Lýðræði og einn vilji (13.01.2022)

Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.

—–

Við skulum hlýða Víði á hættustund, en til lengdar þurfum við að eiga gagnrýnin skoðanaskipti. Einn vilji er einkenni verstu þjóðfélaga síðustu aldar.

Fyrir nokkrum árum tók ég þátt í kosningaeftirliti í Aserbaídsjan með rannsóknarteymi ÖSE. Meðal athugunarefna var áhrif stjórnarandstöðu á skoðanamyndun í aðdraganda kosninganna. Tvennt var talið ámælisvert af ÖSE: Að mótframbjóðendur forsetans voru sammála honum og stefnu hans í mikilvægustu málum (annars beið þeirra fangelsisvist) og að forsetinn og fylgismenn hans réðu lögum og lofum í fjölmiðlum.

Þessi aðstaða nægði til að forsetinn var endurkjörinn og fékk yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Hlutverk stjórnarandstöðu

Það kýs nefnilega enginn stjórnarandstöðu sem mærir forystu valdstjórnarinnar. Til þess að stjórnarandstaða taki völdin þarf hún að sýna fram á og ná þeirri sýn að stefna ríkisstjórnarinnar í mikilvægustu málunum sé röng og þjóðinni ekki til heilla – og ekki síður hitt, að hún bjóði betur.

Þá er það lýðræðislegt hlutverk stjórnarandstöðu að standa fyrir málefnalegri og gagnrýninni umræðu í samfélaginu og fer það saman við hlutverk fjölmiðla sem er m.a. á því sviði. Skoðanaskipti og skoðanaátök eru grundvallaratriði í lýðræðinu og skilgreina það.

Einn vilji

Því er þetta rifjað upp að nú eru nánast tvö ár síðan þjóðin hóf að hlýða Víði, sem var eðlilegt á hættustund, þá verða allir að hjálpast að – en segja má að hættustundin hafi verið framlengd enda þótt ógnin hafi dofnað verulega. Að lúta einum vilja er andstætt einkennum lýðræðis.

Kannski var helsti lærdómur okkar af átökum ólíkra hugsjóna á síðustu öld að sú samfélagsgerð sem byggist á einum vilja felur í sér hörmulega skoðanakúgun, múgsefjun og dauða. Sá lærdómur má ekki gleymast.

Fræðasamfélagið

Fremsta gagnrýnisafl hvers þjóðfélags er fræðasamfélagið. Hlutverk þess er m.a. að greina, gagnrýna, fletta ofan af og stinga á kýlum.

En nú ber svo við að þótt margir af fremstu sóttvarnalæknum og háskólaprófessorum við virtustu menntastofnanir heimsins hafi gagnrýnt lokunarleiðina og segja kaupverð hennar of hátt, berst endurómur þeirra sjónarmiða ekki til íslensks samfélags. Ekki heldur hörð gagnrýni evrópskra menntamanna sem horfa upp á álfuna fara sömu leið og Kína og BNA; að nota möguleika upplýsingatækninnar til að rekja, staðsetja og hlera alla íbúa sína, endurvekja landamærahindranir og herða að íbúum með lögregluvaldi.

Hér á landi birtir ríkislögreglustjóri reglulega fréttir af tíðni heimilisofbeldis, sem er sennilega afleiðing lokunar veitingastaða og stofufangelsis sóttkvíanna, en félagsvísindafólkið þegir þunnu hljóði. Ekki eitt orð um samfélagslega kostnaðinn af lokunaraðgerðunum. Sá reikningur bíður borgunar, kannski næstu ríkisstjórnar.

Fjölmiðlar

Íslenskir fjölmiðlar, einir og sér, leiða ekki um þessar mundir þjóðfélagslega gagnrýni (með góðum undantekningum), þeir þurfa sennilega aðhald frá stjórnarandstöðu, fræðasamfélagi og almenningi til þess.

Þeir hafa kannski ekki burði eða frelsi til að hugsa sjálfstætt og gagnrýnið, með einstaka undantekningum þó (þess vegna birtist þessi grein). Síbylja hræðsluáróðurs til stuðnings stjórnvöldum berst frá meginfjölmiðlum og komi það fyrir að sjónarmið gegn lokunarleiðinni séu birt þá svara fréttamennirnir þeim fullum hálsi í sömu fréttinni. Þetta er orðið alsiða hjá RÚV.

Þessi staða minnir auðvitað á stöðu fjölmiðlunar í Aserbaídsjan og gæti kallað á harðari lagaákvæði um RÚV til að skylda stofnunina til að virða öll málefnaleg sjónarmið.

Stjórnarandstaðan

Komið er að því að stjórnarandstaðan á Íslandi láti til sín taka. Stjórnvöld sem ekki fá aðhald fara smám saman að taka rangar ákvarðanir. Svo virðist sem hér sé lengra í land en í sumum nágrannaríkjanna að þjóðin verði frjáls í opnu landi og geti jafnframt búið við veiruna. Hér verða önnur gagnrýnisatriði ekki reifuð, en af nógu er að taka þegar um 20 þús. manns, vinnandi fólk og niður í börn, eru nánast í stofufangelsi. Á þetta sér ekki nokkra hliðstæðu meðal annarra þjóða.

Þótt stjórnarandstaðan megi í þröngum skilningi grafa eigin gröf og tryggja sér valdaleysi með því að mæra stjórnvöld eða þegja í skugga valds þeirra er meira undir, þ.e. sjálft lýðræðið og opin, frjáls fjölmiðlun.

Stjórnarandstaðan verður að vakna, enda getur orðið erfitt að ná einkennum eins vilja af þjóðfélaginu. Eins og er vill almenningur að allir gangi í takt og hefur oft litið á skoðanaskipti sem þras og gagnrýnendur hornauga – og það getur þurft að kenna þjóðinni að nýju að lifa í lýðræðislegu þjóðfélagi þar sem mörg blóm vaxa og dafna.

Lokaorð

Hér verður ekki rætt hvort kosningarnar 25. september sl. hafi verið haldnar við eðlileg lýðræðisleg skilyrði. Þá var endurkjörin ríkisstjórn sem hafði ekki í tvö ár haft stjórnarandstöðu gegn helstu gerðum sínum. Það bíður.

En í fyllingu tímans þarf að gera viðbrögð stjórnvalda og annarra aðila við faraldrinum upp á gagnrýninn og málefnalegan hátt, ekki af ríkisstjórninni sjálfri, heldur á vegum Alþingis og af óháðum aðilum – og hér erum við enn og aftur komin að hlutverki stjórnarandstöðu, hlutverki fræðasamfélagsins, fjölmiðlanna og grundvallarhugsununum um lýðræðislegt aðhald og lýðræðislegt þjóðfélag.