Hið granna framtíðarríki (25.11.2023)

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Gervigreindin virðist geta valdið gagngerum umskiptum í þjónustu ríkisins – stóraukið afgreiðsluhraða og fækkað starfsfólki.

Gervigreindin lofar að ríkið verði í auknum mæli að hraðbanka. Í rauninni hafa gagnagrunnarnir valdið nokkru af þeirri breytingu nú þegar; stofnanir eins og Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar, Skatturinn, jafnvel Menntasjóður og Þjóðskrá – hafa orðið að vef sínum og afgreiða beint með gagnafærslum eins og heimabankar.

Margir hafa undrast af hverju þessar stofnanir – og aðrar opinberar stofnanir sem geta og hafa getað nýtt beina gagnavinnslu – hafa ekki grennst eins og bankarnir.

En ríkið sýslar með fleira en strúktúreruð gögn, eins og gagnagrunnsgögn eru kölluð – köllum þau þjónustutegund nr. 1 hjá ríkinu. Við getum kallað gerð texta af öllu tagi, sem eru óstrúktúreruð gögn, og í tengslum við hann úrskurði og álitsgjafir þjónustutegund 2. Í þessari grein ræðum við ekki um aðra þjónustu, þótt fyrirferðarmikil sé, s.s. kennsla og umönnun.

Nú lofar gervigreindin að taka að sér úrskurði og álit, samningu bréfa og önnur erfið og mannaflsfrek verkefni – það sem ég er að kalla hér þjónustutegund 2.

Úrskurðir og bréfaskriftir

Allt bendir til þess að gervigreindin verði góð í lögfræði og stjórnsýslufræði. Hún ætti að geta skilið yfirskipuð og undirskipuð ákvæði; hvernig ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga, síðan stjórnarskrár, þá laga og loks reglugerða raðast upp við úrlausn mála. Auk annarra sjónarmiða sem hafa þarf við höndina og vega og meta í hverju máli. Hún mun mögulega geta metið hvort rannsókn sé fullnægjandi. Það stendur ekki heldur í henni að meta hvað séu málefnaleg sjónarmið og hvað ekki.

Að öllu samanlögðu ætti gervigreindin að geta afgreitt skrifleg erindi til ríkisins og það um hæl, sérstaklega ef þau byggjast að einhverju leyti á strúktúreruðum gögnum. Það á hún að geta gert verulega betur en maðurinn, ekki síst að sjá um samræmi í úrlausnum og tryggja að ekki sé gerður mannamunur.

Þannig ætti Útlendingastofnun að geta afgreitt allar umsóknir vélrænt og jafnvel umboðsmaður Alþingis og úrskurðarnefndir – a.m.k. ætti gervigreindin að geta gert tillögu að afgreiðslu – jafnvel þótt úrlausnarefni þeirra séu að litlu leyti strúktúreruð.

Miðstýring og gagnagrunnar

Helsta forsenda þessa er að myndaðir verði ríkisgagnagrunnar og upplýsingatæknimálum ríkisins stýrt miðlægt og hagkvæmni höfð að leiðarljósi – en hagkvæmni, góð meðferð almannafjár – er ein mikilvægasta skylda ríkisins.

Tvennt hefur fitað ríkið meira en annað síðustu 30 árin, þ.e. dreifstýring upplýsingatæknimála og hræðslan við ríkisgagnagrunna. Dreifstýringin er samkvæmt stefnunni um nýskipan í ríkisrekstri (e. New Public Management), sem stóð sterkt um 1990 og var innleidd hér á landi af fjármálaráðuneytinu á árunum þar á eftir. Það þýddi að SKÝRR var selt og miðlæg tölvuþekking ríkisins eyðilögð, en litlar tölvudeildir spruttu upp úti um allar stofnanir. Deildir sem eru svo veikar að þær ógna nú á tímum gagnaöryggi ríkisins. Gekk þetta allt of langt.

Dreifstýringin sem stefna var slegin af á árinu 2005 með grein sem prófessor Patrick Dunleavy, formaður stofnunar um opinbera stefnumótun hjá LSE (London School of Economics), skrifaði, og ítrekaði hann þetta með enn betri grein 2010.

Það er hins vegar af ríkisgagnagrunnum að segja að uppbygging þeirra hófst af kappi í Bandaríkjunum eftir árásina á tvíburaturnana árið 2001 og var þá ekkert slegið af við prófíleringu þjóðarinnar, m.a. voru gögn sótt í bankaleynd.

Síðan hafa engar umræður orðið um hættuna af ríkisgagnagrunnum – reynslan sýnir að það eru rauntímagögn um almenning sem skapa í lýðræðisríkjum persónuverndarhættu og hættu í stjórnmálum og við dreifingu hugmynda – það eru stóru hugbúnaðarrisarnir á markaði sem skapa þá hættu en ekki ríkið.

Afleiðingar rangrar stefnu

Afleiðingar dreifstýringar og hræðslunnar við ríkisgagnagrunna hafa orðið stórfelldar og skal hér þrennt nefnt:

(i) Ríkisvaldið hefur þanist út, meðan atvinnulífið og viðskiptalífið þarf sífellt minni mannskap til að veita sífellt betri þjónustu, enda þótt oft megi bera þjónustu þessara aðila saman,

(ii) þjónusta við almenning er léleg þar sem ein stofnun veit ekki hvað hin gerir (þótt gagnasendingar milli stofnana þekkist) og er þá m.a. átt við að sjúkragögn fara ekki milli þjónustuaðila – staða sem getur kostað mannslíf,

(iii) opinberir starfsmenn – og nú um stundir greind upplýsingakerfi – hafa ekki þær samtvinnuðu upplýsingar sem þarf til upplýstrar, vel rannsakaðrar og góðrar stjórnsýslu.

Hvað þarf að gera?

Ríkið, og þá sérstaklega fjármálaráðuneytið, þarf að gerbreyta stefnu sinni til að nýta hagræðingarafl upplýsingatækninnar. Ekki með áherslu á innkaup – en sá misskilningur hefur komið upp í ráðuneytinu að spara megi í jafnvel einskiptis innkaupum – það er ekki hægt í upplýsingatæknimálum því forsendan er að kaupa góðan búnað sem oft er dýr – þótt það sé sennilega hægt varðandi staðlaða rekstrarvöru. Hins vegar næst hagkvæmnin með breyttri hagnýtingu tækninnar, breyttum vinnubrögðum. Svipað og stór atvinnufyrirtæki gera.

Með notkun gervigreindar og uppbyggingu ríkisgagnagrunna virðist mega fækka fólki og bæta þjónustu, en mannaflskaup eru dýrasti póstur ríkisrekstrarins.

Sveigjanleiki í starfslýsingum og ráðningum er frumskilyrði í hinu granna framríðarríki.