Facebook-færsla.
Stjórnarandstaðan virðist daðra við að nota lygina sem pólitískt verkfæri. Það er vissulega ekki einsdæmi í okkar heimshluta – nú þegar bandaríkjaforseti lætur gera gervigreindarmyndbönd af atburðum sem ekki hafa átt sér stað (svo maður taki ekki Brexit eða rússneska áróðurinn gegn ESB enn og aftur sem dæmi). Hrein ósannindi og tilbúningur koma daglega fram sem pólitískar staðreyndir.
Líkur benda til að þetta færist í vöxt með nýjum möguleikum gervigreindarinnar og því að lagasetning er langt á eftir tækninýjungum þannig að umhverfi almennings og stjórnmála er í lagalegu tómarúmi. Réttmæti orða og gerða byggir þannig á siðferðisþroska stjórnmálamanna og almennings, sem einnig hefur möguleika á að nota lygi.
Spurningin er: Megum við eiga von á stjórnmálum þar sem umræðan byggir á lygi? Að baráttan standi um hverju þjóðin trúir og hverju ekki? Hvers konar skautun kemur upp (eða mun íslenska þjóðin bara fyrirlíta upphafsmenn lyginnar, eins og skoðanakannarnir eftir málþófið gefa tilefni til að ætla?)
Stjórnarandstaðan er í hættulegum leik. En hún er ekki ennþá farin að falsa myndir, myndbönd, hljóðupptökur eða annað sem þróuð lygastjórnmál gera/geta gert.
Hingað til hefur íslensk stjórnmálabarátta meira verið háð með útúrsnúningum og hálfsannleika – og þegar hið rétta hefur verið rekið ofan í menn hafa þeir þagnað, það er hin íslenska viðurkenning. Hins vegar viðurkenna menn yfirleitt ekki beint að þeir fóru með rangt mál.
Er lygin, eru staðlausir stafir hættulegir?
Nú er það svo að mikil þekking liggur fyrir um áhrif lyginnar. Sérstaklega komu fram gagnlegar kenningar í uppgjöri við þriðja ríkið og kúgun Stalíns (Arendt). Beint samband er milli lygi og skautunar. Skautuninni fylgir síðan að fólk getur ekki sett sig í annarra spor og missir þannig tengslin við hluta af veruleikanum.
Arendt talaði líka um illsku yfirvalda – sem einkennist af mannfyrirlitningu og stjórnarhyggju. Krafan um að stjórna leiðir stjórnmálamenn í þá gildru að fyrirlíta fólk og vinna að áhrifaleysi þess með ýmsu móti – enda þótt áhrif þess séu réttmæt og lögleg. Ljótustu dæmin um illsku yfirvalda eru útrýmingarbúðir nasista og Gúlagið.
Ef taka á dæmi hér á landi – sem virðast í bili meinlítil, en eru sama eðlis – þá þarf að nefna óforsvaranlegar árásir stjórnarandstöðunnar gegn nýjum lýðræðislega kjörnum yfirvöldum – og vera má að skautunin komist á það stig að þau verði að beita sömu aðferðum. Þá væri illa farið.
Samband er milli skautunar sem verður til með lygi og uppkomu alræðis annars vegar – af því að völd eru tilgangur lyginnar – og niðurlægingu óvina þess hins vegar. Sérstaklega snýr niðurlægingin að sérstæði, fjölbreytileika og frumkvæði annarra – á grundvelli þess að mennskan hverfur með sambandsslitum við veruleikann og getunnar til að setja sig í annarra spor.
Þessi orð eru ekki tilgátur um áhrif lyginnar í stjórnmálum – heldur reynslurök sem ég fyrir mitt leyti er að reyna að túlka.
Látum þetta nægja um lygi í stjórnmálum – en vinir mínir mættu gjarnan ræða þetta nánar.