Hugleiðingar um EES-samninginn, Hvammsvirkjunardóminn og Bókun 35

Facebook-færsla.

Fjórfrelsið sem EES-samningurinn byggir á gerir lágmarkskröfur, en ekki hámarkskröfur. Þannig verða aðildarríkin að tryggja ákveðið, tiltekið frelsisstig á öllum fjórum málefnasviðunum. Sem eru: vöruflutningar, fólksflutningar, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutningar. Á grundvelli þessa tiltekna frelsisstigs verður (atvinnu)lífið samræmt – Íslendingar eiga möguleika á margháttaðri aðstöðu í Evrópu og evrópumenn hér. Þetta hefur í för með sér gríðarlegt hagræði og frelsi, bæði fyrir félög og fólk.

Bókun 35, sem kom til umræðu í dómnum um Hvammsvirkjun, felur í sér að ef íslensk reglusetning nær ekki lágmarksviðmiðunum samkvæmt EES-reglum þá gilda EES-reglurnar. Og í íslensku vatnalögunum, sem innleiddu vatnatilskipun ESB, var gengið styttra í frelsisátt en sú tilskipun kvað á um. Ef Alþingi hefði verið búið að samþykkja Bókun 35 hefði dómurinn snúist við og framkvæmdarleyfið ekki verið fellt úr gildi – því vatnatilskipunin gekk lengra í frelsisátt en íslensku vatnalögin.

Ef íslensk löggjöf gengur hins vegar lengra í frelsisátt en EES-reglurnar þá gildir íslenska löggjöfin, enda þótt Bókun 35 hafi verið samþykkt. Kröfur EES-samningsins eru lágmarkskröfur. Þannig er ekki hægt að kæra nýju lög Sigurðar Inga um frelsi í leigubílaakstri til dómstóla á þeim grundvelli að ekki sé farið eftir EES-reglum. Því lögin innleiða lágmarkskröfur EES-reglna, þau ganga bara enn lengra í frelsisátt (frjálshyggja Framsóknarflokksins).

Það að ganga lengra í frelsisátt en EES-kröfurnar kveða á um er kallað „gullhúðun“ laga. Við getum þá líka kallað það „afskorin“ lög þegar íslensk lög mæta ekki EES-kröfunum. Og Bókun 35 kveður á um að íslenskar innleiðingar á EES-reglum megi ekki vera afskornar. Sé svo, gildi EES-reglurnar (lágmarksreglurnar) en ekki þær íslensku.

Þessi Bókun 35 felur því ekki í sér nýja skuldbindingu gagnvart EES-samningnum en gert var ráð fyrir árið 1993, þegar Alþingi samþykkti hann. Það stóð aldrei annað til en að mæta lágmarkskröfum EES-reglna. Ef eitthvert aðildarríkið sker af kröfunum – innleiðir kröfur sem ganga skemur í frelsisátt – ónýtist samningurinn sem því nemur.

Að EFTA-ríkin þurfi að samþykkja Bókun 35 sýnir að þau hafa reynt að sniðganga samninginn í eigin innleiðingum.

Bókun 35 verður almenn lög og víkur hún því ekki fyrir stjórnarskrárákvæðum – sem eru yfirskipuð almennum lögum. Þótt ýmsir segi ósatt í því efni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation