Texti greinar sem birtist í Morgunblaðinu.
Gervigreindin veldur formskiptum opinberrar þjónustu – en lagaumhverfi um upplýsingagjöf, persónuvernd, afgreiðslu og aðra þjónustu breytist ekki
Gagnger formskipti munu eiga sér stað í samskiptum hins opinbera og almennings á næstu misserum. Gervigreindin er nú þegar all góður stjórnsýsluráðgjafi, en vantar dýpt til að verða betri en menn. Sem tæknin lofar að verði. Stutt er í að hún þrói eigin getu hraðar og betur en menn geta gert. Og þá má spyrja: Hvað er langt í að gervigreindin gefi um hæl svar sem myndi taka opinberan starfsmann hálfa vinnuviku að undirbúa? Miðað við að gervigreindin tvöfaldi afköst sín á sjö mánaða fresti (sbr. the Economist) erum við að tala um fáein misseri.
Allt stendur og fellur með því að stjórnvöld gefi gervigreindinni gögnin sín, svörin sín, hvernig það afgreiðir almenning, álit, úrskurði og dóma. Auk alls annars. Lagasafnið er ekki að fullu opið, það vantar lög aftur í tímann. Mikið vantar af öðrum gögnum aftur í tímann (nema Alþingistíðindi), en fyrri ákvarðanir skapa fordæmi sem ekki er hægt að sniðganga órannsakaðar við nýja ákvarðanatöku – af því að samræmi þarf að vera í niðurstöðum opinbers valds.
Nú þegar veitir gervigreindin betri svör en vefir opinberra stofnana. Margir hafa kviðið því að almenningur þyrfti í framtíðinni að nota opinbera vefi – þeir eru misgóðir – en nú má eygja að hið opinbera geti hætt að reka vefi. Opinbert vald þarf aðeins að leggja allt sem það gerir út á netið.
Gervigreindin svarar almenningi um hæl eins og alfróður vinur, annað hvort skriflega eða munnlega. Í stað vefs eða apps ræðir notandinn við gervigreindina og þarf ekki lengur að skilja leyndardóma abstrakt gagnauppbyggingar á vef/appi heldur spyr hann og svarar eins og talað sé við starfsmann. Ef opinber gögn eru úti á netinu svarar gervigreindin skilmerkilega og rétt og kemur þannig í stað hins opinbera starfsmanns – svari hann yfirleitt. Með gervigreind verður svarað um hæl. Í því felst grundvallar breyting á þjónustu.
Flest framþróun er rökstudd með almannahag – að hagur almennings batni. Sem er auðvitað aðal atriðið í þessu tilfelli. En notkun gervigreindarinnar gefur hinu opinbera meira en öðrum. Það eru einkum opinberir starfsmenn sem nota opinbera vefi og þurfa öðrum fremur á opinberum gögnum að halda. Þá munu þeir ekki lengur þurfa að svara og leiðbeina almenningi eða hver öðrum. Vinna þeirra minnkar meira en allra annarra.
Til að framtíðin geti að þessu leyti orðið að veruleika þarf umbreytingu sem er mikið umfangsmeiri en þegar farið var frá pappír til tölvuforms. Nýlega hóf starfsemi fyrirtækið Lagaviti sem aðstoðar lögfræðistofur með notkun gervigreindar. Sem minnir á að einkafyrirtæki reyndi að fá einkarétt á lagasafninu á tölvutæku formi á sínum tíma – og þurfti Alþingi að beita klókindum til að ná til sín texta þess og opna hann almenningi. Auðvitað eiga réttarheimildir að vera opnar fyrir almenning – ekki má loka þær inni á lögfræðistofum eða bak við gjaldskylduhlið.
Óréttmætt væri ef almenningur þyrfti að greiða há notkunargjöld fyrir að leita upplýsinga um rétt sinn; að fá opinbera afgreiðslu; til að skoða réttarheimildir eða að sækja úrskurði eða dóma. Enn hrapallegra væri ef hið opinbera þyrfti að greiða fyrir notkun gervigreindar við vinnslu eigin gagna.
Hver nýtur ávinningsins af þessum formskiptum? Er það almenningur, beint með spöruðum tíma, betri svörum og hraðari afgreiðslu eða óbeint með lækkuðum útgjöldum hins opinbera og færri og skilvirkari opinberum starfsmönnum – eða er það einkageirinn. Ljóst er að einkageirinn er mikið ákafari en fulltrúar almennings.
Skyldur hins opinbera eru ekki að minnka, hvorki vegna stjórnarskrárákvæða, alþjóðlegra samninga eða almennra réttarreglna – skyldur til að upplýsa almenning um stöðu sína og veita aðrar opinberar upplýsingar. Öðru nær. Við búum í upplýsingasamfélagi þar sem almenningur á ríkulegan rétt og fjárhagsleg staða á ekki að skapa aðstöðumun hvað varðar opinber gögn. Gamla röksemdin frá því um 1990 á við; að almenningur hafi þegar greitt fyrir opinberu gögnin og það sé því tvígreiðsla ef hann þarf að borga fyrir nýja hagnýtingu þeirra.
Enda þótt hér sé einkum minnst á gögn sem verða til hjá stofnunum þarf varla að taka fram að ríkið þarf að kaupa höfundarrétt af mörgum grundvallarheimildum sem varða störf þess, s.s. af bókum á lagasviðinu. Hvaðeina sem varðar almenning þarf að berast gervigreindinni.
Alþingi og Stjórnarráðið þurfa að gefa í til að ná utan um áskoranir sínar vegna formskipta opinberrar þjónustu og samspils almennings og opinbers valds. Skilningur þarf að vera fyrir því að framfarir snúa ekki aðeins að einkageiranum (sem allt er ágætt) – heldur líka að samfélaginu og hvernig öryggi opinberrar þjónustu eykst. Rétt viðbrögð opinbera aðila í þessum formskiptum eiga að skapa þeim mikinn ávinning og svo það sé sagt einu sinni enn, þeir þurfa að eftirláta gervigreindinni gögn sín – svo vinnur hún verkin. Hins vegar er hugarfarsbreyting erfið, bæði fyrir stjórnmálamenn og embættismenn.
(Hér er ekki rætt um rekstrarmódel gervigreindar, vernd einkalífs eða önnur lagaleg og praktísk atriði.)