Málskotsréttur (20.06.2024)

Greinin var birt í Morgunblaðinu.

Útdráttur: Forseti lýsi því yfir að ef þriðjungur þingmanna óskar eftir að nýsamþykkt lög gangi til þjóðaratkvæðis, muni hann verða við því.

Hér er kynnt tillaga um að beiting málskotsréttar forseta beri að með breyttum hætti. Einvörðungu er rætt um beitingu hans vegna þrýstings frá almenningi og stjórnmálamönnum. Aðrar forsendur og málsatvik geta einnig komið til og er ekki rætt um þau hér.

Gerð er tillaga um að forseti lýsi því yfir að ef þriðjungur þingmanna (21) óskar eftir því að nýsamþykkt lög gangi til þjóðaratkvæðis, muni hann verða við því.

Ákvörðun forseta gildi til nokkurra kjörtímabila og verði reynslan af henni að þá metin. Mögulega verði stefnt að því að ákvörðunin verði að lokum færð í stjórnarskrá.

Fordæmi Dana er forvitnilegt, en þeir hafa haft hliðstætt ákvæði í stjórnarskrá frá 1953. Það virðist eiga drjúgan þátt í mótun þingræðishefða í landinu fremur en að leiða til þjóðaratkvæða­greiðslna, en aðeins ein hefur verið haldin á grundvelli þess.

Blokkir skiptist á

Hreyfanleiki í stjórnmálum er hugtak sem þýðir að stjórnarskipti verði með hæfilegu millibili. Fylgisbreytingar eiga að leiða til stjórnarskipta – jafnvel litlar fylgisbreytingar – en mörg kosningakerfi magna þær upp í þeim tilgangi, hjá okkur eru það úthlutunarreglan og þröskuldarnir.

Þá er átt við að stjórn­mála­blokkir – sem hefðin í okkar heimshluta er að séu til hægri og vinstri – sitji að ríkis­stjórn­ar­völdum og hafi meirihlutastuðning á þjóðþingi af og til; skiptist á í því efni.

Margskonar rök mæla með þessu módeli, sem í aðal­atriðum er við lýði í nágranna­ríkjunum – en ekki síst valdtemprunin, sem er meginatriði í okkar stjórnskipun og hættan á að langvarandi völd leiði til spillingar.

Pólitískur forseti?

Ef forseti svarar sjálfur almennri andstöðu í þjóðfélaginu við nýsett lög með því að setja þau í þjóðaratkvæði, tekur hann ákvörðun sem í eðli sínu er pólitísk.

Líklegt er að hann gangi gegn hluta almennings í því efni, enda þótt stuðningur við ákvörðun hans sé almennur. Ekki er að öllu leyti heppilegt að forseti taki slíkar ákvarðanir frá þeim sjónarhóli að forsetinn sé sameiningartákn fólksins og sitji á friðarstóli.

Megintilgangur með setningu íslensku og dönsku stjórnarskránna var að koma á óskoruðu þingræði.

Forseti og Alþingi

Eðlilegt er að færa málskotsvaldið á tilgreindum forsendum til stjórnmálanna og í takt við hlutverk forsetans samkvæmt stjórnarskrá, sem er einkum við stjórnsýslu á vegum löggjafarvaldsins, svo sem að setja, fresta og rjúfa þing, að minnsta kosti síðan þingræði var komið á.

Forseti veitir stjórnarmyndunarumboð að formi til að höfðu samráði og oftast samkvæmt vilja stjórnmálaleiðtoga og ekki er óeðlilegt að hann gefi tilskipun um málskot að vilja minnihlutans á Alþingi.

Fyrirkomulagið falli að þingræðinu

Forsendur breytingarinnar er nauðsynin á hreyfanleika stjórnmálanna. Ef forsetinn verður miðja stjórnmálalegrar ákvörðunar og ef áhrifamiklir aðilar út í samfélaginu leiða kröfuna um hana – en ekki stjórnarandstaðan – hefur orðið til stjórnarandstaða utan þings (for­set­inn og nefndir aðilar) sem með engu móti getur fylgt nýfengnum völdum eftir. Af því að þeir eru ekki leikendur í þingræðinu – sem stjórnarandstaðan er.

Hafa þarf í huga að ef lög sem ríkisstjórn kom í gegn á Alþingi falla í þjóðar­atkvæða­greiðslu, getur það með öðru leitt til stjórnarslita og jafnvel kosninga. Þær kosningar ætti stjórnarandstaðan við flestar aðstæður að vinna.

Líkurnar á því aukast ef hún hefur leitt andstöðu meðal almennings gegn þessum örlagaríku lögum. Þá erum við að styðja við hreyfanleika stjórnmálanna og valdtemprunina sem felst í stjórnarskiptum.

Leiði aðilar út í samfélaginu forystu gegn lagasetningu og fái tilstyrk forseta í sínu máli getur sú aðstaða komið upp að stjórnarandstaðan sé vaklandi í afstöðu sinni. Andstaðan við nýju lögin er þá ekki hennar baráttumál, að minnsta kosti ekki undir hennar forystu. Við þær aðstæður getur myndast gjá milli þings og þjóðar – sem rökstyðja má að hafi gerst.

Fýsileiki breytingarinnar

Þessi breyting gæti styrkt blokkamyndun til hægri og vinstri, en flokkar með samleit stefnumál þurfa að vinna saman til að þingræðið virki. Þá erum við að tala um að ríkisstjórn þarf að geta stjórnað. Ef ekki er blokkamyndun geta stjórnmálaflokkar frá gagnstæðum stjórnmálastefnum myndað ríkisstjórn – sem þá hefur eðlisþætti þjóð­stjórnar.

Þá hafa þátttakendur í ríkisstjórnarsamstarfinu allir neitunarvald og getur slík ríkisstjórn flokka bæði frá hægri og vinstri verið sem lömuð í allt of mörgum málum. Það höfum við séð.

Enda þótt þjóðstjórn geti verið æskileg við sérstakar aðstæður, verður hún að sitja stutt að völdum.

Lokaorð

Á einhverjum tímapunkti þarf að sitja hér svo samstæð ríkisstjórn að hún komi litlum og stórum grundvallarmálum í gegn: komi hús­næð­is­málum almennings í gott horf, geri honum kleift að komast hratt og vel í og úr vinnu og þrói kvikt heilbrigðiskerfi, ekki síst bráðaþjónustu – allt þetta annað hvort með einkarekstri eða í sam­félagslegum rekstri – sem er deiluefnið.

Rökstyðja má að ákvörð­un um rekstrarformið sé létt­vægari en að leysa verkefnin.