Prósentur og þröskuldar

Facebook-færsla.

Hvernig vilja stjórnmálamenn láta velja sig?

Ef síðustu kosningar snerust að einhverju eða miklu leyti (i) um prósentur og þröskulda, (ii) kjósendur eru ekki lengur trúir flokkum sínum en kjósa taktískt og (iii) umræða um stjórnmálastefnur, fyrirhugað stjórnarmynstur og hvað beri að gera/ekki gera í framþróun samfélagsins komst ekki að – eru þá góðar breytingar að verða á íslenskum stjórnmálum? Hvernig verða stjórnmálamenn framtíðarinnar valdir?

Áherslan á prósentur og þröskulda fyrir kosningarnar 30. nóv. 2024 átti – samkvæmt minni tilgátu – sinn þátt í því að þurrka út Vg og Pírata og felldi næstum því Framsóknarflokkinn – og hélt Sósíalistaflokknum úti í kuldanum eins og áður. Fækkaði flokkum á þingi um tvo. Það styður tilgátu mína að í forsetakosningum fyrr á árinu virtist þjóðin að einhverju leyti kjósa taktískt – og var fremur að refsa „verstu ríkisstjórn lýðveldistímans“ og „svikum“ ákveðins stjórnmálaforingja en að kjósa sér forseta (munum að þjóðaratkvæðagreiðslur geta auðveldlega snúist um annað en tilefni sitt og beint lýðræði er of frumstætt lýðræði til að vera notað í flóknu nútímasamfélagi).

En jafnvel þótt okkur finnist fyndið að prósentur og taktík ráði vali á forseta (sem situr svo sem ekki valdastöðu) þá er ekki víst að það sé góð aðferð til að velja alþingismenn. Af því að alþingismenn eru valdamiklir, setja okkur lög, móta samfélagið sem við búum í til framtíðar, gera alþjóðasamninga og ráða hvaða stjórnmálaöfl eru við völd (velja ráðherra).

Hér má staldra við áhrif Ólafs Þ. Harðarsonar á kosningar – en hann er tölfræðingur og hefur komið fram á kosningavökum og túlkað gögn tölfræðilega. Áherslur hans og áhugi eru á málum svo sem hvort þriðju maður í ákveðnu kjördæmi fari inn eða fjórði – og þær yfirskyggðu algerlega málefnalega umræðu. Segja má að áhrif hans – sem mikilvirkasta stjórnmálafræðings landsins til góðs eða ills – valdi því að ef stjórnmálamenn vilja ná fram umræðu um stefnumál sín og koma til kjósenda hvaða munur er á flokkunum, þá þyrfti að banna skoðanakannanir í 14 daga fyrir þingkosningar (og kannski banna viðtöl við Ólaf, heldur krefja fréttamenn um umræður um málefni).

Er mismunur á flokkunum? Í síðustu kosningum létu fjölmiðlar eins og enginn eða lítill munur væri á flokkum, en kosningarnar væru meira kapphlaup um prósentur milli þeirra – og þá kapplaup sambærilegra aðila. Litlu skipti hver þeirra sigraði, helst því hvaða formann maður hefði á sjónvarpsskjánum næstu fjögur árin. En kosningar eru ekki og eiga ekki að vera um kapphaup um prósentur – í sjálfu sér – heldur um málefni.

Rökstyðja má að verulegur og mikill munur sé á stefnum stjórnmálaflokkanna og gerólík samfélag mótist eftir því hverjir þeirra lenda í meirihluta. Það er því gríðarlega mikilvægt – sjálfur kjarni lýðræðisins – að kosið sé milli ólíkra stefna en ekki um kapphlaup um prósentur. Þar sem kjörseðill hvers kjósenda verður eins og miði í veðhlaupi spendýra.

Þessi áhrif (að kjósa taktískt á grundvelli prósentna en ekki málefna) magnast upp í nútímanum af því að kjósendur eru ekki lengur trúir flokknum sínum. Þeir ganga flestir óbundnir að borði og kjósa í taka við andrúmsloft kosningabaráttunnar. Og ef það andrúmsloft er sjúkt þá kjósa þeir hvorki í takt við hugmyndir sínar um þróun samfélagsins, mynda sér jafnvel ekki slíkar skoðanir í baráttunni – né út frá hagsmunum sínum.

Hvað segið þið um þessa tilgátu, Facebook-vinir mínir?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation