Hvað og hvernig viljum við borga fyrir akstur yfir Ölfusárbrú?

Í sókn sinni eftir fé hefur hið opinbera tekið upp gjaldtöku hér og þar. Tilgangurinn með heimildinni til gjaldtöku var að ríkið gæti rukkað fyrir ljósritun vottorða og þess háttar, en hið opinbera yrði rekið fyrir skatta af öllu tagi og útsvar. Nú eru gjöld hins vegar tekin hvarvetna og var mér gert að greiða um 30 þús. kr. á Bráðamótttökunni á s.l. ári (fyrir öryrkja, atvinnulausa, eldri borgara á lágum lífeyri og námsmenn er það jafn hátt hlutfall af tekjum og 200 þús. fyrir þingmann).

Svo langt nær græðgi hins opinbera að heilar stofnanir eru nánast fjármagnaðar með gjöldum, s.s. Þjóðskrá og Samgöngustofa. Mér vitanlega hefur aldri reynt á það fyrir dómi hvort heimild hins opinbera til að krefjast gjalda gildir fyrir heilar stofnanir. Ef svo er, gæti heimildin líka gilt fyrir heil sveitarfélög eða jafnvel ríkið í heild. Skattar og gjöld voru einu sinni sitt hvað, er eru nú nokkurn veginn það sama.

Þó ekki alveg – skattur tekinn með gjöldum leggst bara á þá sem njóta þjónustunnar og gjöld eru jafn há fyrir alla – eru ekki þrepaskipt eins og tekjuskattur.

Svo, hvað og hvernig viljum við greiða fyrir að aka yfir Ölfurárbrú? Rökstyðja má að sú greiðsla sé skattur og innviðir séu verkefni ríkisins, þótt veggjöld þekkist erlendis, einkum í Vesturheimi þar sem samneysla er lítil.

[Áður en lengra er haldið vil ég minna á það sem ég skrifaði í gær um að við séum of fá til að halda uppi sama þjónustustigi á öllum sviðum og nágrannaríkin. Nú þegar skattleggur hið opinbera – sennilega, ef allt er tekið saman s.s. lífeyrisgreiðslur – mikið meira en ríkisvald í nágrannaríkjunum – og mikið meira þarf til (vegna þess að við komum hvergi við stærðarhagkvæmni, allt borgar sig upp svo hægt og sumt aldrei).]

Við höfum þrjár leiðir til að skattleggja með gjöldum:

1. Að allir greiði jafnt, sem er algengast (t.d. bílastæðagjöld, gatnagerðargjöld og gjöld til flestra ríkisstofnana.)

2. Að greiðslur hækki í þrepum, eins og er varðandi lyfja- og sjúkrakostnað. Þeir sem njóta þjónustunnar minnst borga þá fullt gjald, sem svo fer fallandi með aukinni notkun.

3. Að greiðslur séu misháar í öfugu hlutfalli við tekjur. Hliðstæð leið er farin hjá Tryggingastofnun, þar sem stofnunin fær upplýsingar frá Skattinum og hækkar eða lækkar greiðslur í takt við það.

Ég velti því líka fyrir mér hvort rétt sé að greiða fyrir einstök mannvirki í samgöngukerfinu, hvort ekki ætti að greiða fyrir notkun þess yfirleitt; að allir greiði. Gjöld á einstök mannvirki falla aðallega á ákveðna hópa – akstur um Ölfursárbrúna félli á heimamenn, sumarbústaðaeigandur og svo hina lítið nýttu auðlind – ferðamenn. Vaðlaheiðargöng eru aðallega skattur á Þingeyinga o.s.frv. Því vil ég að gjald sé tekið af öllum bifreiðaakstri.

Ég tel ekki rétt að fara gjaldaleið 1. Hún mismunar fólki verulega eftir tekjum. Leið 2 er hins vegar heppileg. Ferðamenn myndu alltaf greiða fullt gjald af því að þeir eru stutt í landinu, en þeir sem aka mikið um þjóðvegina myndu greiða fallandi gjöld – eftir því hvað þeir ækju mikið. Þriðja leiðin væri svo heppileg til viðbótar og gæti gengið með leið 2, þ.e. að gjöld séu eftirá lækkuð á þá sem hafa litlar tekjur (endurgreiðslur). Ekki væri samt ástæða til að hækka gjöld á tekjuháa eftirá. Það samrýmdist kannski ekki meðalhófi.

Þá erum í raun og veru að tala um skatt með þrepaskiptingu – sem bara félli á notendur þjónustunnar.

Hvað segið þið um þetta?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation