Texti greinar sem birtist í Kjarnanum.
—–
Nú hljóma orð eins og arðrán og auðmagn í opinberri umræðu, fátækt og mismunum – eins og ekkert sé eðlilegra en að lýsa samfélaginu með þessum hugtökum. Engu að síður er það svo að þessi hugtök hafa varla heyrst í áratugi og alls ekki það sem af er þessari öld: jafnvel hefur verið talið að við séum komin inn í stéttlaust samfélag eða að minnsta kosti samfélag með fullmótað velferðarkerfi sem sér til þess að allir hafi það gott. Slík stéttasamvinna og samábyrgð allra stjórnmálaflokka og verkalýðshreyfingar með auðvaldinu og markaðsþjóðfélagi þess hefur verið kennd við Blairisma og hefur átt sér stað á hinum Norðurlöndunum líka, þó hugtök eins og almannahagur standi mikið styrkari fótum þar.
Allt í einu kemur í ljós að til er „annað Ísland“ og „hin Reykjavík“ – rétt eins og stéttlausa samfélagið hafi verið nýju fötin keisarans. Fyrrverandi ritstjórar Morgunblaðsins láta sér ekki bregða og segja efnislega að þetta hafi alltaf verið í pípunum, aldrei hafi annað staðið til; misskiptingin í samfélaginu kalli á andsvar grasrótarinnar. Undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar og hins nýstofnaða Sósíalistaflokks hefur hugtakanotkunin í opinberri umræðu breyst og áherslur stjórnmálanna fylgja með.
Nú er opinberlega viðurkennt og jafnvel komið í Alþingistíðindi að um 70% aldraðra hafa eftirlaun undir fátæktarmörkum (28 þús. manns), þar af er mörg þúsund manns sem heldur heimili sjálft með um 100 þús. minna á mánuði en framfærslumörk Velferðarráðuneytisins með húsnæðiskostnaði segja til um. Staðan hjá öryrkjum er jafnvel enn verri. Það er líka viðurkennt að ekki sé hægt að lifa af lágmarkslaunum á vinnumarkaði, en algengt er að lægstu taxtar séu notaðir í ferðamannaiðnaðinum, einkum gagnvart erlendu vinnuafli – raunar þegar best lætur, erlent vinnuafl og jafnvel íslenskt vinnur nú sem verktakar hjá vinnuleigum – og nýtur því ekki grunnréttinda í samfélaginu af því að það vinnur ekki hjá raunverulegum vinnuveitanda sínum – og það greiðir ekki í lífeyrissjóði.
RÚV hefur brugðist við þessari nýju stöðu á vinnumarkaði og skrifaði hestaleigum og hrossabúum nýlega í nafni þýskrar áhugastúlku um íslenska hesta og spurðist fyrir um sumarvinnu – og mikill meirihluti þeirra ætlaði ekki að greiða stúlkunni lágmarkslaun. Þetta „annað Ísland“ og „hin Reykjavík“ var ósýnilegt fyrir nokkrum mánuðum. Kannski erum við bara búin að sjá toppinn á ísjakanum varðandi það hvernig farið er með vinnuafl á vinnumarkaði?
„Stéttleysinu“ hefur fylgt nýfrjálshyggja í stjórnmálum og nýsköpun í ríkisrekstri (NPM, hægri stefna um útvistun og markaðsvæðingu); hvort tveggja stefnur frá tímum Regans og Thatchers sem fengu ekki síst byr undir vængi með falli Berlínarmúrsins og áætlunarbúskapar í Austur-Evrópu. Hvernig er það annars – er sósíalisminn ekki örugglega endanlega dauður, eins og ritstjóri Fréttablaðsins hélt fram nýlega í leiðara? Í kjölfarið varð ríkisvaldið á Vesturlöndum opnara en áður fyrir hugmyndafræði auðvaldsins. Leiðandi stjórnmálamenn og ríkisforstjórar hér á landi afneituðu að hér sé stéttskipt þjóðfélag, að hér þurfi stöðuga stéttabaráttu til þess að setja markaðslögmálunum ramma og skilyrði – og hafa engan áhuga á samfélagslegu hlutverki ríkisins, almannavaldsins, t.d. við að hafa taumhald á frumstæðum og siðlausum markaðsöflum. Þessu er vel lýst í rannsóknarskýrslu Alþingis.
Það eru orðnir áratugir síðan sænska ríkið byggði 1 milljón ódýrra íbúða undir forystu sósíalista til að útrýma heilsuspillandi húsnæði og til þess að styðja láglaunastéttirnar og einnig er langt síðan félagsleg húsnæðiskerfi og verkamannabústaðakerfi störfuðu hér á landi. En þetta eru dæmi um það sem sósíalistar geta gert ef þeir komast til valda. Ríkisvaldið hér á landi er hins vegar á valdi ráðandi stéttar eins og áður segir og hefur verið það lengi og gildir einu hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn.
Tökum dæmi. Yfirvöld hafa lögleitt alþjóðlega sáttmála um að viðeigandi húsnæði sé mannréttindi, t.d. með samþykkt alþjóðasamnings um efnahagsleg, menningarleg og félagsleg réttindi. Samt er húsnæðisástandið á höfuðborgarsvæðinu þannig að allar launahækkanir ungs fólks og láglaunafólks eru étnar upp af leigusölum, seljendum húsnæðis – og búseta í heilsuspillandi húsnæði, kölluð óleyfisbúseta til þess að koma skömminni á leigjendurna – er meiri en nokkru sinni áður. Biðin eftir félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélaga fyrir þá sem verst standa er mörg ár, kannski kjörtímabil. „Ekki benda á mig“ segja ráðherrar og alþingismenn.
Allt hefur sinn tíma. Ný rödd heyrist, ný samfélagssýn birtist. Í ljós kemur að undirstéttin nýtur ekki góðærisins, þótt hagtölur fari upp og meðaltekjur þjóðarbúsins á mann séu með því mesta í heiminum. En orð eru til alls fyrst.