Facebook-færsla.
Eftir greinina í Mbl. 12. júní s.l. um réttmæti og lögmæti bótagreiðslna ríkisins til Borgarinnar vegna þess að hún getur ekki nýtt sitt verðmætasta byggingarland, sem er flugvallarsvæðið – hef ég verið spurður að því hvað geri flugvallarsvæðið að verðmætu byggingarlandi, t.d. fram yfir Geldinganes.
Ég svara þessu raunar að hluta í greininni, en get bætt við röksemd sem ég sleppti – en er sennilega mikilvægust. Flugvallarsvæðið er eina byggingarlandið vestarlega í Reykjavík sem myndi valda bifreiðaumferð í gagnstæða átt miðað við umferðarteppurnar núna, en þær eru í átt að borginni. Byggð á Akranesi, Hveragerði, Selfossi, í Reykjanesbæ – og svo auðvitað í úthverfum svefnbæjanna á höfuðborgarsvæðinu kallar á umferð að Borginni á morgnana og frá henni eftir vinnudaginn. Ef byggingarland er austan við, norðan við eða sunnan við Borgina teppast þessar leiðir algerlega. Ef byggt er á þessum stöðum meira en orðið er þarf að gera stofnbrautir fyrir hundruð milljarða eða meira. Jafnvel að grafa göng.
Munum að stærstu vinnustaðir landsins eru háskólarnir, Landspítalinn, vísindastofnanirnar í Vísindagörðum og stofnanir og rekstur í miðbænum. Bara í HÍ einum starfa um 20 þús. manns. Ef stór hluti starfsfólks áðurnefndra vinnustaða byggi á flugvallarsvæðinu þyrfti ekki kostnaðarsama samgönguinnviði. Ef þetta starfsfólk sækir vinnu annars staðar notar það stofnbrautirnar í gagnstæða átt miðað við úthverfafólk. Þær akreinar eru lausar að vestan; í austur, norður og suður á morgnana og til baka eftir vinnudaginn. Það þyrfti ekki meiri umferðarmannvirki í þær áttir.
Bara þessi einu rök fyrir verðmæti flugvallarsvæðisins sem byggingarlands nægja. Stofnbrautir uppá hundruð milljarða eða meira eru greiddar af ríkissjóði – og þá m.a. af landsbyggðarfólki. Það verða ekki boruð jarðgöng úti á landi á meðan. Að leggja lítinn flugvöll á sléttu hrauni í Hvassahrauni kostar hins vegar lítið.
Af þessum sökum leiðir að uppbygging flugvallarsvæðisins sparar ekki aðeins Borginni mikið, heldur ekki síður ríkinu og er þjóðhagslega það lang hagkvæmasta sem hægt er að gera hér á landi.
Og hana nú !
P.S. Þá er eitt ónefnt. Vinsamlega svarið þessu málefnalega, ekki úr hinum fáránlegu skotgröfunum hægri stjórnmálaflokkanna (sem eru á höttunum eftir dýrum atkvæðum landsbyggðarinnar þótt það sé á kostnað þjóðarhags).