Facebook-færsla.
Við erum of fá. Of fá til að halda uppi nútíma samfélagi með sömu lífskilyrðum og sama opinbera réttlætinu og nágrannaríkin. Enda þótt þetta sé óhrekjandi staðreynd liggur hún ekki til grundvallar opinberri stefnumótum eða er grundvöllur samfélagslegra ákvarðana.
En er ekki eðlilegt að sama hlutfall af þjóðartekjum gangi til opinberrar þjónustu hér og annars staðar – þurfum við ekki bara öflugra og gjöfula atvinnulíf? Svarið er – enda þótt við þurfum vissulega gjöfult atvinnulíf – við erum alltaf undir þegar kemur að stærðarhagkvæmni. Kostnaður okkar pr. íbúa verður alltaf mikið hærri en í nágrannaríkjunum. Og við höfum engan – ekkert ESB eða Bandaríkin – til að greiða fyrir lífskjör hér. Og við viljum það ekki.
Um 200 þús. manns greiða tekjuskatta. Það er ekki nóg. Ekki bara af því að landið er stórt – heldur vegna þess að við viljum hátt þjónustustig. Gagnvart börnunum okkar, eldra fólki, sjúku o.s.frv. Líka gagnvart atvinnulífinu, stjórnsýslunni, stjórnmálunum og félagslífinu. Til þess að svo megi verða þurfum við vel reknar, nútímalegar stofnanir af öllum gerðum; þjónustustofnanir, rannsóknarstofnanir, eftirlitsstofnanir o.s.frv. Hvernig ætlum við að fjármagna þetta allt?
Þá er ég ekki farinn að spyrja: Hvernig ætlum við að manna þetta allt? Hvað þurfum við hátt hlutfall þjóðartekna til að standa undir því opinbera kerfi sem er hliðstætt þeim sem rekin eru í nágrannaríkjunum? Og þegar við erum búin að manna allar stofnanirnar – hvað verður þá margt fólk eftir til að búa til þessar óhjákvæmilegu þjóðartekjur?
Til þess að þetta dæmi gangi upp þarf samvinnu. Ekki er endilega víst að dæmið gangi upp, við gætum orðið að dragast aftur úr – en við þurfum örugglega að leita til auðlindanna okkar til að svo verði ekki – og við erum svo heppin að eiga að mestu leyti endurnýjanlegar auðlindir. Þá komum við alltaf að – að því er virðist vegg – sem er samvinna.
Hvaðan getum við fengið tekjur?
———————————-
Fleiri þurfa að koma að skattgreiðslum en þessir 200 þús. skattgreiðendur. Við erum að tala um atvinnulífið, við höfum ekkert annað. Eða á ég að segja auðlindirnar, það er kannski réttara. En greiðslurnar hljóta að falla á viðfang atvinnulífsins. Ferðamenn þurfa að greiða meira, meira þarf að greiða pr. lax sem hér er alinn, meira á veiddan fisk, meira á heitt vatn og gufu, meira á útflutt vatn, fallvötnin þurfa að gefa meira, vindurinn meira, sólin meira – gjöld af þessu þrennu síðast nefnda yrðu væntanlega á rafmagn.
En gjöld og skattar á atvinnulífið – auðlindagjöld – geta ekki orðið nema sem nemur því sem þau ráða við. Af því að þegar upp er staðið er allt atvinnulíf á einhvern hátt í samkeppni við erlenda vöru og þjónustu. Við þurfum að finna þetta jafnvægi milli hæfilegrar gjaldtöku af atvinnulífinu og þess að þrautpína það ekki – að rýja, en ekki að flá.
Hvað höfum við meira til að skapa velsæld? Við getum stækkað kökuna, eins og sagt er. Við getum virkjað fleiri fallvötn og læki, við getum líka virkjað á fleiri sviðum, t.d. sjávarföll, sól og vind. Við getum flutt út meira vatn og við getum breytt raforku í útflytjanlegt vetni – alla vega þannig að við þurfum ekki að kaupa jarðefnaeldsneyti. En þá bregður svo undarlega við – að oft á tíðum sama fólkið og krefst þess að við búum við sömu skilyrði og nágrannaþjóðirnar, í launum sem öðru – krefst þess að við nýtum ekki auðlindirnar. Vilja velferð á Íslandi án auðlindanýtingar. En sumir sjá mótsögnina í þessu og vilja einfaldlega að við göngum til baka og minnkum neyslu og velferð.
Þá er ég ekki farinn að tala um menningu. Það er sjálfsagt hægt að láta hana taka þátt í samfélagslegum kostnaði – en hún hefur samt ekki reynst gjöful auðlind. Hún gefur fyrst og fremst á annan hátt. Þá er ég ekki heldur farinn að tala um menntun. Ekki heldur vísinda- og rannsóknarstarfsemi – sem eins og menntun og menning þarfnast til skamms tíma opinbers fjár – en dæmið snýst við þegar litið er fram á við.
En förum ekki fram úr okkur. Við getum ekki nýtt óendurnýjanlegar auðlindir til að greiða daglegan rekstur samfélagsins. Þá yrðum við að fara að dæmi Norðmanna varðandi olíuna. Við getum að minnsta kosti ekki flutt út fjöllin – þó einhver geti sagt að þau endurnýji sig á endanum á eldfjallaeyju. Sama gegnir um möguleg jarðefni.
Samvinna atvinnulífs og stjórnmála.
————————————-
Sósíaldemókratar á hinum Norðurlöndunum drápu þjóðlífið úr dróma með samvinnu sterkra verkalýðsfélaga við atvinnulífið. Stjórnmálin, verkalýðsfélögin og atvinnulífið gengu í takt við að greiða fyrir nútímasamfélögum. Svo langt gekk stéttasamvinnan að fræðimenn hafa talað um nýja korporatívismann, ekki síst í Svíþjóð – sem þó var ekki síst vígi sósíaldemókratanna.
Til þess að þetta gangi þarf ábyrg, raunhæf stjórnmál sem stefna hátt, samfélagslega ábyrgt atvinnulíf og ábyrg stéttarfélög. Hvernig er þessu farið hér á landi? Enginn vafi er á því að verkalýðsfélög og atvinnulíf er hvort tveggja samfélagslega þroskaðra en áður fyrr og stefnumörkun og siðareglur félaga og stofnana eru t.d. til marks um það. Þá höfum við nú fengið framfarasinnaða ríkisstjórn sem horfir hátt – og erum blessunarlega laus við Framsóknarflokkinn, Sjálfstæðisflokkinn og Vg – varðstöðuflokkana um ákveðna, gamla hagsmuni, sem eru þjóðfélagslega óhagkvæmir.
Er staðan þá ekki góð þótt skilning vanti á þörf fyrir aukið opinbert fé?
——————————————————————————-
Það er ekkert spennandi fyrir okkur að skattleggja allt og alla eins og mögulegt er til að halda uppi nútímalegum lífsskilyrðum. En það er óhjákvæmilegt. Við erum með aðila sem gætu axlað ábyrgð – spurning hvað ferðaþjónustan er tilbúin og spurning hvað sjávarútvegurinn er tilbúinn og spurning hvort við viljum að firðirnir, sjórinn, hreina vatnið, lækir, fljót, vindur og sól leggi mikið fram – en við erum líka með ábyrgðarlausa aðila sem stofna gervistéttarfélög og stunda jafnvel mansal til að auka tekjur sínar.
Þetta er undir nýju ríkisstjórninni komið.
—————————————–
Við bíðum eftir að sjá hvort nýja ríkisstjórnin segi okkur satt um kostnaðinn við rekstur nútímasamfélags. Við bíðum þó ekki síst eftir því að hún eignist vini. Hjá atvinnulífinu og stéttarfélögunum. Eignist vini og leiði atvinnulífið til ábyrgðar við rekstur samfélagsins með hæfilegri skattheimtu. Allt lítur það vel út, jæja, ekki allt (reynum að gleyma atvinnuveganefnd Alþingis, sem virðist ætla í stríð við þann atvinnuveg sem gefur okkur mest).
Við þurfum að snúa því við að norskir, íslenskir og annarra þjóða framkvæmdamenn líti á Ísland sem auðvelt skotmark fyrir auðfenginn gróða. Við þurfum gjald fyrir firðina okkar – eins og hér hefur verið rakið. Af því að hér er ekki bara lítið hagnýtt land – hér býr líka þjóð. Hún á landið og miðin, auðlindirnar – og hún á réttmæta kröfu á því að þær séu hagnýttar í hennar þágu.