnan hlut yfirmanna sinna. Það er í hróplegri mótsögn við nútímalega og hlutlausa upplýsingagjöf. Sennilegt er að starfsemi þeirra stangist á við meginreglur laga. Fyrir nú utan að aftur má helst sækja samlíkingu til Rússlands.
Gamaldags valdsmannastjórn
Við upphaf kjörtímabilsins voru margir vongóðir um að nú væru teknir við stjórnartaumunum nútímamenn og eldri stjórnarhættir heyrðu brátt sögunni til. Að við hefðum fengið unga og vel menntaða leiðtoga. Því meiri hafa vonbrigðim orðið. Enn gildir hið harða meirihlutaræði í stjórnmálunum sem alltaf gegnsýrir allt hér á landi og enn er spurt um vald í stað sjónarmiða.
Sá sem þetta skrifar hefur þó orðið fyrir mestum vonbrigðum með að starfshættir ríkisins skuli ekki hafa verið færðir til nútímahorfs m.a. með upplýsingatæknivæðingu, en einnig með eflingu stjórnsýslunnar og fagmennsku í störfum hennar. Beinar tilskipanir og geðþóttaákvarðanir virðast enn koma í stað vandaðs undirbúnings og ákvarðanatöku. Þá virðist valddreifing stjórnvalda enn fjarlægari en áður. Að ekki sé talað um áherslu þeirra á norræn gildi, sem eru meðal annars áhersla á bráttu gegn spillingu.
Afvegaleiðing umræðunnar
Á síðustu dögum hafa upplýsingamenn í forsætisráðuneytinu og jafnvel forsætisráðherra sjálfur reynt að afvegaleiða umræðuna að því er virðist, um áhrif fjáreignar konu hans í skattaskjóli og krafna hennar á bú gömlu bankanna. Sem dæmi um þetta má nefna að gefið er í skyn að hæfiskröfur til allra sem að stöðugleikamálinu hafa komið séu hinar sömu og að þeir sem eiga fé erlendis sitji allir við sama borð og forsætisráðherra, hvort sem þeir eru kröfuhafar eða ekki og enda þótt þeir hafi hvorki unnið við lausn málsins né hafi umboð almennings til nokkurra stjórnarathafna. Sjá má glögg dæmi af þessu tagi, sem kalla má óheiðarleika, bæði á netinu og í blaðaviðtölum við forsætisráðherra t.d. 26. mars s.l.
Í þessu efni má líka nefna kokhraust svör forsætisráðherra við spurningum um vantrausttillögu í þinginu eða til þingrofstillögu. Öllum má vera ljóst að með slíkum tillögum yrðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins viljugir óviljugir að styðja forsætisráðherrann og það hlýtur að kosta sitt, staða Framsóknarflokksins í ríkisstjórninni hlýtur að veikjast mikið. Stjórnmálaforingjar eiga bæði að segja satt og meta stöðu mála rétt.
Vilji almennings
Áhrif netsins á stjórnmál eru einkum gagnsæi eins og hér hefur verið nefnt, samráð við almenning um sameiginleg mál og framkvæmd frelsishugmynda netsins. Þessi áhrif hafa að litlu leyti borist til stjórnvalda en krafan meðal tölvuvæddasta almennings í heiminum er hávær. Vissulega má spyrja sig hvernig samráð við almenning á að fara fram. En það gæti m.a. falist í því að mæta réttmætum væntingum. Að svo miklu leyti sem þær eru þekktar er ljóst að almenningur vill endurreisn heilbrigðisþjónustunnar. Engu að síður efnir forsætisráðherra til orðaskaks við forsvarsmanns undirskriftarsöfnunar um málefnið og reynir að hindra byggingu háskólasjúkrahúss.
Þá er skætingur upplýsingamanna forsætisráðuneytisins og jafnvel alþingismanna og ráðherra í garð Pírata undarlegur. Píratar eru öflugt miðjuafl sem kemur sem andsvar við stöðnuðum stjórnarháttum fjórflokksins og hagsmunagæslu. Allir flokkar og ekki síst miðjuflokkur eins og Framsókn ættu að mæta helstu lýðræðislegum stefnumálum Pírata á þessu kjörtímabili og opna þannig dyr að framtíðar ríkisstjórn landsins. Að hafna stjórnmálalegum vilja yfir 50% ungs fólks sem vissulega styður Pírara er nokkurs konar sjálfsvíg.
Þá hefur ríkisstjórnin lítið brugðist við öðrum áhrifum netsins: ljósleiðari út á land bíður og verður væntanlega kosningaloforð Framsóknar áfram eins og hingað til.
Foringjaræði
Framsóknarflokkurinn hefur aftur fallið í gryfju foringjaræðis eftir nokkra opnun flokksstarfsins í aðdraganda síðustu kosninga. Á stopulum laugardagsfundum tala aðeins alþingismenn og ráðherrar og greina frá stefnu flokksins. Þeir flokksmenn sem hafa eitthvað fram að færa, vilja hafa áhrif á ákvarðanir og jafnvel takast á við meiriháttar breytingar, eru sniðgengnir og tala fyrir daufum eyrum ráðherra og framkvæmdaraðila flokksstarfsins. Þegar svo er komið er eðlilegt að kjósendur flokksins leiti annað, kannski einkum til Pírata sem státa nú af einu öflugasta flokksstarfi sem sést hefur til hér á landi og eru einmitt með lifandi umræður um jafnvægið milli forystu og flokksmanna við ákvarðanir.
Afstaða til fjölmiðla
Þá er ósagt að mjög sérkennileg afstaða virðist ríkjandi innan Framsóknarflokksins gagnvart fjölmiðlum. Hún minnir enn og aftur á afstöðu Pútíns í Rússlandi og Erdogans í Tyrklandi. Eitt er að vaða yfir samráðherra, annað er að reyna að þagga niður í fjölmiðlum þegar þeir gegna lýðræðislegu upplýsingahlutverki sínu. Þessir fjölmiðlar koma svipað fram við alla ráðamenn. Hatrið á DV sem var og gagnvart RUV núna hefur ekki á sér lýðræðislegt yfirbragð. Að ekki sé minnst á virðingu fyrir leitinni að sannleikanum. Eitt af helstu hlutverkum ríkisins er einmitt að upplýsa sannleikann. Stjórnmálamenn og embættismenn eiga að sjá til þess.
Lokaorð
Eldra gildismat Framsóknarflokksins og samvinnuhreyfingarinnar stendur höllum fæti. Heiðarleiki, jöfnuður, siðgæði og heilindi hafa orðið að víkja. Framsóknarflokkurinn og framsóknarmenn þurfa að skoða hvaðan þeir koma og velja hvert þeir vilja fara. Þeir virðast ekki eiga mikla samleið með framtíðinni eins og er.