Húsnæði (2024)

(Eintal miðaldra konu)

I

Hann sagði mér frá því fyrir fram að hann yrði í sjónvarpinu. Hann kom svo bara vel fyrir í Kastljósinu og sagði líklega það sem starfið krafðist. Vara-seðlabankastjórinn, sonur minn. Hann var að tala um verðbólguna. Hvernig hún geysaði og eirði engu. Hann nefndi samt ekki dæmi um eyðileggingarmátt hennar, ég er alltaf fyrir dæmi. Nei, hann lagði áherslu á baráttuna gegn henni, úrræði bankans og hvernig þeim væri nú beitt. Með vaxta­hækkunum og takmörkunum á því að eignalítið og ungt fólk geti keypt íbúðir.

Spyrjandinn mændi upp á hann. Ég horfði á son minn þar sem hann sat á dökkbláum jakkafötum sem fóru vel við innréttinguna í útsendingarstofunni og fannst hann ekki lengur gæðalegur. Og jafnvel ekki kunnuglegur. Hann hafði líka elst. Það var eins og hann væri mér ótengdur, einhver annar en hann sjálfur. Hugsaði hann ekkert út í hvað hann var að segja?

Mér fannst að hann hefði átt að tilgreina hvernig eignalítið fólk og ungt veldur verðbólgunni fyrst aðgerðirnar beindust gegn því, það reis nú ekki upp úr jörðinni á einni nóttu, það fæddist fyrir 20-30 árum og hefur síðan gengið í skóla, afgreitt í stórmörkuðum og stundað íþróttir. Af hverju höfðu yfirvöld ekki gert ráð fyrir að það fullorðnaðist og byggt yfir það húsnæði? Það virtist koma öllum á óvart að ungt fólk vildi allt í einu stofna heimili. Í höfuðborginni eða á höfuðborgarsvæðinu. En hann lagði í sjálfu sér ekki nema annað hvert spil á borðið.

Samt reikna ég með að einhverjum hafi þótt innlegg bláklædda mannsins bera vott um lærdóm og innsæi í fjármál þjóðarinnar og það svo að öðrum sé það hulið sem hann sér greinilega. Hann vitnaði í nokkra fræga hagfræðinga máli sínu til stuðnings og fyrri aðgerðir seðlabanka úti í heimi, aðgerðir sem höfðu lukkast ljómandi vel.

Það var vetur. Ég fór ekki út úr húsi án mannbrodda. Ekki það að ég sé gömul þótt ég sé komin á eftirlaun, ég fer mér bara hægt og varlega. Þetta var einhver harðasti vetur síðan loftslagahlýindin hófust. Frost og mikill snjór. Þeir segja í fjölmiðlunum að kaldur pollur geti myndast yfir Íslandi. Eitthvað minnti mig á hvernig við verjumst erfiðleikum og hvernig hestar standa í höm. Snúum við ekki bakinu í veruleikann? Verðbólguna, kuldann og myrkrið, eða á ég að nefna úr­ræða­leysið?

Faðir minn, móðurafi vara-seðlabankastjórans, var kommúnisti og var í ellinni stoltastur af því að hafa setið inni eftir NATÓ-slaginn 1949. Ég sá hann samt ekki fyrir mér, hann las mikið, allar bækur Máls og Menningar, og var lítið fyrir átök. Mig langar líka stundum til að taka virkari þátt í heiminum og gera hann enn betri. Það er svo sjálfsstyrkjandi að hafa jákvæð áhrif á líf annarra. Á sína vísu var faðir minn sundurgerðarmaður í klæðaburði, svört spaníólan sem hann gekk með var einkennismerki þeirra sem stóðu vinstra megin.

Hann, eins og sonur minn, vissi hins vegar sitt hvað um hagfræði þótt hann væri verkamaður allt sitt líf. Að minnsta kosti fyrir sig. Sonur minn hafði hins vegar verið hálfgert efnahafsundur áður fyrr og gengið hratt upp stigann. Kannski voru þeir líkir eða áttu þeir ekkert sameiginlegt, kannski voru þeir andstæðir pólar, ég hef aldrei sett mig inn í það.

Pabbi vara-seðlabankastjórans var ekki eins ákveðinn í hagfræðinni, hann var vöru­bílstjóri. Dó fyrir fjórum árum, skyndidauða, varð allt í einu allur. Hann féll við hérna út á planinu, en áður en hann gekk að blokkinni okkar hafði hann lagt bílnum í stæði sem hann notaði í næstu götu. Alltaf hirðusamur. Hann skildi við í sjúkrabílnum, ég hélt í höndina á honum og í bríkina á börunum og beygði mig alveg niður að honum. Það var ekkert til nema við. Hann sagði ekki neitt.

-Ég verð alltaf með þér, sagði ég.

-Og ég er þakklát þér fyrir allt og allt.

Hann horfði á mig þangað til augun hættu að hreyfast.

Svo seldi ég vörubílinn. Andvirðið er í einkahlutafélaginu, ekki þarf ég á því að halda, en hver veit nema það komi sér vel síðar. Félagið keypti verðbréf eins og sonur minn ráðlagði mér að gera og svo lét ég flytja það á hans nafn. Félagið heitir Kranabíllinn, ekki vegna þess að minn maður hafi átt kranabíl, heldur hitt, að hann dreymdi alltaf um að verða kranabílstjóri. Því fylgdu öðru vísi verkefni, þeir voru ekki háðir öðrum tækjum en gátu hjálpað sér sjálfir – og taxtinn var annar og hærri. Kranabílstjórarnir fengu oftar en aðrir fasta samninga, til dæmis við byggingaverktaka. En kranabílarnir sjálfir voru dýrir, ekki síst frá MAN. Hann hefði aldrei keypt annað.

En þessi draumur um rauða kranabílinn varð ekki að veruleika. Fyrir nokkrum árum stóðu þau kaup samt til, þegar hann seldi bíl sem var byrjaður að slitna. Einmitt þá missti stöðvarfélagi hans heilsuna, hann átti vel með farinn þriggja hásinga bíl. Hann vildi endilega selja mínum manni hann – á góðu verði. Og hvorugur þeirra gat hugsað sér að bíllinn lenti í röngum höndum og að horfa upp á hann eyðileggjast. Það er misjafn sauður í mörgu fé.

Þannig frestaðist að fá sér krana­bíl þangað til næst, og tíminn myndi gefa ný tækifæri. Ef maður lærir á tímann getur maður allt. En svo hætti tíminn að koma til hans og þar með opnast engir nýir möguleikar framar.

II

Eftir Kastljósið sat ég sem steinrunninn í gula stofusófanum. Ég slökkti á sjónvarpinu, en stillti ekki á Endurómur úr Evrópu eins og ég geri venjulega á kvöldin. Ég mátti ekki láta áhyggjurnar af syni mínum eyðileggja líf mitt. Hvað hefði faðir minn annars sagt? Þegar hann var ungur var ekkert húsnæði að hafa í Reykjavík. Það var fyrir daga Breiðholtsins. Hann sagði oft frá vist fjölskyldunnar í kjöllurum þar sem flæddi í rigningum og frá lekum risum. Svo var ekkert öryggi, fjölskyldan var sífellt að flytja. Þá var fátæka fólkið í mansalsaðstöðu, sérstaklega konurnar. Nákvæmlega það var kannski komið aftur.

Ég sá útundan mér að dúkurinn sem mamma heklaði og sat stífur á sófaborðinu var farinn að slitna. Ég vissi það svo sem fyrir, en hafði ekki hugsað mér að skipta um dúk. Er ekki samhengi í lífinu? Það eru hérna nokkrir hlutir úr æsku minni.

Hvernig maður er það sem kemur fram í sjónvarpi og segir þjóðinni að hann ætli sér að ganga gegn þeim sem eru að hefja lífsbaráttuna með tvær hendur tómar? Hann hækkaði ekki róminn, heldur mælti fram eins og hann væri að tala um garðyrkju, allt lyti óhjákvæmilegum lögmálum náttúrunnar; að matarverð yrði að hækka, að öll verð myndu hækka.

Ég fór fram og fékk mér te. Fór svo aftur inn í stofu og settist nú í gamla hægindastólinn, hann er þægilegri en sófinn þegar manni er órótt. Ég gaf brjóst í þessum stól.

Tilgangurinn virtist einvörðungu sá að launafólk keypti minna og einkum og sér í lagi, keypti minna af húsnæði? Hvað annað getur hangið á spýtunni, nema auðvitað að verja félagsmálaráðherrann og Reykjavíkurborg ásökunum um að tryggja ekki húsnæði fyrir ungt fólk, tekjulítið fólk og fólk utan af landi sem þarf að flytja suður vegna vinnu eða sjúkdóma. Og svo útlendingarnir sem hópast hingað til að vinna, þeir þurfa líka húsnæði. Hvar á allt þetta fólk að búa? Skilja mátti orð vara-seðlabankastjórann sem svo að yfirvöld þyrftu ekkert að byggja úr því hann hefði útilokað að þetta fólk gæti keypt sér húsnæði yfirleitt.

III

Ég veit ekki hvernig ég bægi þessari skömm frá fjölskyldunni. Hvernig lenti hún þarna megin við borðið? Ég hlýt að hafa brugðist í uppeldi sonar míns, af hverju varð hann efnahagsfauti? Ég hef gert eitthvað vitlaust, en ekki pabbi hans því hann var alltaf að keyra. Ég yrði að reyna að rétta hlut fjölskyldunnar, það yrði síðasta verkið mitt í uppeldismálunum. Kannski doktorsprófið mitt. Doktorspróf er æðsta viðurkenning sem mennta- og menningarstofnanir veita, vottorð um heiðarleika í vinnubrögð­um, sagði eiginmaðurinn þegar hann kom frá doktorsútskrift sonar síns töluvert upp tendraður. Ég svaraði honum ekki.

Heiðarleiki, hvenær er maður heiðarlegur, er það þegar maður vitnar rétt í náungann, segir satt eða þegar maður gerir eitthvað rétt? Ég hefði haldið allt af þessu.

Ég hef séð að það tekur allt að tvö ár að skipta um sjálfsvitund og afstöðu til lífsins og annarra manna. Til að hætta að vera áfengissjúklingur eða læknast af geðveiki. Kannski tvö ár.

Til að ná hárri prófgráðu í uppeldisfræði þarf maður að vera í handabandi við tímann. Ekkert fer vel nema í fylgd hans. Það krefst þolinmæði. Allt líður áfram og flest líður frá.

IV

Einu sinni um ævina hef ég sagt syni mínum hvað hann ætti að gera. Það var eftir stúdentsprófið. Ég valdi tækifærið af kostgæfni þegar þögn myndaðist við borðið okkar, í úrskriftarmáltíðinni á Grillinu. Við sátum við gluggann og hvítir dúkarnir gerðu allt sparilegt. Orð hafa aðra vigt í fallegu umhverfi. Þá sagði ég og beindi orðum mínum að honum:

-Ég hef verið að hugsa um framtíð þína og er ekki viss um að háskólanám eigi vel við þig.

Það varð þögn og ég horfði út á Flóann og lét eins og svarið skipti mig engu máli. Svo kom það:

-Nú? Ég ætla að sækja um í hagfræðinni.

Ég leit fast á hann.

-Ég held að betra sé að þú veljir sama starf og faðir þinn. Þú þekkir það, þú varst alltaf í bílnum hjá honum.

-Að ég verði bílstjóri?

Ég hikaði og lét andartaks þögn vinna með mér. Ég strauk dúkinn hægt og sýndi með því hvað ég var hugsandi og yfirveguð. Svo sagði ég með áherslu:

-Já, að þú gerðir þjóðfélaginu gagn. Það hefði faðir minn, afi þinn, viljað. Byggðir landið upp. Það eru nógir um hið gagnstæða.

Hann leit niður fyrir sig, hann var vanur að gera það sem ég sagði honum. Svo herti hann upp hugann, en horfði þó ekki í augun á mér og sagði:

-Ég skal fara í meiraprófið. Lengra geng ég ekki.

Í fyrsta skipti sá ég föður minn í honum. Ég myndi ekki ná meiri árangri í bili. Kannski aldrei. Vissulega fór hann í meiraprófið, en líka í hagfræðina og var svo ákveðinn í að verða hagfræðingur að hann hætti ekki að læra fyrr en hann komst á endastöð. Þá var hann orðinn doktor frá London School of Economics. Hann bauð okkur föður sínum í útskriftina, en ég átti ekki heimangengt.

Ég hafði hugsað mér að sonur minn tæki við af föður sínum. Hann hefði getað látið drauminn um kranabílinn rætast. Pabbi minn hefði auðvitað stutt mig, hann hefði aldrei fallist á að barnabarn hans gengi í lið með auðvaldinu.

Vörubílstjórar hafa það gott ef þeir skulda ekkert og komast hjá því að eiga nokkuð saman við bankana að sælda. Smám saman hafði einka­­hlutafélagið komið sér upp eigið fé sem fór langt í að nægja fyrir nýjum vörubíl. Við eyddum litlu. Minn maður lifði hrunið vel af og þurfti ekki að selja bílinn sinn til Hollands fyrir lítið eins og kollegarnir, því hann skuldaði ekkert. Hann hafði vissulega lítið að gera, en nóg fyrir okkur.

Sonur minn varð sem sagt ekki vörubílstjóri. Börnin ganga þvert gegn því sem foreldrar þeirra vilja. Það eru bara annarra manna börn sem kunna að meta orð manns.

Dóttir Jórunnar á neðri hæðinni var efins um nýjan kærasta. Hún leitaði til móður sinnar sem ekki var heldur ánægð með hann; hann var líka ómögulegur. Ég sagði við Jórunni:

-Taktu hann í guðatölu, hældu honum og leitaðu eftir félagsskap hans.

Ég vissi að þá myndi dóttirin skila honum til móður hans, þar átti hann heima allan tímann.

En hvað gerði Jórunn? Hún fór að munnhöggvast við verðandi tengdason sinn og talaði illa um hann við alla, ekki síst dóttur sína. Og hélt víst að hún væri stuðningur við hana, og hún myndi í framhaldinu losa sig við hann.

En það var eins og við manninn mælt, samband dóttur­innar við þennan mann stórbatnaði og þau giftu sig. Upp frá því hafði hún nýja eiginmanninn í sérstöku uppáhaldi og sá ekki sólina fyrir honum. Hins vegar heimsækir hún móður sína sjaldan, hringir sjaldan, og hann sést aldrei nálægt blokkinni okkar. Þau eiga tvö börn sem Jórunn þekkir varla og það sárnar henni mest.

Þetta var eins fyrirsjáanlegt og verða má.

V

Hann hringdi í mömmu sína í gær. Ég var að baka. Sagðist ætla að líta við með vinkonu annað kvöld. Þetta kom mér ekki alveg á óvart. Á háskólaárunum flutti hann að heiman og ég hef ekki fylgst grannt með lífi hans, en samt heyrt í honum af og til; móðir og sonur, það vita allir hvernig það er. Ég hafði þóst vita hvað var í gangi, eitthvað mikilvægt tók tíma hans og athygli. Ekkert er eins tímafrekt og ástin.

Ég sagði honum að ég væri í bókaklúbbnum um kvöldið, en léti hann vita hvenær vel stæði á. Ég er ekkert fyrir skyndilegar uppákomur og hafði ekki hugsað mér að eyða morgundeginum í tiltekt í íbúðinni.

Það var svo fyrir tilviljun að ég mætti Jórunni á neðri hæðinni í anddyrinu þar sem hún stóð og gat ekki fundið lyklana sína. Henni var mikið niðri fyrir, svo mikið að hún átti erfitt með andardrátt. Hún gusaði út úr sér að verðandi tengda­dóttir mín væri á netinu. Flýtti sér svo að leiðrétta sig og sagði vinkona sonar míns. Samband þeirra hjónaleysanna var greinilega á almanna­ vitorði.

Ég bauð henni í kaffi, sem hún þáði strax. Fleygði öllu frá sér og kom í kaffi og kleinur, ég átti ekki annað. Ég bauð henni í eldhúsið, þetta var svo lítið formlegt. Þar var heldur ófínt, ég hafði vínildúk á borðinu hversdags.

Hún sagði að stúlkan, sem heitir Blær Ösp Brian, væri á Ónlýfans og gerði það gott. Hefði þúsundir fylgjenda.

-Fylgjendur, hváði ég. -Og hvers vegna?

Ég vissi að til voru áhrifavaldar á netinu, sem hafa þúsundir fylgjenda og nota aðstöðu sína til að auglýsa varning sem gengur illa út annars. Það var nú tæpast fólk af okkar sauðahúsi.

-Af því að hún er svo sjarmerandi, sagði Jórunn.

-Svo það eru áhorfendur, spurði ég þá.

-Já, einmitt. Þeir eru í áskrift og borga.

-Hvað margir?

Jórunn er ekki nákvæmnismanneskja og vissi ekki hvað fylgjendurnir voru margir, en þeir væru margir. Hún vissi ekki heldur hvert mán­að­ar­gjaldið var.

-Kannski fer það eftir aðgangi, þeir fá kannski að ganga misnærri henni, sagði hún.

-Þeir, sagði ég. -Eru þetta bara karlar?

Mér brá nú hálf illa við þessar fréttir. En Jórunn er ekki alltaf nákvæm í frásögnum, þetta þyrfti ég að skoða sjálf.

-Ég reikna með því, sagði hún.

En það var greinilega ekki allt sagt. Eitthvað var eftir, kannski aðalatriðið. Svo ég spurði:

-Er hún að selja eitthvað sérstakt?

Nú færðist Jórunn undan að svara og þurfti allt í einu að fara niður til sín, fatlaður sonur hennar hafði verið skilinn eftir í reiðuleysi í sameigninni. Hún sem var á kaupi frá Borginni við að annast hann.

VI

Ég settist inn í vinnuherbergið og opnaði tölvuna. Skrifborðið var sjálfsagt í rangri hæð og ég hafði, til að draga úr spennunni í öxlunum þegar ég vann við það, keypt hækkan- og lækkanlegan stól. Bókaskápurinn stóð við hliðina, þar voru gömlu Máls og menningar bækurnar hans pabba. Ég sá í kjölinn á Vinstri rótttækni. Ég hafði ekki lesið hana, enginn hafði lesið hana í áratugi og enginn myndi nokkru sinni lesa hafa aftur. Eða var þetta leiðinlega bókin um þýsku sósíaldemókratana? Bækur okkar hjónanna voru inn í stofu.

Ég var orðin forvitin og leitaði á netinu að upplýsingum um Ónlýfans. Komst þá að því að vefurinn var upphaflega fyrir matreiðslumenn sem vildu deila upp­skriftum sínum með öðrum, gjarnan gegn greiðslu og fyrir rithöfunda sem skrifuðu kafla og kafla sem áskrifendur að verkum þeirra greiddu fyrir og lásu af áfergju. Eins og dagblaðaskáldsögurnar hér áður fyrr. En allt er í heim­inum hverfult og ég skildi það þannig að eftir því sem tímar hefðu liðið fram hefði heldur hallað undan fæti fyrir vefnum, svona siðferðilega.

Svo fann ég Blæ Ösp Brian, ég er nú ekki lengur viss um að hún heiti þessu nafni. Kannski heitir hún bara Sigríður eða Jóna. Mér finnst reyndar, eftir á að hyggja, að hún gæti heitið Hólmfríður, eins og þær heita konurnar fyrir norðan. Nema hvað, hún var þarna eins og Jórunn sagði. Það var af henni falleg ljósmynd. Hún hefði samt getað klætt sig meira fyrir myndatökuna og hún hafði engu til sparað í snyrtingu, en var að öðru leyti óaðfinnanleg. Satt að segja var hún munúðarleg og ég undraðist ekki að sonur minn hefði fallið fyrir henni.

Hún var ekki smáfríð og því síður riðvaxin og raunar svo lendamikil að ég hafði ekki séð annað eins. En auðvitað eru sumar konur farnar að bæta við þar sem þeim finnst upp á vanta. Og á öðrum ljósmyndum sá ég að annað var nokkurn veginn í hlutföllum. Hún var mikil kona og minnti á skessuna á Arnarvatns­heiði sem Jón Hreggviðsson glímdi við. Sonur minn hafði ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur. Ég hafði ekki hugsað út í það, en eiginkonur æðstu embættismanna ríkisins eru kannski einmitt svona.

Blær Ösp Brian hafði rúmlega sjö þúsund fylgjendur og eftir nokkra skoðun sá ég að mánaðaráskrift kostaði átján hundruð krónur. Ég fór í reiknivélina sem lá á borðinu við hliðina á mér, vinstra megin því að ég er jafnhent, vél sem ég hafði notað til að gera staðgreiðslu- og virðisaukaskattsskýrslurnar fyrir Kranabílinn. Þessar tölur gefa liðlega tólf og hálfa milljón á mánuði. Svo var hægt að fá samofna áskrift að öllu fyrir 4.200 til viðbótar. Það var áskrift að stuttum hlaðvörpum, djörfum skotum og kvikmyndum. Spurning hvað margir tóku hana. Í henni fólst líka réttur á samtali við Blæ Ösp gegn enn aukalegri þóknun, en tekið var fram að hún setti þeirri þjónustu reglur. Þessi viðbótarþjónusta gæti aukið tekjurnar umtalsvert.

Ég keypti samofnu áskriftina og sagði henni strax upp. Uppsögnin tæki gildi um næstu mánaðarmót.

Svo sá ég hvers lags var. Sonur minn, vara-seðlabankastjórinn, blasti við á kvikmynd. Ég hagræddi skjánum þannig að dagsbirtan endurkastaðist ekki frá honum.

Hann var með grímu og var greinilega að dyljast. En ég þekkti hann. Ég hafði skipt um bleyjur á honum. Hann stjórnaði aðgerðum þar sem hann og tvö vaxtaræktartröll voru að eiga við kærustuna hans. Þetta var greinilega upphafssena að einhverju öðru og meira. Blær Ösp virtist alsæl og hjalaði við karlana.

-Meira þarna, sagði hún.

-Nei, láttu þetta eiga sig, sagði hún við hitt tröllið.

-Já svona, nú ertu alger dúlla!

Mér var svolítið brugðið við þetta, ávallt er sagt að konur í þessum hlutverkum séu neyddar til þeirra. Ég þurfti ekki að sjá meira, ég horfi ekki á svona, en tengdafaðir minn var talinn fjörugur og hefði kunnað að meta Blæ Ösp. Hann yrði dæmdur öðru vísi af samtíðinni nú en þegar hann var og hét, vinsæll kvennamaður með gott mannorð. Hann var heppinn að vera farinn. Sonur minn erfði þetta kannski frá honum, ekki er mitt fólk svona.

VII

Ég lokaði tölvunni og fór út að ganga. Það er oftast þrautaráðið þegar slæmar fréttir hellast yfir mann. Gangstéttirnar höfðu verið ruddar. Ég var ekki í nógu hlýrri kápu, norðanáttin í Reykjavík er eins og hún er, hefur safnað öllum kulda landsins á leiðinni yfir það. Ég var annars hugar og gat af þeim sökum verið sjálfri mér hættuleg á gatnamótum. Sonur minn er líka svona. En sem betur fer er lítil umferð um miðjan daginn.

Nú getur maður spurt sig hvort er verra: að vera efnahagsfauti eða dóni. Ég er fyrir mitt leyti ekki í vafa og ég er á öndverðum meiði við samfélagið sem upphefur þá sem fara með peninga og því meira sem þeir fara með meira, þá verða þeir allra eftirlæti og myndir af þeim og frásagnir af lífi þeirra eru stöðugt í fjölmiðlum. Á tyllidögum tala þeir gjarnan um að kaupið á vinnu­markaði sé of hátt. Hvergi hærra í heiminum! Maður getur ekki annað en ályktað – já, eða jafnvel óskað – að kaupgjald myndi snarlækka. Kannski ækju þeir svo á 25 milljón króna bíl í fylgd ljóshærðra kvenna sem fá sér sjampó í morgunmat, eins og það er kallað.

En þjóðin fyrirlítur dóna og krefst ævilangrar útskúfunar þeirra. Mér finnast þeir þó skömminni skárri.

Sonur minn er hvort tveggja, hann er bæði efnahagsfauti og dóni. Sem er ekki nákvæmlega það sem ég hafði séð fyrir mér þegar hann var yngri. Þessi tvö hlutverk eru þó ef til vill ekki eins ósamrýmanleg og margir halda.

Svo fór ég inn á kaffihús við Laugaveginn til að hlýja mér. Almennilegt kaffihús þar sem bakað var á staðnum. Það var með vínveitingaleyfi – ég ætti kannski að fá mér sjampó eins og verðandi tengdadóttir mín gerir á netinu. En ég lét kakó nægja. Hvað er betra en kakó um vetur?

Það er eitthvað í þessu, eitthvert tækifæri, verkefni sem þarf að leysa. Frændi minn sagði mér í skírnarveislu, hann leiðir tölvufyrirtæki, að það borgaði sig ekki að tölvuvæða fyrr en allir við borðið högnuðust á því. Win-win, sagði hann. Annars færðu einhvern á móti þér og verkefnið forklúðrast.

-Verkefnið þarf að vera fullþroskað, sagði hann, það þarf að vera eins og ostur á fati sem bíður máltíðar.

Ég hló. Að allir við borðið högnuðust, það stóð svolítið í mér, hverjir voru við borðið og hverja ætti ég að leiða að því, þetta var enginn matador, einn mátti ekki vinna hina, allir þyrftu að vinna. Þó það eigi ekki að vera hægt í samkeppnisþjóðfélagi er kannski mögulegt að koma því við. Ef til vill er lífið ekki matador þótt margir haldi það.

VIII

Einhvern veginn atvikaðist það þannig að fjölmiðlarnir komust að því að grímuklæddi maðurinn í kvikmyndunum hjá Blæ Ösp Brian var vara-seðlabankastjórinn. Þannig barst þetta líka til yfirmanna hans, seðlabankastjórans og forsætisráðherrans. Þá krafðist hálft þjóðfélagið þess að vara-seðlabankastjórinn yrði rekinn, hann ákærður fyrir nauðgun og honum komið í fangelsi til langs tíma. Upphafsmaður fréttarinnar naut nafnleyndar, hann hafði séð til þess.

Þegar hér var komið sögu var ég farin að ganga sífellt um gólf, ég var uggandi. Ég var líka alltaf að taka til í skúffum og skápum, verkefni sem höfðu ekki áður höfðað til mín. Þá tók ég upp á því að hringja sífellt í vinkonur mínar. Ég var búin að hringja í allar konurnar í bókaklúbbnum, en ég þekkti svo sem einhverjar fleiri. Ég vissi undir niðri að ég var að leita að slúðursögum. Til dæmis hver hafði kjaftað frá? En auðvitað vissi ég ekki hvort þær væru heiðarlegar við mig.

En þurfti ég að vera uggandi, var þetta ekki laukur sem flysjar sig sjálfur eða sér tíminn um það? Tíminn og eðli mannanna ganga niður stigann hönd í hönd. Niður í kjallara, þar sem er eilíft myrkur og jafnvel vistarverur nagdýra.

Kjallarinn er samt vanmetinn, hann hefur eftir allt jákvæða hlið sem fer fram hjá sumum, frá honum liggja allar leiðir uppá við. Maður fer niður til þess að fara upp. Ég þurfti ekki að gera neitt. Það er kannski versta hlutskiptið, að eiga allt undir því að gera ekki neitt, flestum reynist það erfiðast og geta ekki stillt sig um afleiki.

Yfirmenn sonar míns voru pempíur eins og ég hafði reiknað með, og einn daginn sagði hann mér að hann hefði að eigin ósk gert starfslokasamning við bankann. Hann væri samt óákveðinn í því hvað tæki við.

Mér var létt. Mannorði fjölskyldunnar var frá mínum sjónarhóli borgið, þótt þjóðfélagið væri á öðru máli. Hann ynni að minnsta kosti ekki fleiri efnahagsleg óhæfuverk. Ekki það að félagsmálaráðherrann myndi við brottför hans fyrirskipa byggingu nýs Breiðholts, það myndi hann aldrei gera af því að hann vill bara uppbyggingu úti á landi. Því síður myndi borgarstjórinn í Reykjavík skipuleggja ný hverfi. Hann skipuleggur bara byggð þar sem skólar, sundlaugar og bókasöfn eru fyrir. Af því að uppbygging nútímalegra þjónustustofnana er orðin of dýr. Ný hverfi borga sig ekki, heldur að þétta byggð þar sem fækkað hefur í skólabekkjum. Annars fer sveitarfélagið á hausinn, rétt eins og dæmin sanna.

Nei, það sem gerðist var að einhver annar tók við vara-seðlabankastjórastöðunni, kom fram í sjónvarpi, réttlætti aðgerðir bankans og sagðist vera að bjarga þjóðinni.

En sennilega fengi sonur minn enga vinnu. Og hann myndi aldrei sjá Blæ Ösp Brian aftur. Í þessum efnum báðum gildir lögmálið um rotturnar og skipin.

Því fór sem fór, ég missti tengdadóttur sem aldrei kom í mat til mín heldur fór hún í mál við son minn fyrir nauðgun og tælingu og fyrir að Skatturinn hóf rannsókn á starfsemi hennar eftir að athæfi þeirra komst í hámæli, það var sem sagt syni mínum að kenna. Lögfræðingur hennar krafðist skaðabóta af bandarískri stærðargráðu. Skólabræður sonar míns vörðu hann, en ég var ekki viss um nema Blæ Ösp hefði gengið af sjálfsdáðum út á þunnan ís Ónlýfans. Ég sá á vefnum að hún notaði hina opinberu umræðu til að fjölga áhorfendum sínum.

Ég á eftir að lesa eina af jólabókunum og ætla að drífa í því meðan þetta gengur yfir. Hún er víst ekki góð. En ég hef í sjálfu sér ekki með þessi mál sonar míns að gera.

IX

Svo fór hann að heimsækja mig reglulega. Í heilt ár heimsótti hann mig í hádeginu á mánudögum og þáði uppáhaldsréttina sína úr æsku. Ég fann að honum var hlýtt til mín og þessar stundir voru mér mikils virði. Við borðuðum við borðstofuborðið og notuðum silfrið. Ég sagði honum að ég gerði þetta að gamni mínu eða af fordild; ég er líka með tau servíettur og hvítan dúk með útsaumi. En í raun og veru býr kannski annað undir. Getur maður haft samviskubit þegar maður hefur gert það sem er rétt?

Hann hafði víst sótt um 170 störf innan lands og -utan, en enn sem komið var lét hann engan bilbug á sér finna.

-Utanríkisráðherrann vill ekki borga með mér í góða stöðu hjá Sameinuðu þjóðunum eins og hann gerði fyrir fyrrverandi ráðherra, sagði hann.

Utanríkisráðherrann var feitur húmoristi sem ekki átti erindi í pólitík.

-Og lægri stöðurnar, sérfræðingastöðurnar, fæ ég ekki af því að ég er of menntaður og of reynslumikill, bætti hann við. -Ég passa nefnilega í seníor-stöðu eða dírektör-stöðu. Þær ráða Sameinuðu þjóðirnar oftast í eftir þrýsting frá ríkisstjórnum. Meðlag fylgir gjarnan. Annars ráða þeir eigin menn í þær stöður, from roster, eins og það heitir.

-Það er leiðinlegt að heyra, svaraði ég.

-En ég er þó með góð meðmæli frá bankanum og staðan þar er í sjálfu sér fínn stökkpallur.

Nú sagði ég ekkert.

Ég sagði svo sem sárafátt um þessi mál hans, en reiknaði með að hann hefði gert tólf mánaða starfslokasamning. Nú væri hann orðinn launalaus. Það er við þær aðstæður sem í ljós kemur hvaða mann fólk hefur að geyma.

Svo kom aftur vor. Það blómstraði allt í garðinum, blokkin mín er með fallegan og vel hirtan garð, nema hvað hundarnir á jarðhæðunum skíta í hann. Þó ekki þeir sem éta úr sér.

Smám saman hætti hann að koma, það var greinilega eitthvað að. Húsið hans á Seltjarnarnesinu var auglýst til sölu í Morgunblaðinu. Hann sagði mér ekki frá sölu hússins og ég þóttist ekki vita um hana. Einhver sem hafði handbær ævilaun verkamanns, fjörutíu árslaun, myndi kaupa það. Stórar eignir seldust nefnilega þrátt fyrir aðgerðir Seðlabankans.

X

Nú er sumarið liðið og veturinn er að nálgast. Laufin eru lamin í hrúgur í götusteinunum og garðurinn eins og í órækt. Garðyrkjumennirnir hættu of snemma að slá, grasið var örlítið úr sér sprottið. Það kæmi sina í vor, en ekki mikil. Ég er fyrir löngu hætt að fara út á svalir með kaffibolla.

Ég var eiginlega búin að gleyma þessu leiðindamáli sonar míns og opinber umræðan snerist um allt annað, hafi reyndar gert það fljótt; sennilega mundi enginn eftir hneykslinu lengur. Ég saknaði sonar míns og vildi fá hann reglulega í mat aftur. En það gerðist sjaldan, en þegar það gerðist sá ég að af honum var dregið, atvinnuleysið seig í. Samt held ég að hann hafi ekki verið á vonarvöl.

Einn daginn átti ég leið um Sæbrautina og sem ég hafði stöðvað á beygjuakreininni suður Snorrabrautina mætti ég nýjum skínandi rauðum fjögurra hásinga kranabíl. Frá MAN. Með stóran hlut á pallinum, kannski var þetta tíu tonna mótor, lyfturnar á þessum bílum voru orðnar svo öflugar. Sonur minn var undir stýri, hann var að aka austur eftir og keyrði varlega eins og pabbi hans, hafði útvarpið sennilega í gangi og naut þess að hafa fimmtíu þúsund á tímann. Tvöfalt kaup miðað við vara-seðlabankastjóra.

Nú var uppeldishlutverki mínu lokið og mér leið vel. Ég var kannski svolítið upp með mér eftir að hafa haldið að mér höndunum í eitt og hálft ár og horft á allt fara eins og ætlað var. Mig klæjaði í fingurna að hagræða einhverju betur. Svo við orðum það öðru vísi, að draga fleiri að matador-spilinu þar sem allir spilararnir vinna.

Úkraínska stúlkan sem þreif hjá mér bjó við hörmulegar aðstæður í einhverri skemmu í iðnaðarhverfi. Ég bauð henni að flytja í forstofuherbergið mitt með dóttur sína. Það er rúmgott og ég myndi þola hana í eldhúsinu, hún er þannig. Hún myndi greiða leigu með þrifunum. Hún var svo lítillát að þiggja það. Þetta var samt til bráðabirgða. Stúlkurnar frá Úkraínu eru sumar hverjar gullfallegar, mér fannst mín ein af þeim. Hún var pínulítið freknótt og ljósrauðhærð, með blá skínandi og greindarleg augu sem gátu verið bæði glettin og alvarleg og hún hafði góðan líkama. Hún var hámenntuð, en fékk menntun sína ekki metna hér á landi.

Hún hafði lítið upp úr sér með stopulum skúringunum þar sem hvert undirboðið frá fátækum konum rak annað; þurfti að hafa meira upp úr sér og koma sér betur fyrir, auðvitað var hún í sjálfheldu fjárhagslega.

Ég hringdi í Sigurjón, framkvæmdarstjóra vörubifreiðastöð­var­innar, sem hafði verið mikill vinur eiginmann­s míns og veiðifélagi.

-Ég velti því fyrir mér hvort þig vanti ekki góða skrifstofustúlku, spurði ég.

-Hvað ertu að hugsa um, svaraði hann.

-Það býr hjá mér úkraínsk stúlka sem hefur lært íslensku. Hún er samviskusöm og ég held að hún læri allt á augabragði. Hana vantar góða atvinnu. Ég gef henni mín bestu meðmæli.

Svo bætti ég við:

-Maður þekkir gott fólk þegar maður sér það.

Ég vissi að Sigurjón treysti mér í þessu efni sem öðrum. Hann er vanur að gera allt fyrir mig.

-Jæja, svaraði hann.

Hann sagði ekkert frekar, hann er þannig. Morguninn eftir hringdi hann og spurði hvort úkraínska stúlkan gæti komið eftir hádegi. Hann vantaði góðan bókara, það var alltaf hali í skráningunni og strákarnir óánægðir og hættir að treysta henni.

-Það er urgur á stöðinni, fjármálin eru undirstaða alls. Og ef hún er eins góð og þú segir á hún kannski framtíð fyrir sér hérna.

Það er enginn frjáls á Íslandi sem ekki á skuldlausa íbúð. Að öðrum kosti er hann á vergangi leigumarkaðarins, sem er mér einhvers konar framandi víti – eða ef hann kaupir, þá getur hann misst allt sitt hvenær sem er. Það má breyta öllum forsendum lántöku, ef og þegar ríkisstjórnin og seðlabankastjórnin vill að peningamenn eignist íbúðarhúsnæðið. Svo má spyrja sig hvernig fólk í hálfgerðum mansalsaðstæðum eigi að haga lífi sínu. Ég skipti mér ekki af því. Verður ekki hver að bjarga sér?

En ég fyrir mitt leyti bauð úkraínsku stúlkunni á myndlistarsýningu á Kjarvalsstöðum og sagði henni gleðifréttirnar. Þar er gott úrval af kökum. Hún fengi fasta vinnu á fjörugum vinnustað. Þetta væri gott tækifæri. Hún skilur hversu erfitt er að komast upp úr því að vera fátækur á Íslandi, hún þekkir það líka að heiman.

Svo benti ég henni sérstaklega á son minn og sagði að hann vantaði góða konu. Og nefndi í framhjáhlaupi, og horfði í augun á henni, að hann hefði vit á peningum, það hafa ekki allir á þessari stöð.

-Svo gæti hann kannski kennt þér að vinna þér eitthvað inn með aukavinnu. Hann hefur gert það áður fyrir aðra konu. Öðru vísi munt þú aldrei eignast neitt.

Svo gengum við heim á leið.

En hvað er ég að masa? Mér er ekki til setunnar boðið, Jórunn er að koma í kaffi. Ég bakaði ekki, en keypti köku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *