Ráðningarfesta opinberra starfsmanna

Facebook-færsla.

Fulltrúi Viðskiptaráðs, eða einhver ámóta fjandsamlegur aðili réttindum opinberra starfsmanna, hefur verið að gagnrýna ráðningarfestu þeirra. Það sé í raun illmögulegt að reka þá – þrátt fyrir ávirðingar.

Nú vill svo illa til að fulltrúi Viðskiptaráðs hefur mikið til síns máls. Vegna þess að ráðningarfestan ver eineltara og ofbeldisfólk og hindrar eðlilega framkvæmd laga og reglna um vinnuvernd. Þeir sitja sem fastast í skjóli ráðningarverndarinnar og með stuðningi lögfræðinga stéttarfélaga opinberra starfsmanna – meðan þolendur þeirra verða að hrökklast úr starfi (oft í útbruna) með tilheyrandi réttinda- og tekjumissi.

Þetta virðist bitna meira á konum en körlum, þó það sé ekki einhlítt.

Yfirmenn og stofnanir tapa yfirleitt fyrir rétti öllum málum sem snúa að ávirðingum opinberra starfsmanna og viðbragða við þeim, t.d. brottrekstri. Ég þekki ekkert mál þar sem lögfræðingar stéttarfélaganna verja þolendur. Þeir telja ráðningarfestuna sitt brýnasta mál.

Ég þekki hins vegar mál þar sem stéttarfélög hafa neitað að verja þolendur með lögfræðiþjónustu. Í þeim tilvikum hafa eineltararnir verið skjólstæðingar lögfræðinganna, t.d. vegna annarra og svipaðra mála.

Sjónarmið til stuðnings ráðningarfestu eru flest úrelt og með reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015 hefði þurft að aftengja ráðningarfestuna.

Af því að í okkar þjóðfélagi eiga eineltarar og ofbeldismenn að hverfa af vettvangi (af heimilum og vinnustöðum) og lög og reglur eiga að tryggja stöðu þolenda og að þeir missi einskis vegna ofbeldis. En það er nú ekki aldeilis þannig á opinberum vinnustöðum.

Jafnvel má fullyrða að ráðningarfestan sé ein af orsökum mikils útbruna kvenna hér á landi.

Ég gæti skrifað nokkuð langt mál um þetta, t.d. um skyldur vinnustaða um viðbrögð, sem opinberar stofnanir sniðganga flestar – en læt þessi orð nægja núna. Kannski kemur meira síðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Post Navigation