Hlýtt regn

-Ég varð hugfanginn af heita regninu og er enn, sagði gamli maðurinn.

-Ekki síst vatnsmiklu regni. Jú, jú, líka mildu regni í logni, en helst úrhelli í kjölfar þruma og eldinga.

-Svo það var ekki sólin sem dró þig til Spánar?

Sennilega voru þessi orð fremur fullyrðing en spurning. Dálkahöfundur El Día virtist í rauninni áhugalítill um skýringar gamla mannsins á brottflutningi hans frá Íslandi til Spánar. Þegar á hólminn var komið. Hann var tæplega vaknaður en naut þess að draga að sér reyk af fyrstu sígarettu dagsins.

Þeir sátu snemma morguns andspænis hvor öðrum við innsta borðið á El Gato Gris kaffihúsinu í Marbella, dálkahöfundurinn sneri fram að innganginum. Kaffihúsið opnar snemma, aðallega fyrir eldri karla sem ekki geta sofið á morgnana og kaupa sér expressó fyrir hið staðlaða verð, eina evru. Gamli maðurinn hafði fengið sér kaffi og tvær sæmilega bættar kökur, en á morgnana þurfti dálkahöfundurinn vermút og sódavatn.

-Ég var tvítugur í sólarlandaferð sem Kaupfélagið lánaði okkur fyrir og ég fór ekki heim aftur. Ég varð heillaður af náttúru Suður-Spánar og er enn þá. Ég reyndi hvað eftir annað að selja flugmiðann minn heim, en allt kom fyrir ekki. Svo ég var nánast peningalaus og þurfti að yfirgefa hótelið þegar ferðinni lauk.

Það var skuggsýnt á kaffihúsinu og dálkahöfundurinn hafði strax tekið sólbirtugleraugun ofan. Ljósu hörfötin voru bæði snjáð og kryppluð og aldrei þessu vant hafði hann sleppt brúna bindinu þótt það færi vel við bláu skyrtuna. Loftljósið var varla meira en fjörtíu kerta pera. Það endurvarpaðist lítillega af hárlausu höfði dálkahöfundarins og veggirnir voru vel dökknaður krossviður, kannski af reykingum. Lofthæðin var lítil og ljósbrúnt loftið gat framkallað innilokunarkennd hjá gestum. Húsgögnin voru farin að slitna. Engum hafði dottið í hug að breiða dúka á borðin. Andrúmsloftið var samt á einhvern hátt hlýlegt, allt að því heimilislegt upp á gamlan máta, kannski minjasafnslegt, og kaffiilmurinn fyllti mjótt en langt húsnæðið. Mildur ómurinn af morgunstilltum skarkala götunnar barst inn í salinn.

-Hvað tókstu til bragðs vegalaus og væntanlega mállaus, spurði dálkahöfundurinn.

Hann var með kveikt á litlu ferðasegulbandstæki með útskiptanlegum spólum, eins og notað var áður fyrr. Hann treysti ekki stafrænu efni og hafði oft á síðustu þremur áratugum skemmt sér vel þegar vinnufélagar hans glötuðu gögnunum sínum af tölvunum. Örlítill niður heyrðist frá tækinu þegar vast upp á lausu spóluna.

-Ég gerði ekkert. Pakkaði bara saman þegar íslenski hópurinn fór og settist með töskuna í anddyrið. Til að hugsa mig um. Kannski gæti íslenskur ræðismaður í Andalúsíu aðstoðað mig. Seinna kom í ljós að Ísland átti engan ræðismann þar.

Gamli maðurinn leit á viðmælanda sinn, svolítið óöruggur. Hann vantaði tvær framtennur í neðri góm, hann var hár og grannur, kviðdreginn og rúnum ristur í andliti þannig að hann hafði alþjóðlegt útlit gamalmenna. Í nýju peysunni sinni gat hann eins verið útitekinn inúíti af ísnum eða sólbakaður berbi frá Atlasfjöllum. Tóbakstaumar leituðu fram úr nefinu.

Dálkahöfundurinn var í sjálfu sér ekki áhugasamur um peningalaus ungmenni við upphaf sjöunda áratugs síðustu aldar, hafði skrifað margar greinar um það fólk og heila bók um kynslóðina; 68-kynslóðina. Hann fékk sér sopa af vermútinu, hryllti sig að því loknu og fór út í aðra sálma.

-Hvernig atvikaðist það að þú lentir í sítrónunum?

-Stúlkan á hótelinu bauð mér heim.

Gamli maðurinn hikaði, það var eins og eitthvað rynni upp fyrir honum. Hún hafði séð hann vandræðalegan sitjandi í anddyrinu eftir að íslenski hópurinn fór og þegar vaktinni lauk tók hún í höndina á honum, leiddi hann orðalaust heim og gaf honum brauð og ost að borða. Það var kvöldsett og hún bauð honum að gista hjá sér. Hún var með dökkbrún, nánast svört, skilningsrík augu og bar þess merki að nærast einvörðungu á kaffi og sígarettum, eins og alsiða var þarna suður frá. Hann hafði aldrei séð svona dökkbrún augu áður.

-Bauð þér heim, hváði dálkahöfundurinn. -Var hún í sítrónurækt.

Gamli maðurinn hafði gleymt þessu, sjálfu upphafinu. En núna kom til hans hvað hún var falleg, með axlarsítt hár og topp. Eftir nokkra stund rifjaðist þetta með frændann líka upp og hann sagði.

-Nei, það var frændi hennar. Hún fór með mig til hans og hann réði mig strax í vinnu við sítrónur. Sennilega fyrir hennar orð. Ég flutti aldrei út frá henni.

Svo horfði hann upp á vegginn þar sem hékk fölnuð blýantsteikning af Alhambra-höllinni. Það var eins og hann væri að uppgötva eitthvað nýtt. Að lokum sagði hann.

-Ég sef enn þá í rúminu hennar.

Að svo búnu leit karlinn beint á viðmælanda sinn, tók sig saman í andlitinu og virtist allt í einu töluvert öruggari. Hann bleytti vísifingur hægri handar með tungunni og tók mylsnuna af hliðardiskinum upp með því að þrýsta á hana. Svo setti hann puttann upp í sig og sleikti hana af. Hann gerði þetta tvisvar og dálkahöfundurinn velti því fyrir sér hvort maðurinn hefði þetta frá Íslandi. Svo ók karlinn sér aðeins og bætti við.

-Við giftum okkur og áttum fimm börn. Sem öll búa í Andalúsíu. Hún dó í hitteðfyrra, síðan bý ég einn, en fæ hádegismat hjá nágrönnum mínum. Konan er það besta sem fyrir mig hefur komið, kannski svipað og sítrónurnar.

Svo sá hann eftir þessari samlíkingu og bætti við.

-Nei, hún var best af öllu, mikið betri en sítrónurnar.

Hann virtist aftur óöruggur eftir að hafa næstum því gert lítið úr konunni sinni, hallaði sér til hægri og dró vasaklút upp úr vinstri buxnavasa sínum og snýtti sér.

Dálkahöfundurinn færði höndina á stopp-takkann á segulbandinu og var viðbúinn að stöðva upptökuna ef karlinn færi að gráta. Það fór um hann viðbjóðskennd, hann gat ekki hugsað sér að sjá gamalmenni gráta, sjá tártauma og tóbakstauma sameinast – raunar engan gráta ef út í það var farið, fátt var þó algengara í játningarviðtölum nútímans. Því síður ætlaði hann að eiga slíkt á segulbandi. Svo sýndist honum karlinn taka sig taki og færði höndina af takkanum.

-En hvernig eignaðist þú allar þessar íbúðir í Marbella? Þú ert þekktur leigusali.

Það var ekki síst vegna íbúðanna sem hann tók þetta viðtal. Varla var það forvitnilegt þótt einhver flytti frá Íslandi til Spánar, í rauninni má telja það afskaplega eðlilegt, en hitt var einkennilegra að hann auðgaðist af sítrónurækt. Í rauninni var karlinn konungur sítrónanna þarna um slóðir.

-Þær eru ekki margar. Ég keypti þær vegna verðbólgunnar. Maður getur ekki átt peninga.

Karlinn virtist telja þetta sjálfsagðan hlut og varla þess virði að nefna það.

Hann leit aftur fyrir sig, myndarleg fullorðin kona á gulum kjól fékk sér sæti við næsta borð. Hún heilsaði körlunum stuttlega eins og hún væri þeim ókunn, dæsti þegar hún settist og lagði veskið sitt á stól. Í fylgd með henni var grönn vinkona, dökkklædd.

-Nú segja flestir sítrónubændur að þeir tapi á ræktinni, ef marka má fréttirnar. Af hverju eignaðist þú peninga?

Dálkahöfundinum varð hugsað til stöðu eigin fjármála. Fyrst á morgnana sóttu leiðinlegar hugsanir oft á hann. Svo fékk hann sér aftur sopa af vermútinu en hryllti sig miklu minna en áður.

Gamli maðurinn var ekki ánægður. Hann hafði verið boðaður í þetta viðtal til að ræða um hvernig stóð á því að Íslendingur ílentist á Spáni og varð stórbóndi í sítrónurækt. Ekki til að ræða um peninga og íbúðir, enda taldi hann sig ekki hafa vit á fjármálum. Svo sagði hann.

-Konan stjórnaði öllu nema ræktuninni. Ég lærði hins vegar fljótt að rækta. Hún lét mig fyrst kaupa lítinn landskika. Pabbi hennar lánaði okkur fyrir honum. Hann átti vörubíl og flutti allt fyrir okkur. Svo keyptum við meira land og svo aftur meira land þangað til við vorum komin með fimm hundruð hektara. Meira en við þurftum, og sumt ekki einu sinni tækt til sítrónuræktar. Þar ræktum við ólívur.

Hann lagði vísifingur hægri handar á borðbrúnina og dró hann hægt og þegjandi til vinstri, eins og til að strjúka af jaðrinum. Dálkahöfundurinn var nú orðinn viss um að handahreyfingar karlsins til að losna við mylsnu væru ættaðar frá Íslandi. Kannski ætti hann að spyrja út í þetta.

-Þú veist vel leyndarmálið mitt. Allir vita leyndarmálið mitt. Ég vökva, ég nota vatn. Ég fór strax að vökva og því var spáð að ég yrði fljótlega gjaldþrota, það væri of dýrt. Sítrónur eru ekki munaðarvara á Spáni. En þá kom þurrkasumar og ég borgaði áveituna upp. Mínar sítrónur eru stórar, safaríkar og fallegar. Skínandi gular og með rétta lögun. Á þurrkaárum verða sítrónur hinna litlar, þurrar, vanskapaðar og ljótar. Það er eftir þurrkaárin sem þeir væla í blöðin, en þá keypti konan íbúðir – nú, eða hún keypti af þeim landið.

-Af hverju setja hinir þá ekki upp áveitur, spurði dálkahöfundurinn.

-Af því að mörg árin þurfa þeir þess ekki. Ef rignir. Þá græða þeir og kaupa sér Mercedes, en ekki áveitukerfi.

Gamli maðurinn sneri sér við og dálkahöfundurinn sá ekki betur en hann brosti til konunnar á næsta borði. Allt í einu fannst honum að konan hefði ekki sest næst þeim fyrir tilviljun, heldur til að hlusta á viðtalið. Flest önnur borð á kaffihúsinu voru laus.

Og aftur varð honum hugsað til eigin mála, núna kvennamála.

-Keypti konan íbúðirnar?

Nú beygði gamli maðurinn sig fram og lækkaði róminn, kannski vildi hann ekki að konan bak við hann heyrði í honum.

-Hún gerði það. Hún var fjármálasnillingur.

Svo hikaði hann aðeins áður en hann bætti við.

-Hún var líka snillingur í matargerð.

Hann rétti úr sér.

-Við keyptum allt til ræktunarinnar saman.

Svo brosti hann.

-Flest tækin fengum við frá bændum sem kafsigldu sig með offjárfestingu.

Dálkahöfundurinn var orðinn svolítið óþolinmóður. Honum leiddust í rauninni gamlir karlar. Og þessi karl sem ekki tímdi að kaupa sér ný föt var ofan í kaupið sigurvegari í lífinu. Hversu misskipt er hamingjan ekki?

Gamlir karlar fóru yfirleitt út í einhverja billega lífsspeki, þótt þessi væri ekki byrjaður á því, en hann myndi örugglega fara þangað. Dálkahöfundurinn hafði fengið ábendingu um að áhugavert gæti verið að tala við þennan og hafði í svipinn ekki annað efni í miðjuviðtalið. Með hálfum huga hafði hann gengið á eftir honum að mæta.

En yfir dálkahöfundinn var að smáhellast þungi. Í gær hafði leigusalinn bankað uppá.

-En segðu mér frá Íslandi, föðurlandi þínu.

-Við Íslendingar héldum að við værum bændur. En strangt tekið ættum við að vera sjómenn. Ef við erum eitthvað. Þessi misskilningur olli því lengst af að við vorum fátækir.

Svo lagði karlinn hægri framhandlegginn upp á borðið og hreyfði hann út af borðinu, eins og til að hreinsa það. Þetta var mun stærri hreyfing en á borðröndinni áðan. Kannski hafði hann séð mylsnu, eða þetta var bara kækur.

-Í Hvilft í Ingólfsfirði var lítið undirlendi og grasbrestur flest sumur. Við höfðum kindur – eða réttara sagt, ég hafði kindur – pabbi féll frá þegar ég var orðinn nógu stór til að annast búið.

-Bjóstu sem sagt einn?

-Já, konur koma ekki svona langt norður eftir.

Nú leit karlinn aftur fyrir sig og ávarpaði konurnar. Sú á gula kjólnum tók undir orð hans og þau skiptust á nokkrum orðum. Um þroskaferli sítróna, heyrðist dálkahöfundinum. Hún var greinilega líka í þeim geira. Honum datt í hug að kannski langaði hana í íbúðir í Marbella. Nema það væri í hina áttina, að karlinn langaði í meira land.

Hann stundi. Konur. Hann hafði átt margar kærustur sem sviku hann. Sumar fljótlega, aðrar entust lengur. Nú er ekki svo að Spánverjar drekki ekki, en hans konur þoldu honum það ekki. Síðast hafði vinkona hans, nýtilkomin, kvatt hann. Fyrir réttri viku. Sagði að hann væri metnaðarlaus og sjálfhverfur.

Hann sleit sig frá neikvæðum hugrenningum sínum og sagði.

-Segðu mér meira frá Íslandi.

Við áttum skektu sem við pabbi keyptum í nýja Saab-vél, tveggja hestafla fjórgengisvél.

Hvernig gekk sjómennskan?

Ég veiddi heilagfiski seinnipart sumars. Það voru mið út af Munaðarnesi. Svo veiddi ég fisk þegar gaf.

-Fisk. Hvað kallar þú fisk?

-Ýsu og þorsk. Ég borðaði ýsuna en hengdi þorskinn. Ef mikið veiddist af ýsu hengdi ég hana líka. Við vorum með trönur úr rekaviði og lítinn hjall heimavið. En það fékkst ekki mikið fyrir hann siginn eða hertan.

-Við áttum bæði haglabyssu og kindabyssu. Það þurfti enginn að svelta í Hvilft.

Karlinn tók sér málhvíld.

-Svo kom verðbólgan en innleggið varð verðminna og skuldin við Kaupfélagið hækkaði stöðugt. Ég fékk aldrei úttekt fyrir traktor, jafnvel þótt ég bæði um amerískan traktor sem Sambandið flutti inn. Kaupfélagið vildi að bændur keyptu þá. Mig langaði hins vegar í Ferguson, hann var ódýrari, en hann var fluttur inn af einkaframtakinu.

Karlinn staldraði við í frásögn sinni og veiddi aftur upp mylsnu með vísifingrinum. Hann var með stóra vinnulúna hönd, brúna af sól.

-Það er snjóþungt í Ingólfsfirði og tekur seint og illa upp. Kindurnar komast hins vegar í þara. Það bjargaði miklu. En ég kom rekanum aldrei í verð.

-Hvernig skildir þú við?

-Ég sendi nágranna mínum bréf héðan að sunnan og bað hann að sjá um kindurnar. Og taka við jörðinni og öllu sem henni fylgdi. Ég vissi svo sem að slíkt bréf jafngildir ekki afsali. Ég hef aldrei á ævinni skrifað undir afsal. Ætli Kaupfélagið hafi ekki tekið allt upp í skuld. Ekki hefur það hundelt mig hingað.

Svo brosti karlinn.

-En jörðin var einskis virði. Kannski kindurnar og lömbin um haustið. Og svo auðvitað bátsvélin.

Dálkahöfundurinn kveikti sér aftur í sígarettu. Hann leit fram ganginn. Konurnar á næsta borði mösuðu, en flestir aðrir horfðu í gaupnir sér.

Hann bandaði frá sér hugrenningum um eigið líf.

-Hvernig eru Íslendingar, spurði hann næst.

-Þeir eru góðir fiskimenn, svaraði gamli maðurinn. Svo sneri hann sér aftur við til að líta á konuna í gula kjólnum.

-Eftir á að hyggja eru þeir ekki vel fallnir til forystu í bændasamtökum. Það er hver meira fyrir sig.

Nú hló karlinn í fyrsta skipti. Hann vantaði líka fremstu jaxlana, þá sem voru næst fyrir aftan augntennurnar, bæði uppi og niðri, beggja vegna.

Dálkahöfundurinn hafði ekki áhuga á íslenskum stjórnmálum og flýtti sér að koma að næstu spurningu.

-Kunna Íslendingar að skemmta sér?

-Þeir drekka allt sem flýtur. Ég held þó að lítið hafi verið um heimabrugg á Ströndum. Sykurinn var svo dýr.

Nú brosti karlinn, eins og af hugsunum sínum.

-En yfirvöld nenntu ekki svona langt norður. Við gátum gert það sem okkur sýndist. Ég drekk hins vegar ekki.

-Ekki einu sinni með mat, hváði viðmælandi hans.

-Jú, jú, hálfan pott í hádeginu. En það er ekki að drekka.

-Nei, í sjálfu sér ekki, ekki samkvæmt skilgreiningu, samsinnti dálkahöfundurinn. Honum fannst hann loksins hafa náð einhverju sambandi við karlinn. Þeir áttu þó eitthvað sameiginlegt.

Hann leit á þennan forríka sítrónubónda sem var á flestan hátt eins og umrenningur. Tímdi greinilega engu og taldi það sennilega fordild að fara til læknis. Svo kallaði hann í þjóninn og pantaði annan vermút, meira sódavatn og expressó bolla. Hann yrði að komast yfir vanlíðanina.

Hann var ekki viss um að þetta yrði gott viðtal. Hann gæti ekki heldur, af skiljanlegum ástæðum, haft ljósmynd af karlinum á forsíðu. Og þó, hvað með listræna svart-hvíta vangamynd? Annars seldust fórnarlömb nútímasamfélagsins best og fóru vel á forsíðunni, sérstaklega ef þau voru sorgmædd eða grátandi. Eiginlega allt ofbeldi gerði sig. Spurning hvað gerist ef einum velmegandi er hampað.

-Þú hefur ekki minnst á móður þína, sagði hann svo.

-Hún kom frá Berlín í aðdraganda stríðsins. Gyðingur. Kom eftir Kristalsnóttina. Treysti ekki nasistunum og hafði í því efni rétt fyrir sér. Pabbi sagði að hún hefði raunar ekki treyst neinum. Forsætisráðherrann sendi hana norður að Hvilft. Hún átti mig en undi síðan ekki í fásinninu. Pabbi fór með hana suður, fór með Esjunni, og ríkið tók við henni. Hún fékk bæði fæði og húsnæði á þess vegum inn við sundin í Reykjavík. Ég veit ekki hvað varð um hana, sá hana aldrei aftur. Þú mátt ekki skrifa í blaðið að ég sé af gyðingaættum.

Gamli maðurinn strauk nú vinstri handleggnum yfir borðið og út af borðröndinni. Dálkahöfundurinn undraðist hversu mikil mylsna hlyti að hafa farið á borðið af þessum tveimur kökum – ef karlinn var þá að hreinsa mylsnu.

Eftir þessi orð um móðurina sátu þeir þegjandi um stund. Svo bætti karlinn við.

-Það er eins með konur og sítrónur. Það þarf að tala við þær. Pabbi sagði aldrei mikið.

Svo leit hann upp svolítið óviss á svip. Hann hafði ekki vanið sig á að kenna yngra fólki speki um lífið, en hafði nú fallið í þá gryfju. Auðvitað þekkti hann eðli mannanna.

-Það sést á þeim hvernig atlæti þær hafa fengið. Sítrónurnar verða hnúðóttar í kulda og fölar og bragðlitlar ef vantar sól. Verst er þó ef vantar upp á vökvunina, þá vaxa þær ekki og fá ekki fallegt yfirbragð. Hvað svo sem er sól og vatn fyrir líf kvenfólks.

-Hvernig eru íslenskar konur að öðru leyti?

Nú hugsaði karlinn sig um. Svo sagði hann og var alveg öruggur.

-Þær eru sterkar. Eins og karlmenn. Og duglegar. Fellur aldrei verk úr hendi. Þær eru líka fallegar og flestar brosa með augunum. Þá verður allt bjart í kringum þær.

Svo þagnaði hann.

-Þær mættu samt gera það oftar.

Svo hélt hann áfram.

-En þær eru ekki grannar eða í vextinum eins og tíu ára strákar – þú veit hvað ég á við – stundum ber þannig konur fyrir augu hér syðra. Svo eru til rauðhærðar og freknóttar konur í tveimur útgáfum. Þær sem eru með ljósa augnaumgjörð og þær sem eru með dökka. Ég hef séð tvær eða þrjár af síðarnefndu gerðinni og það eru fallegustu konur á jarðríki. Ein þannig var með í sólarlandaferðinni sem bar mig hingað. Ég þorði ekki að tala við hana.

Kannski heyrði konan í gula kjólnum til þeirra og fannst gaman að þeir skyldu ræða um kvenfólk. Hún talaði til gamla mannsins, sem sneri sér við. Hún vissi greinilega allt um hans hagi og spurði hvernig honum liði eftir konumissinn. Athyglin lífgaði karlinn og hann fullyrti, án þess nauðsynlega að segja satt, að hann sæi alveg um sig sjálfur.

Dálkahöfundinum fannst þau aldrei ætla að hætta. Hann horfði á konuna tala og var ekki vel við að hún brosti þegar hún talaði við karlinn og það var jafnvel bros í röddinni. Fátt fannst honum tilgerðarlegra en bros í röddinni. Var karlinn nógu veraldarvanur fyrir svona lagað, búinn að tala við sítrónur allt sitt líf.

Dálkahöfundurinn hafði ekki marga veikleika ef frá eru taldar konur og góður vermút. En hann skrifaði reglulega um bíla. Þegar gamli maðurinn sneri sér aftur að honum gat hann ekki setið á sér og spurði.

-Hvernig bíl áttu annars? Benz-jeppa eins og hinir?

-Ég á ekki bíl til einkanota og hef aldrei átt bíl. Ég tek rútuna. En börnin mín eiga öll bíl. Þeim hefur þó gengið misvel að koma sér fyrir í lífinu. Ég hef ekki hjálpað þeim, kannski mamma þeirra, ég veit það ekki, stundum hefur mig grunað það. Hún sá um fjármálin. Það verða allir að standa á eigin fótum. En auðvitað fá þau allt sem ég á í fyllingu tímans. Og ég veit hvað þau munu gera. Selja allt. Bröskurum sem vilja byggja hótel og sumarhúsaóðum Þjóðverjum sem kaupa sér raðhús.

Hann tók sér málhvíld.

-Mest hlakka ég til ef dóttir mín gerir jarðakröfur heima á Íslandi. Það er víst virkjanlegur foss á Hvilftarjörðinni.

Nú brosti hann.

Dálkahöfundurinn sagði ekkert. Varla stæði kotjörð á Íslandi undir miklum málarekstri milli landa, jafnvel þótt þar væri foss. En karlinn hélt áfram.

-Ég veit að allt sem ég hef gert er unnið fyrir gíg. Bæði í Hvilft og hérna. Þegar betur er að gáð og ef til lengri tíma er litið fer þannig um ævistarf allra. Það verður að engu. Kannski hrakar öllu, stundum finnst mér það. En ég – fyrir mitt leyti – hef byggt upp.

-Að lokum er ein mikilvæg spurning. Sérðu eftir að hafa farið frá Íslandi?

-Nei, það hef ég aldrei gert.

Nú brosti karlinn enn einu sinni.

-Mér var bent á Íslendinga um daginn. Á markaði. Það voru hjón sem stóðu við kartöflukassann þegar ég kom að þeim. Þau ræddu mikið um kartöflurnar og höfðu greinilega vit á þeim. Ég stillti mér upp við hliðina á þeim eins og ég væri í biðröðinni og heyrði vel hvað þau sögðu. Ég skildi ekki eitt einasta orð. Nema kannski jæja. Mér brá svolítið. Eftir á að hyggja varð ég ánægður. Ég er búinn að slíta öll bönd.

Nú þurrkaði karlinn borðið enn einu sinni og nú með hægri framhandleggnum. Borðið var orðið skínandi hreint.

Hann bætti við.

-Ég veit hvernig þetta er. Maður fer ekki til að koma aftur. Það er ekki hægt.

-Hvað áttu við?

-Maður kemur alltaf til nýs lands, hvort sem maður fer að heiman eða heim. Ég valdi landið með hlýju rigninguna og ég valdi rétt. Sá sem fer frá norðanáttinni, að ég tali nú ekki um norðaustan áttinni, sem ekki er einu sinni hægt að sigla vélbáti upp í – er ég búinn að nefna kaupfélagið – nei, ég skal ekki tala um kaupfélagið. Sá sem fer í hlýja regnið fer auðvitað aldrei til baka. Hann gleymir meira að segja tungumálinu.

-Við látum þetta verða lokaorðin, sagði dálkahöfundurinn.

Hann vissi ekki hvort hann myndi birta þetta viðtal og ætlaði að sitja eftir og hugsa málið. Að fara að heiman eða heim. Nú eða hlýja rigningin – það má kannski nota þetta. Það voru ekki nema tveir dagar í útgáfu næsta tölublaðs og ef hann nýtti þetta viðtal ekki vantaði hann bæði opnuviðtal og forsíðumynd. Hann myndi fá sér þriðja vermútinn til að hugsa skýrar og fá nýjar hugmyndir um framsetningu.

Fyrir tilviljun stóðu konurnar upp samtímis gamla Íslendingnum og gengu með honum fram. Dálkahöfundurinn brosti þegar honum flaug í hug að kannski myndi sú í gula kjólnum eiga eftir að lita hárið á sér rautt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation