Opin stjórnsýsla og landamæri

Facebook-færsla.

Eitt af því allra versta sem fyrir mann getur komið er að fá óskir sínar uppfylltar. Nú hefur það nefnilega gerst að hátt settur lögregluforingi – sjálfur konungur landamæranna – hefur látið af störfum og hefur síðan ekki þagnað um starfsaðstæður sínar, skoðanaskipti og ýfingar við menn og um málefni. En er þetta ekki einmitt það sem ég hef beðið um? Hvað hef ég annars sagt sem varðar slík mál?

Jú, ég hef kvartað undan þegjandahætti fyrrverandi stjórnmála- og embættismanna í háum stöðum hér á landi og sagt að í lýðræðinu þyrftu þeir að leysa frá skjóðunni – það sé beinlínis lýðræðislegt hlutverk þeirra að gera þjóðinni grein fyrir því hvernig störfum og starfsaðstæðum þeirra var háttað. Í þessu efni hef ég minnst á æðstu menn bandarískrar stjórnsýslu, en það hættir varla svo maður í Hvíta Húsinu að hann ekki skrifi um vist sína í því húsi bók. Strax og hann hefur lokað dyrunum. Og dragi ekkert undan. Ég hef jafnvel sagt að sjálft lýðræðið krefðist slíkrar innsýnar í meðferð valdsins. En hér á landi sé allt botnfrosið í trúnaðar- og þagnarskyldu til æviloka. Við vitum ekkert um vinnu og vinnubrögð æðstu stjórnmála- og embættismanna þjóðarinnar. Nema kjaftasögur sem við getum eðlilega ekki haft eftir eða byggt nokkuð á.

Nú hef ég sem sagt fengið draum minn uppfylltan. Og fíla grön eins og Ísak óánægði. Hvað ef lögreglustjóri á landamærum segir frá brotalömum í starfi löggæslu sinnar – sem hefur í för með sér að óprúttnir menn og/eða alþjóðlegir glæpahringir eiga auðveldara en ella að komast inn og út úr landinu? Er hugsanlegt að skoðanaskipti milli dómsmálaráðherra, ráðuneytisstjóra hans, ríkislögreglustjóra og lögreglustjórans á landamærunum eigi bara alls ekki erindi við almenning? Allt niður í ómerkilegustu móðgunarmál!

Er einhver leið að sameina það að búa í opnu lýðræðisþjóðfélagi þar sem innviðir valdsins eru sýnilegir almenningi og að halda trúnað um það sem leynt á að fara – jafnvel um það sem kalla mætti ríkisleyndarmál?

Ég held reyndar að svo sé. Ég held að sjálfur tíminn sé lykillinn að því. Þá á ég við að einhver tími þurfi að líða frá brotthvarfi æðstu stjórnmála- og embættismanna úr starfi þangað til þagnarskylda þeirra rofnar. Ekki að hún sé ævilöng, heldur kannski fimm eða tíu ár. Á þeim tíma hefur allt breyst. Það breytist raunar margt hjá opinberu valdi á jafn stuttum tíma og tveimur árum.

En opinberir starfsmenn – og ekki síst lögregluforingjar sem borið hafa gríðarlega ábyrgð – hafa mjög ríka trúnaðar og þagnarskyldu. Þeim ber einnig að segja frá ef aðstæður þeirra í starfi eru óásættanlegar og ekki í almannahag – og þeim ber þá að gera viðeigandi ráðstafanir, segja af sér til að losa sig undan skyldum og/eða koma fram opinberlega eins og uppljóstrarar. Hvort er trúnaðar- og þagnarskylda Úlfars Lúðvíkssonar eða skylda hans til að segja þjóðinni frá stöðu mála mikilvægari?

Um það get ég ekki endilega dæmt. En framganga hans á sér fáar eða engar fyrirmyndir á seinni áratugum. Hann virðist meta skyldur sínar þannig að annars vegar beri honum að segja frá starfsaðstæðum í smáu og stóru – til góðs eða ills – og hins vegar meta það þannig að skyldur hans við að treysta landamæravörsluna séu ekki lengur fyrir hendi.

Enda þótt við vonum að dómgreind hans sé traust er útilokað að við samþykkjum seinna atriðið, að skyldum hans gagnvart landamæravörslunni sé lokið. Þær falla ekki niður við að ganga út frá skrifstofu dómsmálaráðherra. Þótt ég telji að þagnar- og trúnaðarskylda eigi ekki að gilda ævilangt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation