Facebook-færsla.
Um síðustu helgi var haldið málþing um málfrelsi – sem m.a. fjallaði um fréttamat meginstraumsfjölmiðla. Var þar margt ágætra manna og berst ilmurinn af málfrelsinu víða. Við skulum ræða um málfrelsi – en fá hugtök eru eins skreytt og skæld nú um stundir og það. Lesendur mínir mættu deila þessu innleggi – ástæða er til þess að hugsa um málfrelsið.
Málfrelsi var ekki hugsað sem markmið í sjálfu sér. Ekki fremur en systurhugtök þess, fundafrelsi og prentfrelsi. Fyrir báðum þessum hugtökum var barist í byltingunum í Evrópu fyrir nálægt tveimur öldum. Það var gert í tengslum við valdaumskipti – að völdin færu frá kóngum og aðli til fulltrúa almennings. Markmiðið var upptaka lýðræðis. Og til þess að almenningur gæti orðið fullgildur þátttakandi í lýðræðinu þurfti málfrelsi, fundafrelsi og prentfrelsi. Þetta eru verkfæri til að lýðræðið virki og þau dreifa réttmætum sjónarmiðum og upplýsingunni. Þau eru ekki verkfæri til að fella lýðræðið, þótt þau megi sjálfsagt misnota.
Þegar félagsmiðlarnir komu fram um 2010 raungerðust að nokkru leyti vestanhafs – í upphafslandi upplýsingatækninnar – draumar um að rödd almennings gæti orðið sterkari og beinni en áður og því fylgdu kröfur um beint lýðræði sem hið nýja ákvörðunartökuform. Jafnvel þannig að fulltrúalýðræði væri sniðgengið – að ég tali nú ekki um stofnanir þess, bæði stofnanir í skilningnum lögaðilar og opinberar stofnanir, og félagslegar stofnanir eins og stjórnmálaflokkar. Þó var hefðbundið evrópskt lýðræði ekki beinlínis skorað á hólm (þótt örlaði á því hér, hjá stjórnlagaráði). Það smábreyttist þó vestanhafs.
Þessar bandarísku grasrótarhugmyndir (aukið málfrelsi og beint lýðræði) bárust víða með netinu og ollu ásamt öðru arabíska vorinu. Hér voru Píratar málsvarar þessara hugmynda – þær umluku raunar mótmælin eftir hrunið – og þær höfðu líka, eins og áður er nefnt, mikil áhrif á stjórnlagaráð. Þá báru þær með sér kerfi eins og „Betri Borg“ í Reykjavík, sem í aðalatriðum byggir á sniðgöngu hefðbundinna lýðræðisstofnana og réttarreglna stjórnsýslunnar.
Nú hafa draugar þessara hugmynda frá Bandaríkjunum magnast. Þeir birtast í formi X – og jafnvel Facebook, nú, þegar það hefur mætt helstu kröfum Trump um breytingar – og jafnvel TikTok, sem Elon Musk mun bjóðast til að kaupa ef það verður bannað í BNA (sem er að nokkru leyti í hans höndum; raunar í höndum Trump og ríkisstjórnar hans). Nefndir leiðandi auðmenn – og Zuckerberg – telja sig málsvara málfrelsisins gagnvart kerfinu (establishmentinu) og eiga að stuðningsmönnum fjöldann allan af rótttæku fólki – einkum vestanhafs – sem er illa við hið fjarlæga ríkisvald sem það telur spillt og ekki vinna í sína þágu heldur auðmagnsins (sem er sennilega rétt).
Á sama tíma eru innslög Musk mögnuð upp á X á kostnað annarra og jafnvel gagnrýnna innslaga gagnvart fjármálalegu valdi, en hann hefur að sögn síðustu daga verið með yfir 60 innslög á dag. Hann segir ekki alltaf satt og oft eru orð hans gagnstæð sannreyndum vísindaniðurstöðum. Og árásir hans beinast að grunnstoðum vestrænna samfélaga – að samneyslunni, stofnununum (hverju nafni sem nefnast) og velferðarkerfunum. Það er vestræna lýðræðiskerfið sem er í sigtinu. Árásir hans beinast hins vegar ekki að fyrirgreiðslu auðsins í bandarísku stjórnkerfi – þó það sé hið upprunalega yfirvarp – þótt margir stuðningsmenn hans haldi það. Hann hefur nefnilega tekið að sér að lækka útgjöld bandaríska ríkisins um þriðjung.
Nú geta íslenskir fundarmenn á málfrelsisfundinum um síðustu helgi sagt mér að leiðandi auðmenn BNA séu helstu verjendur málfrelsis á Vesturlöndum – en þá verð ég nokkuð toginleitur. Valdið – hvort sem það er rússneska eða kínverska ríkisvaldið eða bandarískt auðvald – gæti viljað nota stöðu sína í fjölmiðlum sér í hag. Það getur verið að stytta sér leið þannig að það þurfi ekki lengur að sækja sér skattaafslætti og leyfi til framkvæmda til lýðræðisins. Það er miklu betra að losna við regluvæðinguna og stjórna beint.
Musk (og Zucherberg) er líka and-lýðræðislegur á þann hátt að hann er umboðslaus frá almenningi – hefur ekki hlotið kosningu af nokkru tagi.
Nú skulum við ímynda okkur að stuðningur helstu auðmanna bandaríska ríkisins við málfrelsið sé í almannahag. En hvernig á það að bæta hag þurfandi og þeirra sem eru fátækir og sjúkir í BNA að skera ríkisútgjöld niður um þriðjung? Ríkisútgjöld renna að miklu leyti til heilbrigðismála, félagsmála og menntamála. Þar liggur kostnaðurinn.
Málfrelsi er tæki til þess að almenningur geti stjórnað þjóðfélaginu með upplýstri umræðu. Það er ekki markmið í sjálfu sér og þess verður ekki krafist að hver og einn hafi jafnt frelsi til að segja ósatt og að segja satt. Hluti af okkar gildismati og sem við kennum hverju barni er að segja satt og rétt frá. Það getur enginn gert kröfu í nafni málfrelsis um að blekkja, afvegaleiða, vinna gegn almannahag eða um að fella lýðræðisstofnanir samfélagsins. Slík krafa hefur aðra yfirskrift. Af því að málfrelsið, fundafrelsið og prentfrelsið krefst félagslegrar afstöðu til mannlegs samfélags.