Meirihluti Alþingis leggur niður vopn (nýbúinn að höggva)

Facebook-færsla.

Af hverju féll ríkisstjórnin frá tafarlausri framkvæmd auðlindagjalds á sjávarútveginn (en lét það í staðinn taka gildi í skrefum á kjörtímabilinu) og ákvað að falla frá öllum stjórnarfrumvörpunum sem biðu afgreiðslu á þingi? Hvort tveggja skömmu eftir að kjarnorkuákvæðinu var beitt. Ég hélt að kjarnorkusprengju væri ekki varpað nema menn ætluðu að sigra stríðið – en hún virðist hafa verið viðvörunarskot úr því vopn voru lögð niður strax eftir að henni var beitt. Kröftugt viðvörunarskot. Kjarnorkusprengjunni var sem sagt varpað og svo hljóp þingmeirihlutinn fram með hvítan uppgjafarfána. Hvað er í gangi?

Mögulega eru skiptar skoðanir innan ríkisstjórnarinnar gagnvart þeim frumvörpum sem nú falla dauð niður og þarf að endurflytja í haust. Það gæti átt við öryrkjafrumvarpið, Bókun 35, breytingar á búvörulögunum eða lögum um leigubílaakstur, kílómetragjöld, strandveiðifrumvarpið og fleiri. Önnur, s.s. Samningur Sþ um réttindi fatlaða, ættu að vera án mótstöðu nokkurra. En ef mótstaða er innan ríkisstjórnarinnar gagnvart einhverjum frumvörpum – kannski ólíkra stjórnarflokka gagnvart ólíkum frumvörpum – gæti einhverjum þótt æskilegt að semja um sem flest mál upp á nýtt áður en lengra er haldið – sem þýðir nánast að gera nýjan stjórnarsáttmála fyrir haustþing, eða nýjan á grunni hins gamla. Í öllu falli þarf að breyta tímalínu verkefna.

Þá getur verið að forsætisnefnd Alþingis vilji alls ekki láta hart mæta hörðu – ríkisstjórnir hafa áður kosið sólóista sem forseta þingsins, en heppilegt þykir að gamalreyndir og íhaldssamir einstaklingar sitji embættið. Það kann að vera hluti af skýringunni á því af hverju starfshættir Alþingis lagast alls ekki (nema síður sé). Munum að forsætisnefnd Alþingis á síðasta orðið um hvað gerist þar, ekki ríkisstjórnin – og það gæti verið sambandslítið þarna á milli. Þórunn Sveinbjarnardóttir beitti kannski kjarnorkuákvæðinu undir þrýstingi – það var í öllu falli hún sem lagði fram tillöguna um að auðlindagjaldið yrði afgreitt á morgun, en nánast öll önnur stjórnarfrumvörp féllu niður. Það var því hún sem reisti hvíta fánann, en varla hefur hún gert það án samráðs.

Svo mikið er víst að Döring sagði efnislega í grein í bókinni „Parliaments and majority rules in Western Europe“ 1995 að sá sem réði tíma þingsins réði því hvað yrði að lögum. Í rauninni er það hluti af kenningakerfi sem gengur út á að stjórnarsáttmálinn sé mikilvægasta forsendan fyrir dagskrá mála í þinginu. Í stjórnarsáttmála eru tilgreind málefnin sem leysa á og ríkisstjórnin setur fram tímalínu með áætlun sinni um framkvæmd þeirra á kjörtímabilinu. Og svo er bara spurningin hver ræður í þinginu. Ef vald ríkisstjórnarinnar yfir störfum þingsins er lítið (og það er tiltölulega lítið hér á landi miðað við nágrannaríkin) og enn frekar ef frjálsræði þingmanna er mikið – þá getur farið illa.

Munum að þetta snýst um landstjórnarhlutverk ríkisstjórnarinnar og meirihlutans. Ríkisstjórnin á að stjórna landinu. En hér hefur það gerst að minnihlutinn hefur hindrað hana í að ná og halda völdum sínum við landsstjórnina, ríkisstjórn sem kemur málum ekki í gegnum þingið er valdalítil eða -laus. Það er alvarlegt, enda falla ríkisstjórnir oftast vegna þess (i) að þær koma ekki málum sínum í gegnum þingið, (ii) þær tapa í þjóðaratkvæðagreiðslu, (iii) með vantrausti í þinginu og (iv) vegna fjöldamótmæla og verkfalla.

Það sem er að gerast hér, að ríkisstjórnin kemur ekki málum sínum í gegnum þingið – af hvaða orsökum sem það er og hversu furðuleg sem vopnbeiting hennar er í þinginu – þá skapar slíkt ástand mikla óánægju meðal stjórnarflokkanna; sumir hafa fengið fleira samþykkt en aðrir og sigrarnir sem áður voru innan seilingar eru ekki lengur í hendi. Það kemur upp óánægja og tortryggni og við þær aðstæður getur ríkisstjórnin fallið vegna innra ósættis. Í öllu falli þarf hún að endursemja stjórnarsáttmálann fyrir haustþingið og breyta tímalínu verkefna.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation